Hefur staðið bolluvaktina í 44 ár

Alina Pop, verslunarstjóri Bakarameistarans í Holtagörðum.
Alina Pop, verslunarstjóri Bakarameistarans í Holtagörðum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er vertíð og síminn stoppar ekki. En þannig viljum við auðvitað hafa það alltaf,“ segir Sigurbjörg Rósa Sigþórsdóttir, framkvæmdastjóri Bakarameistarans.

Sigurbjörg hefur starfað í Bakarameistaranum hjá föður sínum og móður síðan 1979 og má því segja að fáir landsmenn hafi eins mikla reynslu af bolludeginum og hún. „Ég byrjaði 12 ára, maður vildi bara vinna og fá að vera með og sú ósk rættist. Ég fékk svo sannarlega að hjálpa til,“ segir Sigurbjörg sem er enn að.

Bolludagurinn nálgast óðfluga og verður á sínum stað næstkomandi mánudag. Sigurbjörg Rósa segir þann dag annasamasta dag ársins í bakaríinu en bolludagsbollur eru nú fáanlegar í öllum bakaríum Bakarameistarans.

Frábært úrval af bollum í Bakarameistaranum.
Frábært úrval af bollum í Bakarameistaranum. Ljósmynd/Aðsend

„Við erum með níu búðir á höfuðborgarsvæðinu og leggjum okkur fram við að þjónusta þær vel svo viðskiptavinir okkar fái allir sína uppáhalds bollu á bolludaginn.“

Aðspurð um vinsælustu bollutegundina stendur ekki á svörum hennar. „Það er klárlega klassíska vatnsdeigsbollan með súkkulaðiganasnum, jarðarberjasultunni og rjómanum.“

Fimm bollutegundir með gómsætum rjómafyllingum

Sigurbjörg Rósa segir rjómann gegna veigamiklu hlutverki þegar bollur eru annars vegar enda geti hann stundum verið eins konar punkturinn yfir i-ið. Þá segir hún undirbúning Bakarameistarans fyrir bolludaginn löngu hafinn og að mörgu þurfi að huga. 

„Við kaupum rjóma í tonnavís fyrir bolluvertíðina,“ segir hún. „Við verðum með fimm bollutegundir þetta árið. Fjórar vatnsdeigsbollur með mismunandi fyllingum eins og púnsrjóma og jarðarberjarjóma og svo er vatnsdeigsbollan með karamellunni líka rosalega vinsæl. Okkar gerbolla er svo vínarveislubollan en hún er fyrir allra hörðustu sælkerana.  Hún inniheldur vínarbrauðsdeig, sólberjasultu, vanillukrem, núggat, rjóma, glassúr og súkkulaðispænir. Sumir segja að hún sé „rollsinn“ og gæti verið máltíð fyrir tvo,“ segir Sigurbjörg og hlær.

Rjómafyllingarnar eru eins konar punkturinn yfir i-ið.
Rjómafyllingarnar eru eins konar punkturinn yfir i-ið. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við byrjuðum að undirbúa okkur fyrir þennan dag snemma í janúar. Í ár vill svo til að konudagurinn er á sunnudeginum fyrir bolludaginn og kaka ársins 2023 er komin í verslanir þannig það er mikið líf og fjör hjá okkur og í nógu að snúast,“ útskýrir Sigurbjörg sem þreytist seint á bolludagsfjörinu.

„Þetta verður stærsta helgi ársins hjá okkur og ætli konurnar verði ekki extra heppnar þetta árið og fái bollur með köku ársins? það væri ekki amalegt.”

Fjölskyldufyrirtæki í fararbroddi

Bakarameistarinn er eitt rótgrónasta bakarí landsins en foreldrar Sigurbjargar Rósu, Sigþór Sigurjónsson og Sigrún Stefánsdóttir stofnuðu bakaríið fyrir hartnær 45 árum. 

„Pabbi og mamma fluttu frá Húsavík til Reykjavíkur ung að aldri og opnuðu fyrst bakarí á Laugarásvegi 1. Þá var pabbi 22 ára. Í framhaldinu opnar Bakarameistarinn árið 1977 og hefur fyrirtækið verið rekið af fjölskyldunni allar götur síðan,“ segir Sigurbjörg sem er ein af sjö systkinum sem öll hafa á einhverjum tímapunkti komið að rekstri Bakarameistarans.

„Eins og er erum við fjögur núna sem önnumst reksturinn ásamt mökum. Svo vill svo til að þriðja kynslóðin er líka komin í vinnu og telst okkur til að fimm afkomendur föður míns hafa lært iðnina,“ segir Sigurbjörg og greinilegt að bakarabakterían gengur í erfðir innan fjölskyldunnar.

Þessi bolla svíkur engan.
Þessi bolla svíkur engan. Ljósmynd/Aðsend

„Það eru þrjár kynslóðir Sigþóra í fjölskyldunni og eru þeir allir þrír með tölu starfandi bakarar hlið við hlið auk þess sem dóttir mín hún Sigrún Sól Vigfúsdóttir er nýútskrifaður bakari með rós í Danmörku og er komin í konditor nám þar úti. Áhuginn á að læra bakaraiðn er mikill um þessar mundir sem er frábært fyrir okkar stétt, enda starfar einvala lið bakara hjá okkur.“

Ferskt og fjölbreytt bakkelsi

Í gegnum tíðina hafa viðskiptavinir Bakarameistarans gengið að gómsætu brauði og bakkelsi vísu enda er Bakarameistarinn stærsta handverksbakarí á landinu. Því hlutverki hefur svo sannarlega verið sinnt af kostgæfni síðustu áratugi þar sem brauðmeti og bakkelsi er bakað á staðnum úr hágæða hráefni.

„Við höfum alltaf haft það að leiðarljósi að vera í fararbroddi með nýjungar, bjóða upp á fjölbreytt vöruúrval, hafa góða fagmenn í bakstrinum og síðast en ekki síst nota gæða hráefni til að búa til úrvalsvöru,“ segir Sigurbjörg og kveðst að þeim áhersluatriðum hafi ætíð verið fylgt í rekstrinum.

Bolludagurinn nálgast óðfluga. Bollurnar eru að detta inn og tegundunum …
Bolludagurinn nálgast óðfluga. Bollurnar eru að detta inn og tegundunum fjölgar með hverjum deginum í verslunum Bakarameistarans. Ljósmynd/Aðsend

„Við bökum ostaslaufur, vínarbrauðslengjur og fleira allan daginn í verslunum okkar. Ilmurinn er lokkandi og vörurnar ferskar. Við getum líka bakað eftir eftirspurn og þar með komið í veg fyrir matarsóun eins og hægt er.“ 

Síðan árið 1990 hefur Bakarameistarinn boðið upp á veisluþjónustu sem hefur fest sig vel í sessi hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Það má því segja að næsta vertíð taki við af bolludeginum á næstu misserum þegar vorboðinn ljúfi heilsar í allri sinni dýrð. „Framundan hjá okkur eru fermingar og útskriftir en við höfum þjónustað einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir fyrir margvísleg tilefni,“ segir Sigurbjörg og bendir á einfalt pantanakerfi veisluþjónustunnar.

„Það er rosalega auðvelt að panta veislur, veislubakka, brauðtertur, brauðrétti og tertur á heimasíðunni okkar. Við erum spennt fyrir framhaldinu enda ótrúlega rík af frábæru starfsfólki í verslunum og framleiðslu. Svo tekur sumarið við með öllum ferðamönnunum, innlendum sem erlendum, og þá loksins fáum við vonandi gott og sólríkt sumar.“

Fermingar- og útskriftarveislur eru á næsta leiti. Bakarameistarinn hefur í …
Fermingar- og útskriftarveislur eru á næsta leiti. Bakarameistarinn hefur í yfir 30 ár boðið upp á veisluþjónustu. Ljósmynd/Aðsend


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert