Á sömu kennitölu í 45 ár

Lárus Björnsson, rekstrarstjóri Skorra.
Lárus Björnsson, rekstrarstjóri Skorra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rafgeymasalan Skorri á sér langa sögu en fyrirtækið var stofnað árið 1978 og er enn þann dag í dag rekið á sömu kennitölu. Skorri er til húsa á Bíldshöfða 12 og hefur fyrirtækið frá fyrsta degi sérhæft sig í innflutningi og sölu á TUDOR-rafgeymum, sem segja má að sé þungamiðja starfseminnar í dag, en í upphafi seldi Skorri miðstöðvarofna og fylgihluti. Slíkri sölu hefur verið hætt og áherslur fyrirtækisins breyst með tíð og tíma.   

„Nú einbeitum við okkur að rafgeymum og fleiru í þeim dúr, ásamt sólarrafhlöðum og öllu tengdu rafveitu í sumarhúsum, fjallaskálum og þess háttar,“ segir Lárus Björnsson, rekstrarstjóri Skorra, um fjölbreytt vöruúrval og þjónustu fyrirtækisins. 

Starfsmenn Skorra eru sérfræðingar í rafgeymum.
Starfsmenn Skorra eru sérfræðingar í rafgeymum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sérfræðingar í rafgeymum

„TUDOR hefur verið okkar aðalsmerki í gegnum árin og við erum feikilega stoltir af því enda er vörumerkið margrómað fyrir gæði og góða endingu,“ segir Lárus og bendir á að sérstaða TUDOR-rafgeyma sé sú að þeir henti fólksbílum í öllum stærðum og gerðum en eru ekki síður hentugir í allar gerðir vinnuvéla, skipa og ýmissa ferða- og frístundatækja. 

„Bílar hafa verið að þróast og taka breytingum en TUDOR framleiðir rafgeyma fyrir allar tegundir bíla og eru viðurkenndir af öllum helstu bíla- og vélaframleiðendum heims,“ segir hann en ásamt TUDOR hafa fleiri hágæðavörumerki bæst við vöruúrvalið. Þar má helst nefna merki á borð við CTEK, Exide og Mascot. Þau vörumerki framleiða nýtískuhleðslutæki sem vernda og viðhalda hleðslu rafgeyma. 

Hraðþjónustan hjá Skorra er vinsæl meðal bíleigenda. Í flestum tilvikum …
Hraðþjónustan hjá Skorra er vinsæl meðal bíleigenda. Í flestum tilvikum þarf ekki að panta tíma fyrir fram. mbl.is/Kristinn Magnússon

Líkt og fram hefur komið er rafgeymasalan stærsti hluti fyrirtækisins og má finna fjölda tegunda á lager daglega eða um og yfir 220 stærðir. Nýjast á því sviði eru ákveðnir rafgeymar fyrir bíla með sérstökum ræsibúnaði og „lithium“ rafgeymar fyrir mótorhjól. 

„Flestir nýir bílar, sem ekki eru rafbílar eða tvinnbílar, eru með svokallað „stop-start“ kerfi þar sem bíllinn drepur á sér þegar hann er stöðvaður og ræsir aftur þegar stigið er á bensíngjöfina. Þetta bæði sparar eldsneyti og er umhverfisvænt. Það þarf sérstaka rafgeyma í þessa bíla sem TUDOR framleiðir og við seljum og þjónustum hjá Skorra,“ útskýrir Lárus. „Allir rafbílar eru líka með venjulegan 12 volta rafgeymi eins og bensín- eða díselbílar og hafa þeir verið að koma til okkar í vaxandi mæli en einnig seljum við rafgeyma í rafknúin atvinnutæki eins og gólfþvottavélar, vinnulyftur og rafmagnslyftara.“

Skorri rekur hraðþjónustu sem gerir bílaeigendum kleift að koma með bílana sína í rafgeymamælingu og rafgeymaskipti. Mikil eftirspurn hefur verið í gegnum tíðina  eftir rafgeymaþjónustu Skorra þar sem í flestum tilfellum er óþarft að panta tíma fyrir fram. 

„Þú bara mætir á svæðið og starfsfólk okkar tekur vel á móti þér,“ segir Lárus en hjá Skorra starfa reynslumiklir fagmenn. 

Hjá Skorra er fjölbreytt vöruúrval af öllu sem við kemur …
Hjá Skorra er fjölbreytt vöruúrval af öllu sem við kemur rafgeymum og sólarorku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Afköst sólarrafhlaðna aukist

Fyrir 35 árum bætti Skorri sólarrafhlöðum við vöruúrvalið þrátt fyrir að fáir hefðu trú á þeim hér á landi. Efasemdir fólks voru með öllu óþarfar því í dag gegna sólarrafhlöður mjög mikilvægu hlutverki.

„Í byrjun voru helstu kaupendur sumarbústaðareigendur sem vildu losna við birtugjafa eins og kertaljós og olíulampa. Í öll þessi ár hefur enginn kaupandi óskað eftir endurgreiðslu vegna óánægju með reynsluna á sólarrafhlöðum frá Skorra,“ segir Lárus en í gegnum árin hefur heldur betur bæst við flóruna. 

„Við bjóðum upp á fjölbreytt úrval af vörum sem hægt er að nota í sumarhúsum og öðrum afskekktum húsum eins og fjallaskálum sem ekki eru tengd við rafveitur,“ segir hann jafnframt og nefnir ýmsar gasvörur á borð við gas-kæliskápa, gas-vatnshitara, gas-eldavélarhellur og gasskynjara með allt að 15 ára rafhlöðuendingu.

TUDOR-rafgeymar hafa verið aðalsmerki Skorra í yfir fjóra áratugi.
TUDOR-rafgeymar hafa verið aðalsmerki Skorra í yfir fjóra áratugi. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Sólarrafhlöður eru líka notaðar til að hlaða inn á rafgeyma við ýmiss konar aðstæður,“ nefnir hann og tekur dæmi um ýmsan fjarskiptabúnað sem staðsettur er uppi á fjöllum og jöklum, myndavélar og jarðskjálftamælingar.

Þá segir Lárus að sólarrafhlöður hafi tekið breytingum í takt við tíð og tíma. Sú þróun hafi sérstaklega tekið mið af aflgetu þeirra.

„Afköstin hafa aukist. Stærstu sólarrafhlöðurnar sem Skorri seldi fyrst voru 35 wött en stærstu í dag eru 360 wött. Hleðslustýringar hafa líka breyst mikið og er jafnvel hægt að tengja þær við síma eða net,“ segir hann.

„Svo sérpöntum við líka stór rafgeymasett fyrir orku- og fjarskiptafyrirtæki,“ lýsir Lárus og á þá við varaaflsrafgeyma sem stjórna stýringum þegar upp koma rafmagnstruflanir. „Þessi hluti hefur vaxið töluvert á síðustu árum.“

Hjá Skorra er lögð rík áhersla á áreiðanleika, traust og …
Hjá Skorra er lögð rík áhersla á áreiðanleika, traust og framúrskarandi þjónustu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Öflug og notendavæn vefverslun 

Árið 2020 opnaði Skorri vefverslun til að mæta tíðarandanum og breyttum þörfum viðskiptavina sinna sem margir hverjir hafa lýst ánægju sinni með hana. Lárus segir ríka áherslu hafa verið lagða á vefverslunina enda sé allt kapp lagt á að veita framúrskarandi þjónustu við viðskiptavini um allt land. 

„Viðskiptavinir kunna vel að meta vefverslunina, enda færist öll verslun sífellt meira á vefinn. Þar eru nú yfir 430 vörunúmer til sölu og alltaf eitthvað nýtt að bætast við. Stefna fyrirtækisins er að vera ávallt í fararbroddi í sínu fagi, bjóða upp á framúrskarandi þjónustu og að starfsmenn þess séu sérfræðingar á sínu sviði. Þú getur verið viss um að fá trausta og áreiðanlega þjónustu hjá Skorra.“

Smelltu hér til að skoða vöruúrvalið í vefverslun Skorra.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert