Meiri hugarró með betri fjárhagslegri heilsu

Jóhannes Eiríksson, framkvæmdastjóri Aurbjargar, segir að fjármál geti valdið fólki …
Jóhannes Eiríksson, framkvæmdastjóri Aurbjargar, segir að fjármál geti valdið fólki mikilli streitu og til dæmis sýni rannsóknir að ein meginástæða hjónaskilnaða séu fjárhagsörðugleikar. Ljósmynd/aðsend

„Meginmarkmið okkar hjá Aurbjörgu er að hjálpa fólki að lifa betra lífi með því að auka lífsgæði, hvort sem er með því að spara pening eða einfaldlega veita fólki meiri hugarró. Fjárhagsleg heilsa er í raun lýðheilsumál því fjármál geta verið svo mikill streituvaldur,“ segir Jóhannes Eiríksson, framkvæmdastjóri Aurbjargar.

Á morgun, 25. mars, fer fram Aurbjargardagurinn með yfirskriftinnni „Heilsaðu upp á fjármálin“ sem verður í boði fyrir almenning í Grósku. Þar segir Jóhannes að flutt verði skemmtileg og fræðandi erindi sem snerti fjármál einstaklinga og fjölskyldna og vitanlega sé aðgangur ókeypis. „Fjármál geta verið flókin og jafnvel fráhrindandi en við stillum erindunum þannig upp að þau séu létt og höfði til allra aldurshópa. Allt frá því hvernig best sé að komast inn á fasteignamarkaðinn yfir í að mörg okkar eigi aðeins meiri pening en við höldum að ógleymdu því hvernig best sé að njóta efri áranna fjárhagslega.“

Fjármálaörðugleikar valdi hjónaskilnuðum

Jóhannes talar um að markmið Aurbjargar sé einnig að opna augu fólks fyrir því hvernig megi skilja fjármál betur sem og að bæta fjármálin sín. „Oft fær maður á tilfinninguna að það sé erfitt að ræða einstaklingsfjármál í samfélaginu en rannsóknir sýna til að mynda að fjármál geta verið ein meginástæða þess að fólk sefur illa á nóttinni og eins geta fjármál verið stór ástæða hjónaskilnaða. Fólk kann að veigra sér við að takast á við fjárhagsvanda sinn. Við hjá Aurbjörgu viljum, með Aurbjargardeginum og síðunni okkar, gera fjármálin aðgengilegri fyrir fólk og aðstoða það,“ segir Jóhannes.

Á Aurbjargardeginum í Grósku á laugardaginn verður boðið upp á …
Á Aurbjargardeginum í Grósku á laugardaginn verður boðið upp á alls kyns fróðlega fyrirlestra um fjármál og er aðgangur ókeypis. Ljósmynd/aðsend

Fjármálin sitja oft á hakanum

Þá segir Jóhannes að efnahagsástandið á Íslandi í dag ýti verulega undir að fólk hugi vel að fjármálum sínum og velti fyrir sér í hvað peningarnir fara sem og hvaða möguleikar standi til boða. „Við reynum að fyrirbyggja að fólk lendi í vandræðum með því að einfalda fjármálin og benda á tækifærin sem bjóðast. Við köfum djúpt ofan í flókin viðfangsefni, greinum og skilum einföldum og myndrænum niðurstöðum þannig að fólk sjái skýrt hvaða möguleikar eru í boði hverju sinni. Það er svo margt í boði í fjármálum og þetta verður hálfgerður frumskógur að skoða. Það eru allir svo uppteknir og svo mikið áreiti og þá getur verið erfitt að ætla sér inn í þennan fjármálafrumskóg. Þar með lætur fólk þetta málefni oft sitja á hakanum,“ segir Jóhannes og bætir við að það séu klárlega vannýtt tækifæri hjá langflestum að gera betur í eigin fjármálum en skiljanlega geti það verið flókið.

Sparnaður upp á milljónir króna

Sem dæmi nefnir Jóhannes húsnæðislán en ekki séu margir sem geri sér grein fyrir því að þeir eigi ekki bara lántökurétt hjá sínum viðskiptabanka heldur kannski hjá allt að sjö mismunandi lántökum. „Að skoða þessi mál gaumgæfilega gæti jafnvel sparað fólki milljónir króna. Ef við tökum tryggingar, raforku, fjarskipti og fleira sem fólk greiðir í hverjum mánuði þá getur þetta safnast saman og sparnaðartækifærin geta numið tugum þúsunda eða jafnvel hundruðum þúsunda yfir árið. Aurbjörg býður upp á tæki og tól til að sjá þessi tækifæri og taka upplýstari, meðvitaðri og betri ákvarðanir í fjármálum sem aftur leiðir til meira gagnsæis og samkeppni á mörkuðum. Lausnunum okkar er ætlað að búa til verðmæti til hagsbóta fyrir venjulegt fólk,“ segir Jóhannes uppveðraður.

Að taka stjórn á eigin fjármálum

Ný og mikið endurbætt síða er í burðarliðnum að sögn Jóhannesar en hún verður sett í loftið þann 25. apríl næstkomandi. „Með nýju vefsíðunni erum við að stíga inn í framtíðina en vefsíðan mun gjörbylta því hvernig einstaklingar og fjölskyldur geta hugsað um fjármálin sín. Vissulega stór yfirlýsing en við stöndum við hana. Aurbjörg verður vettvangur fyrir fólk til að taka stjórn á eigin fjármálum, safna fjárhagsupplýsingum sínum á einn stað og búa til verðmæti úr upplýsingunum. Það verður öflugt stjórnborð sem tengist þvert á alla þjónustu sem Aurbjörg veitir og fólk sér því fjármálin sín á mjög skýran og myndrænan hátt. Þá verða ýmsar sjálfvirkar tengingar, til dæmis við Þjóðskrá, Samgöngustofu, banka og fleiri stofnanir þannig að alls kyns hlutir verði sjálfvirkir. Aurbjörg getur til dæmis látið vita þegar betri vaxtakjör bjóðast eða skoða þarf bílinn til að forðast háa sekt. Þannig er Aurbjörg að vinna allan sólarhringinn allan ársins hring og lætur áskrifendur vita ef tækifæri bjóðast,“ segir Jóhannes með ákafa og sýnilega spenntur fyrir framtíðinni. „Svo má ekki gleyma að minnast á annað spennandi verkefni en í samstarfi við mbl.is mun Aurbjörg vera með sex þætti um fjármálalæsi á mbl.is í lok apríl og þar mun fólk geta fræðst og þjálfað upp fjármálalæsi sitt. Ekki veitir af eins og efnhagsástandið er um þessar mundir.“

Aurbjörg.is opnar nýja vefsíðu í lok apríl þar sem hægt …
Aurbjörg.is opnar nýja vefsíðu í lok apríl þar sem hægt er að sjá á myndrænan hátt hvaða möguleikar standa fólki til boða í fjármálum. Ljósmynd/aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert