„Fjöldi fyrirtækja býður upp á rafræna fræðslu“

Sverrir Hjálmarsson sinnir viðskiptaþróun og ráðgjöf hjá Akademias.
Sverrir Hjálmarsson sinnir viðskiptaþróun og ráðgjöf hjá Akademias. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fræðslusafn Akademias er framsækin og hagnýt námsleið í rafrænni fyrirtækjafræðslu. Þjónusta Fræðslusafnsins gefur fyrirtækjum, sveitarfélögum og stofnunum kost á að fjárfesta í mannauði sínum með fræðslu og starfsþróun með vaxandi hætti. Akademias hefur verið leiðandi hér á landi á sviði vendináms og verið stoð atvinnurekenda í að skapa verðmæti á vinnustöðum.

„Það er mikil þörf fyrir stöðugri endurmenntun því það sem við lærum í skóla úreldist svo hratt. Svo verður minna svigrúm til hefðbundins náms þegar við eldumst og því kemur rafræn fræðsla sér vel,“ segir Sverrir Hjálmarsson, sem sinnir viðskiptaþróun og ráðgjöf hjá Akademias.

Fræðslusafn Akademias hefur verið að gefa góða raun. Það sýnir …
Fræðslusafn Akademias hefur verið að gefa góða raun. Það sýnir árangurinn sem náðst hefur hjá núverandi viðskiptavinum svart á hvítu. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Fræðslusafn Akademias er það stærsta sinnar tegundar hér á landi. Þetta eru yfir 100 rafræn námskeið sem skiptast í sex flokka. Atvinnurekendur setja svo saman og búa til námsleiðir með okkar aðstoð út frá því sem þykir brýnast hjá hverjum vinnustað fyrir sig. Þá er vinna hafin við að texta öll námskeið á ensku og öðrum tungumálum þannig að allt starfsfólk geti átt jafnan möguleika á að fræðast,“ útskýrir Sverrir en Akademias leggur ríka áherslu á að framleiða vandað og gott námsefni og hafa fengið helstu sérfræðinga úr íslensku atvinnulífi til liðs við sig.

„Til að einfalda þetta þá má segja að atvinnurekendur sem eru í þjónustu hjá okkur séu í raun og veru með sína eigin rafrænu háskóla þar sem kennararnir eru helstu leiðtogar atvinnulífsins,“ en á meðal viðskiptavina Fræðslusafnsins eru stærstu fyrirtæki landsins.

Nýjungar í hverjum mánuði

Sverrir segir Akademias vera leiðandi í að aðstoða fyrirtæki og stofnanir við að gera lærdóm og fræðslu að grunnstoð í menningu þeirra. Í hverjum mánuði bætast ný námskeið við Fræðslusafnið sem birtast viðskiptavinum sjálfkrafa í kennslukerfum þeirra.

„Við erum í stöðugri framleiðslu og gefum út nýtt efni í hverjum mánuði. Nýjustu námskeiðin okkar eru Meðvirkni á vinnustað, Streita, Hraðlestur á vinnustað og Microsoft Bookings,“ lýsir Sverrir og bætir við að námskeið tengd andlegri heilsu séu sérlega eftirsótt. 

Akademias er í stöðugu framleiðsluferli á nýju og gagnlegu efni, …
Akademias er í stöðugu framleiðsluferli á nýju og gagnlegu efni, enda koma ný námskeið út í hverjum mánuði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það segir hann tilkomið vegna þeirrar vitundarvakningar sem hefur orðið í samfélaginu um kulnun og álagsþætti í leik og starfi. Fræðslusafn Akademias hefur orðið við vaxandi þörf og aukinni vitund um andlega heilsu með því að bjóða upp á fjölmörg slík námskeið, enda heill flokkur í fræðslusafninu um heilsutengd málefni.

„Við eigum mikið af efni tengdu andlegum málefnum og heilsueflingu í hvaða mynd sem er. Vinnustaðir sem eru nú þegar í viðskiptum við okkur hafa verið að raða saman slíkum námskeiðum í ákveðin lærdómsferli fyrir sitt starfsfólk. Slíkar námsleiðir köllum við spretti líkt og Heilsu-Sprettur eða Jafnvægis-Sprettur.“

Aðstaðan í Akademias er til fyrirmyndar en þar er lögð …
Aðstaðan í Akademias er til fyrirmyndar en þar er lögð rík áhersla á vandað og gott efni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ávinningur til framtíðar

Að sögn Sverris eru vinnustaðir í landinu farnir að taka ábyrgð á þjálfun og fræðslu starfsfólks í meira mæli en áður. Það sé þeim nauðsynlegt til að mæta hinum ýmsu áskorunum í starfsumhverfinu sem taka breytingum í sífellu. Hann segir mikla hagsmuni felast í stöðugri fræðslu og endurmenntun bæði fyrir vinnustaðina sjálfa og ekki síst starfsfólk þeirra. 

„Fyrirtækin finna til ábyrgðar. Það er mikilvægt að vera stöðugt að fræða fólkið sitt og koma inn nýjum hugmyndum og aðferðum svo mannauðurinn dagi ekki uppi. Í því leynast gríðarlegir hagsmunir allra. Starfsfólk gerir þá kröfu að færni þeirra fái að þróast og atvinnurekendur sem leita leiða til þess standa framar öðrum í samkeppninni um besta starfsfólkið.“

Viðskiptavinir Fræðslusafnsins greiða árlegt áskriftargjald af þjónustunni en er svo gert kleift að haga efninu eftir sinni hentisemi út frá þeim áskorunum eða tækifærum sem þeir standa frammi fyrir hverju sinni. 

„Þjónustan virkar þannig að þeir sem eru í viðskiptum við okkur gera 12 mánaða áskriftarsamninga og greiða fyrir það fast árgjald. Atvinnurekendur geta svo nýtt námsefni safnsins eftir því sem aðstæður kalla á hverju sinni,“ útskýrir Sverrir. „Þessi sveigjanleiki er sérstaklega mikilvægur þar sem stór hluti vinnumarkaðarins vinnur nú fjarvinnu og sá hópur mun aðeins stækka á komandi árum.“

Akademias er leiðandi fyrirtæki í að aðstoða vinnustaði í starfsmannafræðslu …
Akademias er leiðandi fyrirtæki í að aðstoða vinnustaði í starfsmannafræðslu og símenntun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skilvirkt nám hvar og hvenær sem er

„Í kennslufræðum heitir þetta vendinám sem þýðir að hefðbundinni kennslu er snúið á haus. Í stað þess að starfsfólk sé að mæta og hlusta á langa fyrirlestra þá fer upphaflega kennslan fram með rafrænum hætti. Í kjölfarið er svo haldin vinnustofa þar sem unnið er á dýptina með viðkomandi efni. Ávinningurinn af þessari nálgun er mikill þar sem þörfin fyrir tímafrekar vinnustofur eða fyrirlestra minnkar um leið og stuðlað er að hámarks eftirtekt. Þetta er lifandi námsefni og kemur það í hlut fyrirtækjanna að búa til hið fullkomna lærdómsferli.“

Sverrir segir misjafnt eftir námskeiðum hversu löng þau eru. „Það fer eftir umræðuefninu. Þetta getur verið frá 20 mínútum og upp í 5-6 klukkustundir en hvert og eitt námskeið er brotið niður í stutta kafla.“ 

Sverrir segir mikla hagsmuni felast í starfsmannafræðslu og nú þegar …
Sverrir segir mikla hagsmuni felast í starfsmannafræðslu og nú þegar séu vinnustaðir farnir að taka ábyrgð á slíku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann segir tilhögun þjónustunnar sérstaklega hagkvæma og skilvirka. Það hefur ánægja núverandi viðskiptavina Fræðslusafnsins leitt í ljós.

„Að senda einn starfsmann á námskeið út í bæ getur verið mjög kostnaðarsamt og eftirfylgni og annað tilheyrandi erfitt viðureignar. Oft verður þetta svo ómarkvisst. Það kemur stundum fyrir að starfsfólk er sent á námskeið og það kann meirihlutann af því sem er verið að kenna og stundum vita stjórnendur ekki einu sinni hvað fólkið er að fara að læra. Þar með er verið að sóa bæði pening og tíma sem vel er hægt að koma í veg fyrir með því að vera í þjónustu hjá Akademias,“ segir Sverrir sposkur. 

mbl.is