Í sumar flutti Tengi á Akureyri á Sjafnargötu 1 sem er partur af Norðurtorginu á Akureyri og Guðmundur Stefánsson, verslunarstjóri Tengi á Akureyri, segir að verslunin geti boðið upp á mun meira vöruframboð í stærra húsnæði. „Með tilkomu stærra húsnæðis þá erum við með stærri lager þannig að við getum brugðist hraðar við og verið með meira vöruframboð en áður. Tengi hefur verið á Akureyri síðan árið 2007 en gamla húsnæðið var orðið of lítið. Það var því alveg kominn tími á að breyta til og við tvöfölduðum húsnæðið. Við vorum það heppin að við komum snemma inn í byggingarferlið og gátum því lagað aðstöðuna að okkur þörfum.“
„Við leggjum mikla áherslu á að upplifun viðskiptavina sé góð. Þannig lögðum við mikið upp úr hönnun og framsetningu nýju verslunarinnar. Til að mynda sýnum við vörurnar í salnum hjá okkur á allt annan hátt en áður og það er hægt að prufa vörurnar, skrúfa frá tækjum, sturta niður úr salernum og meira til. Svo er lagnadeildin okkar til fyrirmyndar og hefur hún stækkað verulega frá því sem áður var, með sýningarsal og fínu andrými fyrir fagaðila. Vöruúrvalið hefur aldrei verið meira og birgðastaðan til fyrirmyndar. “
Aðspurður hvað sé helst í tísku í blöndunartækjum í dag segir Guðmundur að það sé í raun allt í gangi og allir litir séu vinsælir. „Það er meira um sturtur en baðkör en það eru alltaf einhverjir sem velja frekar baðkör. En ef við tökum sturtur sem dæmi þá er einfaldleikinn ráðandi. Að þú sjáir ekki einhvern sturtuklefa heldur gangir bara inn í sturtuna. Það er mikið um innbyggð blöndunartæki í alls konar útfærslum “ segir Guðmundur og bætir við að flest hreinlætistæki sé hægt að fá í fjölda lita, hvort sem það eru blöndunartæki, baðkör, handlaugar eða salerni.
„Það er talsvert mikið um að fólk velji liti en ekki bara gömlu sígildu hvítu tækin. Ég held til dæmis að svört blöndunartæki og salerni séu komin til að vera en séu ekki bara tískubylgja. Krómað er alltaf sígilt og það er keypt mikið af því. Svo hefur ryðfrítt burstað stál alltaf verið vinsælt og það dettur aldrei úr tísku. Svart er mikið tekið í dag og svo er líka eitthvað um djarfari liti eins og kopar, burstaðan kopar, brass og jafnvel brúnt. Það er hægt að fara alla flóruna í litum og fólk er býsna djarft í því í dag. Sýningarsalurinn okkar er stórglæsilegur og sjón er sögu ríkari.“