Harpa Rún Einarsdóttir, hugmyndasmiður/birtinga- og samfélagsmiðlaráðgjafi hjá ENNEMM, segir auglýsingabransann mjög opinn fyrir ungu hæfileikaríku fólki.
Hvernig er að vera með svona marga hatta á ENNEMM?
„Það er bara alveg ótrúlega spennandi og skemmtilegt. Sem birtingaráðgjafi þarf ég að vera sérfræðingur í öllum miðlum sem hægt er að birta auglýsingar á, tímasetningum og hvað það kostar að auglýsa á hverjum stað. Ásamt því að veita viðskiptavinunum ráðgjöf um það hvernig best er að ná til þeirra markhóps.
Hugmyndasmiður þróar meðal annars skapandi hugmyndir sem þjóna verkefnum til að auka árangur af markaðsstarfi og svo snýst samfélagsmiðlaráðgjöf um að sérsníða hvernig best er að koma skilaboðum áleiðis á samfélagsmiðlum. Ef ég tek dæmi af TikTok, þá er hann þannig miðill að efnið þarf að vera frumlegt og grípandi til að ná vinsældum og er því mikil hugmyndavinna á bak við það.
Maður nær því að faðma ansi margt í mínu starfi en á endanum snýst þetta allt saman um að markaðsherferðin nái að fanga athygli rétts markhóps.“
Hvað hefur þig dreymt um?
„Minn draumur hefur alltaf verið að starfa á stofu eins og ENNEMM og í auglýsingabransanum. Ég lærði viðskiptafræði á sínum tíma með áherslu á markaðsfræði og því hentaði birtingaráðgjöfin mér mjög vel. En vinnustaðurinn er svo frábær og verkefnin svo fjölbreytt að maður er tekinn inn í svo margt. Í raun fá allir að blómstra í sínu, og prófa margt ef maður er tilbúinn í það. Svo ég myndi segja að það séu mörg spennandi tækifæri á auglýsingastofum í dag.“
Hvað ertu forvitin um?
„Ég er mjög forvitin um sálfræðina á bak við kauphegðun fólks, þegar kemur að auglýsingum og markaðsherferðum. Ekki síst þegar kemur að TikTok, sem er nýr miðill sem hægt er að nota fyrir markaðsherferðir fyrir ekki svo mikla peninga. TikTok er ekki eins og Instagram eða Facebook, þar sem þú setur auglýsingar í kostun því efnið inni á TikTok þarf einfaldlega að vera það gott að það nái til margra.“
Af hverju ertu stoltust?
„Ég er stoltust þegar herferðir okkar ná settum árangri og þegar viðskiptavinir okkar eru sáttir með útkomuna. ENNEMM er stofa sem fylgir stórum leiðandi vörumerkjum eftir á markaði og að sjálfsögðu er ég líka stolt af öllum þeim tilnefningum sem við fengum á árinu og teyminu sem ég vinn með.“
Hvað hefur komið þér mest á óvart?
„Þótt ég hafi upphaflega verið ráðin inn sem birtingaráðgjafi þá var ég oft fengin til að sitja fundi til að koma með ferska sýn á verkefnin. Það kom mér á óvart í fyrstu en ég hef lært með tímanum að það er alltaf gott að fá nýja sýn á hlutina og betur sjá augu en auga. Svo hefur einnig komið mér á óvart hversu fjölbreyttur hópur fólks starfar á auglýsingastofum og hversu vel er valið í hvert sæti á stofum. Við hjá ENNEMM erum alin upp í því að þjónustan á stofunni er númer eitt, tvö og þrjú og það er bara mjög notalegt að starfa hjá fyrirtæki sem veitir alla mögulega þjónustu sem í boði er á markaðnum núna.“
Hvað viltu segja lesendum ÍMARK-blaðsins?
„Ég vil bara segja að ef þú ert með brennandi áhuga á bransanum þá er pláss fyrir þig í honum!“