Ígrunduð hönnun

Uppruni Vigt er fjölskylduverkstæði í Grindavík þar sem varan verður …
Uppruni Vigt er fjölskylduverkstæði í Grindavík þar sem varan verður til frá hugmynd og hönnun til framleiðslu og dreifingar. Ljósmynd/Aðsend

„Vigt er íslenskt vörumerki sem hefur framleitt húsgögn og fylgihluti síðan árið 2013. Við leggjum áherslu á staðbundna framleiðslu, að vörurnar okkar séu hannaðar og framleiddar á Íslandi, helst á verkstæðinu hjá okkur,“ segir Guðfinna Magnúsdóttir, einn eigenda Vigt en Vigt er fjölskyldufyrirtæki sem Guðfinna rekur ásamt systrum sínum Örnu og Hrefnu, og móður þeirra systra, Huldu Halldórsdóttur.

„Uppruninn er fjölskylduverkstæðið okkar í Grindavík þar sem varan verður til frá hugmynd og hönnun til framleiðslu og dreifingar. Markmið okkar er að framleiða tímalausar vörur með einfaldleika og gæði í fyrirrúmi. Við viljum að viðskiptavinir okkar upplifi það sem vörumerkið stendur fyrir, þessa staðbundnu framleiðslu, hefðina og handverkið sem liggur að baki vörunum. Það er markmið hjá okkur að vörurnar haldi sessi sem og að bæta jafnt og þétt við vöruúrvalið. Öll hönnun frá Vigt er ígrunduð, nútímaleg og veitir innblástur inn í líf og heimili fólks.“

Vigt er íslenskt vörumerki sem hefur framleitt húsgögn og fylgihluti …
Vigt er íslenskt vörumerki sem hefur framleitt húsgögn og fylgihluti síðan árið 2013. Ljósmynd/Aðsend

Ástríða fyrir sköpun

Það má sannarlega segja að sköpun sé í blóðinu hjá þeim systrum og Guðfinna segir að sennilegast sé það blanda af sköpun, verkviti og elju sem drífi þær áfram. Foreldrar systranna stofnuðu trésmíðaverkstæðið Grindin ásamt afa þeirra og frænda og þar hálfpartinn ólust systurnar upp.

Markmið eigenda VIgt er að framleiða tímalausar vörur með einfaldleika …
Markmið eigenda VIgt er að framleiða tímalausar vörur með einfaldleika og gæði í fyrirrúmi. Ljósmynd/Aðsend

„Við höfum lengi hrærst í þessum heimi, heimi innréttinga og mannvirkja. Við ólumst upp við að fara sunnudagsrúnt til að skoða byggingarsvæði, krana og mót. Þetta lá því kannski beinast við. Við höfðum allar áhuga á hönnun og fallegum hlutum og vorum allar búnar að mennta okkur í þá átt. Það var nú eiginlega þessi uppruni og rætur sem verða til þess að við stofnum Vigt. Á fyrstu árum Grindarinnar um 1979 var trésmíðaverkstæðið staðsett í bílskúrnum á heimili feðganna að Víkurbraut 40 í Grindavík. Víkurbraut 40 er eitt af þeim húsum sem eru altjónuð núna í Grindavík. Með stækkandi rekstri og meiri tækjabúnaði fluttu þeir verkstæðið að Hafnargötu þar sem verkstæðið stendur enn.“

Öll hönnun frá Vigt er ígrunduð, nútímaleg og veitir innblástur …
Öll hönnun frá Vigt er ígrunduð, nútímaleg og veitir innblástur inn í líf og heimili fólks. Ljósmynd/Aðsend

„Við hlið verkstæðisins stóð gamla hafnarvigtarhúsið. Þar hafði verið ýmis starfsemi áður en að við tókum það hús í notkun. Þegar við fórum af stað með vörumerkið voru vangaveltur um hvað við ættum að láta vörumerkið heita. Úr varð VIGT, þar voru höfuðstöðvar okkar og hafa verið síðan. Við byggðum svo rýmið hægt og rólega upp. Því miður höfum við ekki getað tekið á móti viðskiptavinum núna í rúmt ár sökum hamfaranna. Við tókum síðast á móti fólki klukkan 16:30 þann 10.nóvember en búum vel að því að hafa verið með starfandi vefverslun frá upphafi.“

Borðstofuborðin frá Vigt hafa verið vinsæl en þau hafa verið …
Borðstofuborðin frá Vigt hafa verið vinsæl en þau hafa verið í framleiðslu síðan árið 2016. Þau koma í þremur stærðum og eru hringlaga með snúningsdisk á miðjunni. Ljósmynd/Aðsend

Framleiðslan í Grindavík

Ætt systranna í Grindavík er hægt að rekja aftur til 18. aldar og Guðfinna segir að hjartað sé sannarlega þar. „Verkstæðið er ennþá í Grindavík og við erum búin að vinna þar á milli atburða þetta ár sem liðið er frá hamförunum. Allskonar áskoranir á meðan, yfirvofandi eldgos, rafmagnsleysi og mismunandi samgönguleiðir. Við framleiðum í Grindavík og þjónustum í gegnum vefverslunina en erum að skoða alls kyns lausnir fyrir framhaldið hvað varðar sölustaði. Við erum með pop-up viðburði á dagskrá utan Grindavíkur og svo kannski fljótlega getum við gert eitthvað í Grindavík, tekið móti fólki aftur,“ segir Guðfinna vongóð en hún segir að sem betur fer hafi þau getað komið lagernum á sínum tíma frá Grindavík þegar búist var við gosi í bænum. „Lagerinn er nú kominn aftur á Hafnargötuna og nú í haust vorum við í stakk búnar til að opna vefverslunina okkar aftur, vigt.is.“

Systurnar og móðir þeirra hafa allar áhuga á sköpun enda …
Systurnar og móðir þeirra hafa allar áhuga á sköpun enda vörurnar í Vigt gríðarlega fallegar. Ljósmynd/Aðsend

Innblásturinn frá afa

Megnið af vörum Vigt eru framleiddar á verkstæðinu en í einhverjum tilfellum þurfa þær að leita til annarra framleiðenda, svo sem til steinsmiða og járnsmiða. „Vörurnar okkar eru bæði stórar og smáar og samanstanda af húsgögnum og fylgihlutum. Borðstofuborðin okkar hafa til að mynda verið vinsæl en við höfum framleitt þau síðan árið 2016. Þau koma í þremur stærðum og eru hringlaga með snúningsdisk á miðjunni. Diskurinn er laus þannig að það er hægt að hafa hann á eða taka hann af eftir þörfum, enda er hann líka vinsæll einn og sér til að setja á önnur borð eða á eldhúseyjur. Yfirborð borðanna er linoleum sem er framleitt úr 98% náttúrulegum efnum, efni sem endurnýjast og það er nóg til af því í veröldinni. Af fylgihlutum má nefna hillur, spegla, bakka, snaga og margt fleira,“ segir Guðfinna og bætir við að það sé skemmtileg saga af uppruna Allavega vörulínunnar sem á sér langa sögu, allavega frá árinu 1982.

Vörulínan Allavega er innblásin af gömlum bekkjum sem afi systranna …
Vörulínan Allavega er innblásin af gömlum bekkjum sem afi systranna smíðaði fyrir gömlu Grindavíkurkirkju. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta eru bekkir, standar og gangaborð sem eru innblásin af gömlum bekkjum sem afi smíðaði fyrir gömlu Grindavíkurkirkju. Þetta voru bekkir sem voru notaðir í útförum undir líkkistur. Þegar kirkjan var afhelguð árið 1982 tók afi bekkina og þeir hafa einhvern veginn þvælst með okkur síðan þá. Eftir mörg ár á þvælingi varð bekkurinn innblásturinn við gerð þessarar húsgagnalínu. Við höfum líka leikið okkur aðeins með þessa línu og fyrir Hönnunarmars árið 2021 framleiddum við vörulínuna úr blágrýti í samvinnu við Steinkompaní og Granítsmiðjuna. Það var mjög skemmtilegt að sjá vörulínuna úr íslenskum efnivið en þá var bæði framleiðslan staðbundin og efniviðurinn.“

Fjölskyldufyrirtækið Vigt er í eigu þriggja systra; Guðfinnu, Örnu og …
Fjölskyldufyrirtækið Vigt er í eigu þriggja systra; Guðfinnu, Örnu og Hrefnu og móður þeirra systra; Huldu. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert