„Leyfið hárunum að rísa um jólin“

Í fimmta þætti Lestrarklefans á Storytel er sviðsljósinu beint á myrkari smásögur og skáldsögur. Við fáum að heyra upplestur Haralds Ara Stefánssonar úr fyrstu skáldsögu Inga Markússonar, Skuggabrúin. Rebekka Sif hitti svo Emil Hjörvar Petersen, sem er höfundur glæpahryllingsins Dauðaleit, í alræmdum undirgöngum í Hamraborg. Katrín Lilja Jónsdóttir og Victoria Bakshina ræða svo við Rebekku Sif um Skuggabrúna og tvö smásagnasöfn, Strætósögur eftir Þóru Sif Guðmundsdóttur og Yfirsjónir eftir Hlín Agnarsdóttur.

„Virkilega metnaðarfull saga“

Skuggabrúin eftir Inga Markússon er furðusaga sem fjallar um fjarlæga framtíð þar sem aðeins ein stjarna er eftir á himnum. Bókin kom nýlega út í kilju sem og hljóð- og rafbók. „Mér fannst hún frábær. Það er alls ekki auðvelt að skapa svona stófelldan heim,“ segir Victoria um þessa metnaðarfullu furðusögu. „Maður sekkur alveg ofan í þennan heim,“ samsinnir Katrín Lilja, „þetta er virkilega metnaðarfull saga.“

„Svo fór ég að hafa áhuga á hrollvekjum og að hræða fólk á íslensku,“ segir Emil Hjörvar Petersen um áhuga sinn á hrollvekjunni en í nýjustu bók hans, Dauðaleit, blandast glæpasaga við hrollvekjuna. Rebekka hitti Emil Hjörvar í merkilegum undirgöngum í Hamraborg, en Dauðaleit hefst einmitt í þessum göngum með hvarfi ungrar stúlku. Kópavogur hefur verið áberandi sögusvið í bókunum hans en Emil er einmitt uppalinn í Kópavogi.

„Viðbrögðin sem ég hef fengið frá þeim sem hafa búið í Kópavogi, eða komið í Hamraborg, tengja mjög sterkt við þennan stað, undirgöngin. Þau eru alveg alræmd, þau eru mjög drungaleg og já… Bara krípí.“

Myrkur og ljós í stuttum sögum

Gagnrýnendur Lestrarklefans rýndu einnig í tvö smásagnasöfn sem eiga það sameiginlegt að hafa bæði komið út sem hljóðbækur. Fyrst var smásagnasafnið Strætósögur tekið fyrir.

„Létt, þægileg hlustun. Hlýlegar sögur líka, gott að grípa í þær,“ segir Rebekka Sif um sögurnar. „Þetta eru við fyrstu sýn, bjartsýnar, jákvæðar sögur, en svo kemur í ljós að það er einhverskonar myrkur á bakvið,“ segir Victoria.

„Þó að viðfangsefni [sagnanna] getur verið þungt þá er alltaf einhverskonar ljós á endanum.“

Þær voru allar sammála um að þessar sögur hentuðu vel fyrir stutt ferðalag, líkt og í Strætó.

„Já, þá er þetta alveg fullkominn biti,“ segir Katrín Lilja.

Næst sneru þær sér að smásagnasafninu Yfirsjónir eftir Hlín Agnarsdóttur. „Mér fannst þetta frekar myrkar sögur og mér fannst jafnvel óþægilegt að hlusta á sumar þeirra. Að sama skapi eru þær svo fjölbreyttar, hún er með ótrúlega fjölbreytt sögusvið og persónur. Og í þessum stutta texta þá nær hún líka að hafa djúpar persónur. Maður fær virkilega samkennd með þeim og tengist þeim,“ segir Katrín Lilja sem var mjög hrifin af smásagnasafninu.

„Mér fannst þær ekki erfiðar, því þær endurspegla samfélagið mjög vel og allskonar sjónarhorn,“ segir Victoria sem fannst Hlín takast vel til. „Það er magnað hvað hún kemur miklu efni inn í eina sögu,“ segir Katrín Lilja. Að lokum mæla þær stöllur með hljóðbókum sem vert er að hlusta á.

Þáttastjórn er í höndum rithöfundarins Rebekku Sifjar Stefánsdóttur sem er einnig aðstoðarritstjóri www.lestrarklefinn.is.

mbl.is