„Námsleið hönnuð fyrir stjórnendur og sérfræðinga“

Eyþór Jónsson, forseti Akademias.
Eyþór Jónsson, forseti Akademias. Ljósmynd/Aðsend

Akademias er framsækið fyrirtæki sem sérhæfir sig í stafrænni fræðslu og starfsþróun fyrir fólk í atvinnulífinu. Síðustu tvö ár hefur Akademias boðið upp á margvísleg námskeið fyrir háskólagengið fólk sem hyggst efla sig í starfi og/eða víkka sjóndeildarhringinn.

Eyþór Jónsson, forseti Akademias, segir námsleiðina miniMBA sem Akademias býður upp á, vera hannaða fyrir sérfræðinga sem vilja öðlast nýja sýn og auka árangur í leik og starfi. Námið stendur að jafnaði yfir í um þrjár til fimm vikur en kennt er tvisvar í viku, þrjár klukkustundir í senn. Það fyrirkomulag hentar vel fyrir einstaklinga sem eru virkir í atvinnulífinu og hafa áhuga á að stunda nám meðfram starfi eða finna sér nýjan starfsvettvang.

„Hugmyndafræðin með þessari námsleið er að nokkru leyti sú að blanda saman praktík og akademískri nálgun. Við leggjum meiri áherslu á að námið sé hagnýtt og notum mörg lifandi raundæmi úr atvinnulífinu,“ segir Eyþór. „Sú nálgun er kannski það sem gerir okkar starfsemi frábrugðna því sem gerist hjá öðrum skólum og menntastofnunum eða klassísku háskólanámi. Það koma nokkur hundruð einstaklingar að okkar námi sem leiðbeinendur.“

Námsleiðin er sniðin að stjórnendum og sérfræðingum sem hafa áhuga …
Námsleiðin er sniðin að stjórnendum og sérfræðingum sem hafa áhuga á að eflast í starfi. Ljósmynd/Aðsend

Einstaklingsmiðaðar lærdómsaðferðir

MiniMBA-námskeiðin hjá Akademias eru á þriðja tug talsins en öll námskeiðin er hægt að stunda hvort heldur sem er í stað- eða fjarnámi. Leiðbeinendur námskeiðanna eru valinkunnur hópur fólks með fjölskrúðugan bakgrunn úr atvinnulífinu.

„Við spyrjum okkur bara hver er bestur í þessari grein á landinu, hvaða fyrirtæki er að gera flottustu hlutina og fáum helstu sérfræðingana til liðs við okkur,“ segir Eyþór um val á leiðbeinendum námskeiðanna. Hann segir Akademias búa að stóru tengslaneti sem nái langt út fyrir landsteinana.

„Við hikum ekki við að fá helstu sérfræðinga erlendis til okkar og miðla sinni reynslu og þekkingu. Jafnvel fólk sem hefur skrifað helstu bækurnar í fræðunum eða fann upp greinina,“ segir hann og bendir á að heimurinn fari sífellt minnkandi með þeirri tækniþróun sem við þekkjum í dag. 

Leiðbeinendur miniMBA-námsins koma víðs vegar að en allir eiga þeir …
Leiðbeinendur miniMBA-námsins koma víðs vegar að en allir eiga þeir sameiginlegt að vera helstu sérfræðingar hverrar greinar fyrir sig. Ljósmynd/Aðsend

„Fólk upplifir það misjafnlega að stunda nám í fullri skólastofu eða sal eða í gegnum netið. Við viljum að fólk geti verið hvar sem er í heiminum en eigi samt athvarf hjá okkur í Borgartúninu líka. Ef fólk missir af einhverju þá eru alltaf til upptökur þannig að fólk hafi möguleika á að hlusta aftur eða spila upptökuna aftur á bak og áfram eftir hentisemi,“ segir Eyþór og bendir á að lögð sér rík áhersla á einstaklingsmiðaðar lærdómsaðferðir því ein aðferð henti alls ekki öllum.

„Við leggjum mikið upp úr því að hver og einn geti lært á sinn hátt. Sumir læra með því að lesa og kafa ofan í efni, aðrir í gegnum samtöl og samskipti við fólk og enn aðrir í gegnum aðgerðir og verkefni. Þannig að við gætum þess að ná til allra með ólíkum lærdómsaðferðum,“ útskýrir Eyþór og segir Akademias hafa heyrt margar ánægjuraddir með námsleiðina.

Námið er bæði mögulegt að stunda í stað- og fjarnámi. …
Námið er bæði mögulegt að stunda í stað- og fjarnámi. Það auðveldar fólki að stunda námið meðfram vinnu. Ljósmynd/Aðsend

„Það hefur myndast alveg ótrúlega skemmtileg stemning og höfum við oft heyrt fólk segja: „Vá, ég vissi ekki að það væri svona gaman í skóla.“ Þessi samnefnari hefur verið tengdur öllum okkar námskeiðum, enda gleði og skemmtun í takt við þekkingarmiðlun og þjálfun sem einkenna þau,“ segir hann.

Menntun fyrir tækifæri framtíðarinnar 

Á næstu vikum, öðrum hvorum megin við mánaðamót, hefjast fjögur ný námskeið í miniMBA-námsleiðinni; Viðurkenndir stjórnarmenn, Sérfræðingur í sölu og sölustjórnun, Leiðtogi í þjónustu og upplifunum og Leiðtogi í fræðslustjórnun og þjálfun starfsfólks.

Eyþór segir mikla verðmætasköpun felast í því að ljúka miniMBA-námskeiðum, hvort tveggja fyrir einstaklingana sjálfa en ekki síður fyrir fyrirtækin sem þeir starfa hjá. 

„Heimurinn er alltaf að breytast. Við höfum lagt upp með að hafa eitthvað tengt tækni í kennslunni. Tæknin er alltaf að verða mikilvægari og þykir okkur brýnt að kenna fólki að nota hana. Þá einna helst til að einfalda því lífið og vinnuna. Tækni getur hjálpað starfsfólki og fyrirtækjum að efla störf sín og gera þau þægilegri,“ segir Eyþór og telur að ákveðin straumhvörf hafi átt sér stað í viðskiptum og atvinnulífi síðustu ár og áratugi.

„Við erum sennilega stödd á mestu tímamótum í sögu viðskiptafræðinnar frá upphafi iðnbyltingar. Það hafa kannski ekki allir áttað sig á því en þetta hefur allt áhrif á það hvernig fyrirtæki eru uppbyggð og hvernig starfsfólk þarf að vinna. Það þarf að fræðast, leggja áherslu á þjálfun og læra í sífellu,“ útskýrir Eyþór og hvetur áhugasama stjórnendur og sérfræðinga að kynna sér miniMBA-námsleiðina hjá Akademias.

Akademias er framsækið fyrirtæki sem sérhæfir sig í stafrænni fræðslu.
Akademias er framsækið fyrirtæki sem sérhæfir sig í stafrænni fræðslu. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is