„Heildræn heilsa þýðir að allt í lífinu hefur áhrif á heilsu okkar, hvort sem það er starfið, samskipti við aðra, fjármál eða umhverfið sem við erum í en á sama tíma má ekki gleyma mikilvægum þáttum á við hreyfingu, svefn, mataræði og almennri gleði,“ segir Erla Guðmundsdóttir sem er þriggja barna móðir, íþróttafræðingur og heilsumarkþjálfi auk þess sem hún hefur kennt ungbarnasund hjá Ungbarnasundi Erlu í Hafnarfirði í 18 ár og kennir líkamsrækt í Menntaskólanum við Hamrahlíð.
Erla talar um að mikilvægt sé að nálgast heilsu sína heildrænt en þá þurfi að líta inn á við og finna svörin þar því yfirleitt séu flestir með svörin sem leitað er eftir. „Þegar fólk kemur til mín í heilsumarkþjálfun segi ég gjarnan að viðskiptavinirnir séu eins og rútubílstjórar en ég er leiðsögumaðurinn. Oft vitum við ekki hvar við eigum að byrja þegar okkur langar að bæta heilsuna. Það er af svo mörgu að taka og það verður yfirþyrmandi. Við endum því mörg á að gera ekki neitt.“
Erla segist hafa lært það í gegnum tíðina að mataræði skipti ótrúlega miklu máli en það eitt og sér sé þó ekki nóg. Margir álíti að mataræði sé eins og geimvísindi enda sé svo margt í boði og alls kyns skoðanir á því hvað sé hollt og óhollt. Það er því erfitt að vita hverju eigi að trúa. „Mikilvægast er að finna jafnvægi, sitt eigið jafnvægi. Mataræði eitt og sér gerir lítið ef aðrir þættir eins og félagsleg heilsa, andleg heilsa og fleiru er ekki sinnt samhliða. Það er heildræn heilsa í hnotskurn.
Ég er alltaf að sjá betur og betur hvað mataræði hefur mikil áhrif á líkamlega heilsu og líkamleg heilsa hefur svo áhrif á andlega heilsu. Það er best að borða sem minnst unninn mat og að borða mat sem hefur fáar sem engar innihaldslýsingar. Þá er mikilvægt að hlusta á líkamann og borða miðað við þarfir líkamans. Svo má ekki gleyma að þetta er líka mjög einstaklingsbundið, sjálf borða ég meira þá daga sem ég tek erfiða æfingu“ segir Erla og bætir við að svefninn sé rótin að öllu því ef við sofum ekki vel þá fer allt úr skorðum.
„Ef það er eitthvað sem fólk ætti að byrja á til að bæta heilsuna þá væri það svefninn. Það er auðveldara að taka réttar ákvarðanir ef maður er vel útsofinn og maður sækir minna í óhollan mat. Svo á hreyfing að vera hluti af daglegu lífi og það er því mikilvægt að finna sér hreyfingu við hæfi. Það skiptir í raun ekki máli hver hreyfingin er, bara að við séum að hreyfa okkur daglega.“
Þá segir Erla að vitanlega eigum við að reyna að fá sem flest vítamín og bætiefni úr fæðunni en eins og staðan er í dag þá er næringarþéttni og næringargildi matvæla ekki eins góð og hún var áður. Oft vanti okkur eitthvað, eins og til dæmis magnesíum og sink, sem getur verið gott að taka inn aukalega.
„Eins og flest annað er þetta líka einstaklingsbundið en ég mæli með að allir Íslendingar taki D-vítamín þar sem ljóst er að okkur skortir það, sérstaklega yfir veturinn. Og þeir sem eru vegan þurfa að gæta sérstaklega að sér og þá kemur Vegan munnúðinn frá BetterYou sterklega til greina. Hvað varðar önnur bætiefni þá er það eitthvað sem fólk verður að finna á eigin skinni. Ég er nýbyrjuð að taka inn kollagen og finn mikinn mun á nöglum, hári og húðinni. Ef maður er að sigla inn í breytingaskeiðið eins og ég þá er til mikið af góðum bætiefnum sem hægt er að mæla með fyrir konur á besta aldri,“ segir Erla og hlær. Sjálf tekur hún inn fleiri bætiefni, til að mynda astaxanthin sem hún hefur tekið í nokkur ár.
„Astaxanthin hefur hjálpað mér mikið, til dæmis eftir erfiðar æfingar til að minnka harðsperrur. Svo er það gott fyrir húðina, gefur henni fallegan ljóma og það eru minni líkur á að maður brenni í sól. Mér finnst rosalega þægilegt að taka vítamín í spreyformi en tek líka D vítamín perlur af og til. Gamla góða lýsið er líka alltaf gott. Ég tek B12 vítamín munnúða og D vítamín munnúðann næstum daglega. Það er svo ótrúlega þægilegt að hafa munnúðana í töskunni og því ólíklegra að þeir gleymist.“
Erla segir það ekki síður vera mikilvægt að huga að heilsunni nú til dags þar sem hraðinn í nútímasamfélagi sé mjög mikill. Við séum oft að brenna kertið í báða enda og það sé að kaffæra íslensku þjóðinni. Hún hafi sjálf lent í því að klessa á vegg og það sé ekkert grín.
„Ég var heppin að vera með mikið af flottum verkfærum í minni verkfærakistu, eins og ég kalla það, og ég náði því að snúa þessu við nokkuð fljótt. En þetta er sannarlega ekkert grín og það tekur langan tíma að koma til baka. Ég var það lánsöm að ég gat haldið áfram mínu starfi en ég lagði frá mér marga af mínum boltum. Eitt af því sem ég lærði var að endurskilgreina ofurkonu-titilinn. Það að vera ofurkona kalla ég nú að geta fundið jafnvægi, að hlusta á líkamann og líka það að geta gert ekki neitt. Það þarf ekki að vera alls staðar og að gera allt. Það þarf ekki allt að vera fullkomið, það má líka liggja í sófanum, horfa á þátt og njóta þess að slaka á,“ segir Erla sem fór af stað með hlaðvarpið Með lífið í lúkunum á síðasta ári en hún segir það einmitt vera hraðann í samfélaginu sem geri það að verkum að margir kjósi frekar að hlusta en lesa.
„Hvatinn að þessu hlaðvarpi var að ná til fleiri og vera „jáhrifavaldur“, að hafa jákvæð áhrif á heilsu fólks með því að fá til mín gesti sem hafa ákveðna þekkingu eða fólk sem hefur þurft að bæta heilsu sína. Fólk sem hefur mörgu að deila, hefur glímt við erfiðleika og komist í gegnum það. Fólk sem er orðið listamenn í að lifa. Ég hef gefið út yfir 70 þætti á þessu eina ári og þetta vatt heldur betur upp á sig en er ótrúlega skemmtilegt. Ég læri alveg svakalega mikið á þessu og það er svo magnað hvað allir eru tilbúnir að koma til mín í spjall, tilbúnir að deila sinni vitneskju eða reynslu. Ég er svo ótrúlega þakklát fyrir allt þetta fólk.“
Hlaðvarp Erlu má finna hér.