„Það er svo mikið virði í þessu vörumerki“

Elín Tinna, framkvæmdastjóri Útilífs, er spennt fyrir breyttum og nýjum …
Elín Tinna, framkvæmdastjóri Útilífs, er spennt fyrir breyttum og nýjum tímum hjá Útilífi. mbl.is/Arnþór Birkisson

Útil­íf boðar breyt­ingar og stefn­ir á að opna nýja og stór­glæsi­lega úti­vist­ar­versl­un í Skeif­unni 11 síðar í þess­um mánuði. Nú þegar rek­ur fyr­ir­tækið tvær íþrótta­vöru­versl­an­ir í stærstu versl­un­ar­miðstöðvum lands­ins, Kringl­unni og Smáralind.

„Við erum að leita aftur í gömlu góðu ræturnar,“ segir Elín Tinna Logadóttir sem hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Útilífs og mun hefja störf sem slíkur í febrúar. Áður starfaði Elín Tinna hjá 66°Norður og býr því yfir viðamikilli reynslu á þessu sviði.

„Ég er að koma ný og fersk inn í þetta og langar að ná að koma Útilífi í sinn fyrri dýrðarljóma. Í þeim áskorunum felast fjölmörg tækifæri sem ég er reiðubúin að takast á við,“ segir hún full eftirvæntingar að takast á við ný verkefni og breytta tíma hjá Útilífi.

Útilíf er rótgróið fyrirtæki sem á sér langa og farsæla sögu en það var stofnað árið 1974.

„Það er svo mikið virði í vörumerkinu – enda að verða 50 ára gamalt á næsta ári,“ segir Elín Tinna og brosir.

„Það eiga allir einhverja minningu eða tengingu við Útilíf. Hjá Útilífi finnur fólk hágæða fatnað og búnað frá fjölbreyttum vörumerkjum sem hjálpar því að gera það sem því þykir skemmtilegast. Í góðu samneyti hvert með öðru og náttúrunni. Við viljum styðja við heilbrigðari sál í hraustum líkama og hreinni náttúru fyrir alla.“

Flestir eiga einhverjar minningar úr Útilífi í Glæsibæ. Nýir eigendur …
Flestir eiga einhverjar minningar úr Útilífi í Glæsibæ. Nýir eigendur Útilífs hyggjast fara aftur í gamlar rætur með nýjum áherslum. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Nýjar áherslur á gömlum grunni

Síðustu misseri hafa miklar hrókeringar átt sér stað innan veggja Útilífs. Árið 2021 urðu eigendaskipti á fyrirtækinu þegar Íslensk fjárfesting og J.S. Gunnarsson keyptu Útilíf af Högum hf. Að sögn Elínar Tinnu er mikill eldmóður í nýjum eigendum Útilífs sem leggja allt sitt kapp á að umbylta starfseminni í fyrra horf.

„Kraftur og áhugi nýrra eigenda er öflugur. Frá því þeir tóku við hefur mikið átt sér stað en þeir bera mikla virðingu fyrir vörumerkinu og hafa ástríðu fyrir því að hefja það til fyrri hæða. Það er þeim mikið í mun að veita vörumerkinu þann kraft og þá ásýnd sem það á skilið.“

Ný og glæsileg útivistarverslun Útilífs opnar von bráðar í Skeifunni …
Ný og glæsileg útivistarverslun Útilífs opnar von bráðar í Skeifunni 11. Ljósmynd/Aðsend

Elín Tinna segir Útilíf vera á góðri vegferð og vinni markvisst að því að byggja á gömlum grunni sem sé traustur, sterkur og fastmótaður. Arkitektastofan Gláma Kím hannaði upplifunina innan verslunarinnar í Skeifunni 11. Marcus Oakley á teikningar en Brú Strategy sá um stefnumótun og hönnun.

„Við sjáum mikil tækifæri í því að byggja á þeirri sterku arfleifð sem Útilíf býr yfir með nýjum og nútímalegum áherslum. Viðskiptavinir Útilífs hafa í gegnum tíðina verið mjög breiður en traustur hópur og við viljum mæta þeirra kröfum, auka sýnileika okkar og hámarka upplifun með gleði, notalegheitum og fagmennsku að vopni. Við ætlum að mynda samfélag fólks sem ætlar sér lengra í íþróttum eða útivist, svipað því sem var í Glæsibænum á árum áður,“ segir Elín Tinna og bendir á að í nýju versluninni í Skeifunni verður notaleg kaffiaðstaða fyrir viðskiptavini.

„Það geta því allir komið til okkar og notið þess í botn að vera hjá okkur. Við viljum vera sá staður sem fólk leitar fyrst til og langar að vera á. Í Skeifunni mun fólk ekki bara fá viðeigandi búnað til þess að komast á leiðarenda heldur einnig ráðgjöf frá fagfólki og reynsluboltum,“ segir hún og vísar til þekkingar og fagmennsku sem starfsfólk Útilífs byggir á áratugalangri reynslu og háum starfsaldri sem ekki þekkist alls staðar.

Elín Tinna segir verslunina í Skeifunni eiga að vera áfangastað. …
Elín Tinna segir verslunina í Skeifunni eiga að vera áfangastað. „Við sjáum fyrir okkur að fólk komi þangað til þess að versla og vera,“ segir hún. mbl.is/Arnþór Birkisson

Ævintýragarðurinn Ísland

„Útilíf í Skeifunni á að vera áfangastaður. Við sjáum fyrir okkur að fólk komi þangað til þess að versla og vera. Arkitektastofan Gláma Kím hefur staðið sig frábærlega í að hanna upplifunina innan verslunarinnar og allt efnisval tekur mið af sjálfbærni, samvist og virðingu fyrir náttúrunni.“

Frá stofnun Útilífs hefur fyrirtækið verið leiðandi á sviði íþrótta og útivistar. Í gegnum tíðina hefur Útilíf sérhæft sig í að þjónusta íslenskt íþrótta- og ævintýrafólk á öllum aldri. Elín Tinna segir mikilvægt að mæta tíðarandanum og uppfylla nýjar kröfur og þarfir viðskiptavina sem séu síbreytilegar.

Ævintýrin hefjast í Útilífi. Markus Oakley hannaði og teiknaði þessa …
Ævintýrin hefjast í Útilífi. Markus Oakley hannaði og teiknaði þessa mynd en hún fangar ákveðna ævintýraþrá. Ljósmynd/Aðsend

„Eftir síðustu ár á tímum heimsfaraldurs þá held ég að það hafi orðið ákveðin vitundarvakning á Íslandi. Við áttuðum okkur á því að landið okkar er stórkostlegur ævintýragarður. Við erum heppin að vera á Íslandi, einum stærsta ævintýragarði í heimi þar sem við getum notið okkar í hvers kyns íþróttum og útiveru,“ útskýrir Elín Tinna og telur Íslendinga hafa uppgötvað forréttindin á eigin skinni þegar heimsfaraldurinn stóð sem hæst.

„Íslenska náttúran skiptir okkur miklu máli bæði fyrir líkamlega og andlega heilsu. Aukin lífsgæði og hamingja felast í heilbrigðum lífsstíl og aukin virðing fyrir náttúrunni skapast með því að kynnast henni og njóta af eigin raun. Útilíf hefur lagað sig að þessum gildum og þar af leiðandi mætt viðhorfum hjá gömlum viðskiptavinum og viðskiptavinum framtíðarinnar,“ segir Elín Tinna.

Nýja lógóið svipar til þess sem áður var og ekki …
Nýja lógóið svipar til þess sem áður var og ekki laust við smá nostalgíu brag. Ljósmynd/Aðsend
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »