Dótabúð fyrir handlagið heimilisfólk og iðnaðarmenn

Björn G. Sæbjörnsson ásamt samstarfsmönnum sínum hjá Verkfæra- og Lykillausnum.
Björn G. Sæbjörnsson ásamt samstarfsmönnum sínum hjá Verkfæra- og Lykillausnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Verslanirnar Lykillausnir og Verkfæralausnir eru litlar sérverslanir í eigu Véla & verkfæra. Verslanirnar, sem eru til húsa í Skútuvogi 1, hafa nú sameinast undir eitt þak og státa af fjölbreyttu vöruúrvali fyrir heimilið og iðnaðarmanninn.

Nýverið barst verslununum góður liðsauki þegar Björn G. Sæbjörnsson, fyrrum verslunarstjóri Brynju, og Hafsteinn Guðmundsson, starfsmaður Brynju til fjölda ára, voru ráðnir til starfa hjá Lykil- og Verkfæralausnum.

„Ég vann hjá Brynju í 26 ár og var þar lengi vel verslunar- og sölustjóri og Hafsteinn hafði verið sölumaður hjá okkur í 21 ár. Svo þegar það kom til á síðasta ári að selja ætti Brynju og svo síðar að henni ætti að loka var haft samband við mig héðan frá Vélum og verkfærum og mér boðið starfið,“ segir Björn, sem þáði boðið og starfar nú sem verslunarstjóri Vekfæra- og Lykillausna. 

Í verslun Verkfæra- og Lykillausna fæst allt fyrir iðnaðarmanninn og …
Í verslun Verkfæra- og Lykillausna fæst allt fyrir iðnaðarmanninn og handlagið heimilisfólk. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Hugmyndin með því að fá mig til starfa er fyrst og fremst sú að breyta um áherslur og bjóða upp á alhliða verkfæraverslun sem og veita áfram góða þjónustu í öllu sem viðkemur lyklum, skrám og lyklakerfum. Ekki síður ætlum við að reyna að halda í þann gamla góða anda sem var í verslun Brynju,“ segir Björn og telur enga vanþörf á slíkri verslun á markaðnum enda hafi alltaf verið tengsl á milli Brynju og Véla & Verkfæra.

„Upphaflega voru Brynja og Vélar & Verkfæri sama fyrirtækið,“ bendir Björn á. „Þessi tvö fyrirtæki eiga sama stofndag en klofna í sundur og fara í sitthvora áttina fyrir um það bil 80 árum og urðu í kjölfarið hvort sitt fyrirtækið út frá því.“ 

Verkfæralausnir - Lykillausnir undir einn hatt

Vélar & verkfæri er rótgróin heild- og sérvöruverslun sem á sér yfir 100 ára gamla sögu. Fyrirtækið hefur verið í rekstri frá árinu 1919 og hefur sérhæft sig í að þjónusta bæði einstaklinga sem og alla helstu byggingaverktaka og iðnaðarmenn landsins allt frá fyrsta degi. 

„Fyrirtækið á sér farsæla og langa sögu og hefur verið í eigu sömu fjölskyldunnar allan þennan tíma,“ útskýrir Björn og segir slíkar sögur af fyrirtækjum orðnar ansi fátíðar nú á dögum.

Mikið og fjölbreytt úrval verkfæra er að finna í verslun …
Mikið og fjölbreytt úrval verkfæra er að finna í verslun Verkfæra- og Lykillausna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Verslunin Lykillausnir opnaði fyrst fyrir rúmum þremur árum og hefur þungamiðja starfseminnar fyrst og fremst snúið að alhliða lyklaþjónustu. Nú hafa orðið breytingar þar á þar sem verslanirnar tvær, Lykil- og Verkfæralausnir, sem báðar heyra undir Vélar og Verkfæri, hafa sameinast undir eitt þak. 

„Við höfum unnið hart að því að taka verslunina í gegn og bæta vöruúrvalið út frá nýjum og breyttum áherslum. Við viljum að þetta verði alhliða verkfæraverslun með fjölbreyttu og góðu vöruúrvali. Pælingin er að þetta verði dótabúð fyrir handlagið heimilisfólk og iðnaðarmenn en ekki síður fyrir öll þau sem hafa gaman að því að smíða, föndra og ditta að ýmsum hlutum,“ segir Björn sem hefur víðtæka reynslu af verkfærum og verkfærasölu.

Starfsmenn Verkfæra- og Lykillausna eru fagmenn í öllu sem tengist …
Starfsmenn Verkfæra- og Lykillausna eru fagmenn í öllu sem tengist lása- og hurðabúnaði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gamlir kúnnar og nýir

„Eftir öll mín góðu ár í Brynju er maðurinn orðinn þaulvanur að þjónusta fólk og veit hvað það vill,“ lýsir Björn sem hefur fengið að miðla reynslu sinni og vitneskju með því að hafa áhrif á innkaup og vöruúrval Verkfæra- og Lykillausna.

Hann segir margt hafa breyst í heimi verkfæra og lausnum á lyklum og lásum. Breytingarnar séu einna helst vegna þeirrar snjallvæðingar sem átt hefur sér stað á heimsvísu í gegnum árin. 

„Íslendingar virðast vera óhræddir við að prófa nýjustu tækni og það er helsta breytingin sem ég hef orðið var við á mínum starfsferli. Það má samt ekki gleymast að þetta gamla góða klikkar sjaldnast og það þarf að vera til fólk sem kann lag á þeim lausnum líka. Það passar ekki alltaf að nýta nýjustu tækni þó hún sé góð. Það er líka gaman að segja frá því að við bjóðum upp á lyklasmíði í gamlar skrár líkt og gert var í Brynju,“ segir Björn og kveðst finna fyrir ánægju þegar gamlir viðskiptavinir Brynju láta sjá sig í verslun Verkfæra- og  Lykillausna. 

Verslun Verkfæra- og Lykillausna hefur tekið breytingum undanfarið og boðað …
Verslun Verkfæra- og Lykillausna hefur tekið breytingum undanfarið og boðað nýjar áherslur í anda verkfærasölunnar Brynju sem var og hét. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Já, maður sér oft gömul andlit bregða fyrir. Við höfum verið að sjá töluvert mikið af gamla kúnnahópnum koma til okkar hingað í Skútuvoginn. Það finnst mér afspyrnu gaman og er þakklátur fyrir það. Við vonumst líka eftir því að sjá ný andlit og ekki síður þau sem voru hætt að nenna að koma til okkar í Brynju,“ segir Björn og vísar til fækkunar á bílastæðum og lokun á almennri umferð á Laugaveginum. 

„Hér er nóg af bílastæðum og aðgengi mun auðveldara og betra,“ segir hann og bætir við að í marsmánuði verði gleði og góð og tilboð á vörum í Verkfæra- og Lykilausnum sem enginn ætti að láta framhjá sér fara.

„Að tilefni breyttra áherslna og og auknu vöruúrvali ætlum við samfara breytingu á nafni verslunarinnar í Verkfæralausnir – Lykillausnir að vera með góð tilboð á mörgum vörum í mars. Til okkar geta allir komið og fundið hitt og þetta á frábæru verði,“ segir hann fullur tilhlökkunar.  

mbl.is