Jón Gnarr þarf varla að kynna fyrir neinum. Fyrrverandi borgarstjórinn, grínistinn og leikarinn sem hefur komið víða við í íslensku samfélagi. Maðurinn sem hefur kitlað hláturtaugar ófárra landsmanna og verið hrókur alls fagnaðar í íslenskri menningu í áraraðir. Þrátt fyrir að Jón sé einn fyndnasti og þekktasti Íslendingur síðari ára þá er hann jafn mannlegur og aðrir menn – með öllum þeim annmörkum og áskorunum sem því fylgir.
Jón hefur á einlægan hátt opnað sig um heyrnarskerðingu sem hann hefur verið að kljást við undanfarin ár og haft hefur gríðarleg áhrif á líf hans og lífsgæði. Núna notar Jón heyrnartæki frá Lyfju Heyrn sem hann segir hafa glætt lífið mörgum litum og aukið velsæld hans til muna.
„Heyrnartækin hafa gjörbreytt lífi mínu og veitt mér aukin lífsgæði. Þau gera öll samskipti betri og ánægjulegri og gera mér kleift að vera í aðstæðum sem voru orðnar mér ómögulegar áður,“ segir Jón sem hefur um áratugaskeið glímt við heyrnarskerðingu.
„Ég byrjaði fyrst að finna fyrir lítilsháttar heyrnartapi upp úr þrítugu. Það fór hratt versnandi og var heyrnarskerðing mín farin að valda mér miklum óþægindum,“ útskýrir Jón og kveðst fullur eftirsjár yfir eigin framtaksleysi á þeim tíma.
„Ég trassaði það samt alltaf að fara í heyrnarmælingu og fannst heyrnartæki frekar dýr.“
Jóni þykir brýnt og löngu tímabært að opna á umræðuna um skerta heyrn og hversu víðtæk áhrif sú skerðing getur haft á einstaklinga sem við hana glíma.
„Í mörg ár reyndi ég að koma mér undan fjölmenni og aðstæðum þar sem er mikið kliður, eins og á veitingastöðum. Þegar ég var í slíkum aðstæðum reyndi ég að halda mér til hlés og forðaði mér frá því að detta inn í samræður. Ég var orðinn ófær um að eiga samræður í fjölmenni og innan um skvaldur,“ lýsir hann og segist hafa upplifað mikla félagslega einangrun í kjölfar heyrnarskerðingarinnar.
Þrátt fyrir að Jón hafi fyrst farið í heyrnarmælingu árið 2006, og fengið niðurstöður svart á hvítu sem bentu til heyrnarskerðingar, þá var það ekki fyrr en árið 2014 sem hann áttaði sig á að vandamálið var orðið alvarlegra en hann hafði gert sér grein fyrir.
„Það var ekki fyrr en ég tók þátt í lýðræðisráðstefnu í Prag sem ég átta mig almennilega á vandamálinu. Þar sat ég í pallborði í 90 mínútur ásamt fimm öðrum. Þetta var salur í gömlu húsi sem bergmálaði mikið. Ég heyrði illa það sem sagt var og hváði í sífellu. Eftir umræðurnar fékk ég þrjár spurningar úr sal. Ég heyrði engar þeirra,“ segir Jón sem þó reyndi að geta sér um hvers eðlis spurningarnar voru og svaraði eftir bestu getu.
„Lífið varð allt annað þegar ég fékk heyrnartæki. Ekki bara mitt líf heldur var þetta líka nýtt líf fyrir konuna mína og fjölskyldu. Það getur verið ótrúlega þreytandi að búa með manneskju með ógreinda heyrnarbilun,“ segir hann og viðurkennir að aðstandendur hans hafi í ófá skipti kvartað yfir því hvað hann heyrði illa.
Jón segir heyrnarskerðingu ekki svo frábrugðna sjónskerðingu. Báðar séu einstaklingsbundnar og geta verið af fjölbreyttum toga en nauðsynlegt sé að notast við stoðtæki, líkt og heyrnartæki eða gleraugu, til að hámarka lífsgæðin.
„Þetta tvennt er ekkert svo ólíkt. Almennt er minna vitað um heyrnarskerðingu en sjónskerðingu en hvort tveggja þekkist í ættinni minni,“ segir Jón og telur ekki ólíklegt að heyrnar- og sjónskerðing gangi í ættir.
„Ég fékk gleraugu tólf ára. Þau breyttu lífi mínu líkt og heyrnartækin gerðu seinna,“ segir Jón sem greindist með nærsýni og sjónskekkju.
„Gleraugun leiðréttu það. Heyrnaskerðingin mín er í raun ekkert svo ólík. Ég heyri ágætlega það sem er sagt nálægt mér en eftir því sem hljóðið fjarlægist þá heyri ég verr,“ lýsir Jón sem einnig fæst við „tinnitus“ sem óhætt er að lýsa sem stöðugu eyrnasuði.
„Heyrnarskerðing er ekki einkamál því hún hefur gríðarleg áhrif á öll þau sem umgangast þann sem hefur skerðinguna: fjölskyldu, vini, vinnufélaga og jafnvel viðskiptavini,“ útskýrir hann og segir heyrnar- og sjónskerðingar síður en svo skilgreina hvaða mann fólk hefur að geyma.
„Það segir ekkert um þig þótt þú sért með heyrnartæki eða þurfir að nota gleraugu.“
Heyrnartæki Jóns eru sérlega nett og einföld í notkun. Það segir Jón vera mikinn kost.
„Þetta eru orðin svo mikil snjalltæki. Þau eru bæði þægileg og lítil þannig að annað fólk sér þau yfirleitt ekki. Rafhlaðan dugir lengi og svo eru þau búin „bluetooth“ svo þeim er stjórnað og stillt í gegnum smáforrit í símanum,“ segir hann og bætir við að það sé minna mál en fólk heldur að fara í heyrnarmælingu hjá Lyfju Heyrn og fá raunhæfa niðurstöðu á skömmum tíma.
„Það er alveg jafn sjálfsagt og að fara í heyrnarmælingu og sjónmælingu,“ segir Jón og kveðst hæstánægður með þjónustuna í Lyfju Heyrn sem hann segir framúrskarandi.
„Ég mæli svo mikið með Lyfju Heyrn. Þar er boðið upp á upplifunarherbergi fyrir aðstandendur sem mér finnst alger bylting í meðvitund og skilningi á heyrnarskerðingu,“ segir hann.
„Heyrnarskerðing á ekki að vera feimnismál. Margt fólk veigrar sér við að stíga skrefið og fara í heyrnarmælingu því það er sjálft með fordóma. Það er bara kjánaskapur.“