Hvernig í ósköpunum er hægt að safna fyrir íbúð?

Ástandið á fjármálamörkuðum hefur oft verið betra en nú. Því hefur sjaldan verið mikilvægara að leita skynsamlegra leiða í fjármálum heimilisins.

Í myndskeiðinu hér að ofan fer Tinna Björk Bryde, viðskiptaþróunarstjóri hjá Aurbjörgu, ofan í kjölinn á því hvernig hægt er að setja sér fjárhagsleg markmið með einföldum hætti, einungis með því að hugsa örlítið út fyrir kassann.

„Í dag langar mig að deila með ykkur sögu um fjárhagsleg markmið. Ég held að það séu margir ungir einstaklingar þarna úti sem eru að velta fyrir sér hvernig í ósköpunum þeir eiga að safna sér fyrir íbúð,“ segir Tinna og deilir persónulegri sögu af 17 ára syni sínum langar að kaupa sér fasteign þegar hann hefur náð 25 ára aldri.

Óhugsandi að leggja fyrir 100 þúsund krónur á mánuði

„Hann var að velta fyrir sér hvernig hann gæti látið þetta ganga upp og hversu mikinn pening hann þyrfti að eiga,“ segir Tinna sem byrjaði á því að þræða helstu fasteignavefina til að skoða verð og fasteignamat á þriggja herbergja íbúðum í heimabæ þeirra mæðgina.

„Meðalverð á íbúðum var 60 milljónir króna. Þegar þú ert að kaupa fyrstu eign þá er lágmarksútborgun 10%. Þannig ef hann myndi kaupa eign í dag þá þurfti hann að eiga sex milljónir,“ útskýrir Tinna og aðstoðaði son sinn við reikningsdæmið sem í fyrstu leiddi til uppgjafar af hans hálfu.

„Við deildum 10 milljónum niður á átta ár og þá kom í ljós að hann þyrfti að leggja fyrir 100 þúsund krónur á mánuði. Þarna féllust honum pínu hendur. Hvernig í ósköpunum átti hann að fara að því að leggja fyrir 100 þúsund krónur á mánuði - í átta ár?“ spurði sonurinn sig og þótti það óhugsandi upphæð.

2% launahækkun í boði fyrir þig

Sem betur fer var hægt að finna leið sem auðveldar sparnað og hjálpar til við að ná settum markmiðum. Viðbótarlífeyrissparnaður er góð leið til að drýgja sparnaðinn en öllum einstaklingum á vinnumarkaði sem hafa náð 16 ára aldri býðst að nýta sér slíkan sparnað.

„Við skoðuðum viðbótarlífeyrissparnað. Það er í boði að leggja 2 eða 4% af heildarlaunum í þennan sparnað mánaðarlega og vinnuveitandi greiðir 2% á móti. Þetta er í raun tvö prósent launahækkun,“ segir Tinna og bendir á að með viðbótarlífeyrissparnaði gefst einstaklingum á vinnumarkaði möguleiki á að leggja allt að 6% af heildarlaunum sínum inn á þess konar sparnað mánaðarlega, skattfrjálst.

„Athugaðu, þetta er dregið af launum áður en skattur er dreginn frá. Þetta er fremur auðveldur sparnaður þar sem þú þarft ekki að gera neitt nema að stofna slíkan sparnað og láta vinnuveitandann vita og hann sér um greiðslurnar,“ útskýrir hún og tekur svo dæmi: Sá sem er með 300 þúsund krónur í heildarlaun á mánuði sparar sér allt að 18 þúsund krónur mánaðarlega með viðbótarlífeyrissparnaði. Sú upphæð er góð byrjun á sparnaði og segir Tinna að skyndilega hafi það runnið upp fyrir syninum að það er gerlegt að safna sér fyrir íbúð.

Draumar geta ræst

„Næsta sem við gerðum var að áætla vænt laun næstu átta árin og við fundum það út að hann hafi mögulega náð að spara sér eina og hálfa milljón í viðbótarlífeyrissparnað. Þarna voru 15% komin og nú voru bara átta og hálf milljón eftir. Allt í einu virtist markmiðið um að kaupa sér íbúð fyrir 25 ára aldur ekki svo langsótt,“ segir hún.

„Með því að reikna dæmið til enda, búa til áætlun og nýta viðbótarlífeyrissparnaðinn, þá sá sonurinn að hann þyrfti ekki að búa heima næstu 20 árin. Ég ég held að við höfum bæði verið svolítið sátt við það.“

Aurbjörg aðstoðar þig við að taka skynsamlegri ákvarðanir í fjármálum og öðlast skýrari yfirsýn yfir tekjur og gjöld, eignir og skuldir. Settu þér fjárhagsleg markmið og láttu drauma þína rætast - það er allt hægt með viljann og skipulagið að vopni.

mbl.is