SL lífeyrissjóður fagnar 50 ára afmæli í lok september en sjóðnum hefur vegnað vel og er til að mynda einn af fáum lífeyrissjóðum sem hefur aldrei þurft að skerða lífeyrisgreiðslur til sjóðfélaga. Eins er sjóðurinn einn tveggja lífeyrissjóða sem hafa skilað hvað bestri ávöxtun til 20 ára. Sigurbjörn Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóri SL lífeyrissjóðs, segir að ein af ástæðum þess að langtímaávöxtun sjóðsins sé góð sé sú að sjóðurinn hafi alla tíð horft til langs tíma og verið varfærinn er varðar fjárfestingar.
Í tilefni af afmælinu ætlar SL lífeyrissjóður að blása til opins viðburðar í Iðnó 26. september kl. 17:00 en þar verður farið yfir lífeyrismál á mannamáli og á léttari nótum en oft áður. „Lífeyrissjóðum og þeim sem koma að starfi sjóðanna með beinum eða óbeinum hætti hefur einhvern veginn tekist að flækja lífeyrismál og réttindin. Okkur langar að reyna að útskýra hvað lífeyrissjóðurinn þinn getur gert fyrir þig, sem er heilmargt, og eins að reyna að koma því til skila á mannamáli,“ segir Sigurbjörn. „Oft er fólk ekki nægilega meðvitað um lífeyrisréttindi sín og okkur langar til að hafa áhrif á það með þessum fundi. Að gera lífeyrismál áhugaverðari, að fólk velti sinni stöðu fyrir sér og vilji skoða hana. Það verður því lítið sem ekkert fjallað um SL lífeyrissjóð á þessum viðburði heldur fyrst og fremst rætt um lífeyrismál almennt.“
Eins og áður sagði er viðburðurinn opinn öllum en þar mun Björn Berg Gunnarsson fjármálaráðgjafi stýra léttu spjalli við þrjá einstaklinga sem öll þekkja lífeyrismál og almennan sparnað fyrir hin ýmsu æviskeið. Þetta eru Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur hjá Arion banka, Már Wolfgang Mixa, dósent í fjármálum og stjórnarmaður í Almenna lífeyrissjóðnum og Þórunn Sveinbjörnsdóttir, fyrrverandi formaður Landssambands eldri borgara og Félags eldri borgara í Reykjavík og fyrrverandi varaformaður Eflingar stéttarfélags.
Þá segir Sigurbjörn að í lokin komi Helga Braga með hennar skemmtilega sjónarhorn á lífeyrismál enda nauðsynlegt að hafa gott skemmtiatriði í afmælisveislu. „Yfirleitt fer fólk að velta lífeyrismálum fyrir sér í kringum sextugt þegar lífeyristökualdurinn nálgast. Og satt að segja er það kannski heldur seint því það skiptir máli að vera með puttana á púlsinum. Það getur verið mjög dýrmætt að skoða lífeyrismál fljótlega eftir að fólk er komið í fast starf, hvort sem það er eftir grunnskólanám, iðnnám eða háskólanám, þannig að fólk sé meðvitað í hvað stefnir.“
Aðspurður hvort fólki finnist lífeyrismál flókin og jafnvel yfirþyrmandi segir Sigurbjörn að vissulega geti það oft átt við. „Að einhverju marki eru upplýsingarnar um lífeyrismál ekki nægilega aðgengilegar því nú til dags vill fólk geta leitað sér upplýsinga hratt á vefnum. Kannski þurfum við hjá lífeyrissjóðunum líka að vanda okkur betur við að sýna þessar upplýsingar og bera þetta á borð með einfaldari hætti því það eru alltof fáir sem virkilega velta þessu fyrir sér,“ segir Sigurbjörn og bætir við að það geti skipt heilmiklu máli að velja sér réttan lífeyrissjóð því réttindi sjóðfélaga séu mjög mismunandi eftir því hver sjóðurinn er.
„Hjá sumum sjóðum er hluti af lögbundna iðgjaldinu sett í bundna séreign á meðan hér er lögbundna iðgjaldið að meginstofni sett í svokallaða samtryggingu sem er ævilangur lífeyrir. Staða sjóðanna er mismunandi og sjóðfélagar mynda mismunandi réttindi eftir því hvaða sjóði er borgað í. Allir sjóðir birta töflur sem hægt er að skoða og það er auðveldara að bera þetta saman en margir halda.“
Þá segir Sigurbjörn að gjarnan borgi fólk í nokkra lífeyrissjóði um starfsævina en það sé auðvelt að sjá í hvaða sjóði hafi verið borgað með því að fara inn á lífeyrisgátt með rafrænum skilríkum. Eins segir Sigurbjörn að á heimasíðu SL lífeyrissjóðs sé mikið um upplýsingar en undanfarið hafi heimasíðan verið endurbætt verulega.
„SL lífeyrissjóður vill með þessu segja meira frá sjóðnum, hvað verið sé að gera og hver árangurinn hefur verið. SL lífeyrissjóður er opinn sjóður fyrir þau sem geta valið sér sjóð og auk þess algjörlega óháður bönkum og stéttarfélögum sem þýðir að við vinnum eingöngu með hagsmuni sjóðfélaga í huga. Við höfum því látið aðeins meira að okkur kveða en áður. Opni viðburðurinn í Iðnó er skref í þessa átt, að gera lífeyrismálin vonandi aðgengilegri og ef til vill áhugaverðari,“ segir Sigurbjörn að lokum og hvetur alla til að kíkja í Iðnó 26. september en viðburðinn og skráningu á hann má finna hér. „Við vonumst til að fólk hafi gaman af og geti notið þess að vera með okkur þennan dag.“