Það heyrist hverjir lesa bækur!

Bókamarkaðurinn hefur verið opnaður á nýjum stað því nú stendur …
Bókamarkaðurinn hefur verið opnaður á nýjum stað því nú stendur Bókakarlinn vaktina í Holtagörðum og býður þar upp á aragrúa bóka af öllum toga. mbl.is/ernir

Bókamarkaðurinn hefur verið opnaður á nýjum stað því nú stendur Bókakarlinn vaktina í Holtagörðum og býður þar upp á aragrúa bóka af öllum toga.

Það þarf mörg handtök svo allt sé til reiðu á Bókamarkaðinum, raða bókum, ráða fólk og sjá um merkingar. Bókakarlinn annast þetta allt einn síns liðs en gefur sér samt tíma til að setjast niður með blaðamanni og ræða bækur, stærstu ástríðuna í lífi hans.

„Mesta fjörið er alltaf í barnadeildinni. Barnafjölskyldur hafa mjög gaman af að koma á markaðinn og þá fá börnin gjarnan að velja sér sjálf bók, jafnvel fleiri en eina. Það er skemmtilegt að sjá hvað þau verða ábyrgðarfull og taka sér góðan tíma í að velja. Foreldrarnir vilja síðan nýjar sögur að lesa fyrir svefninn. Það er dýrmætt í annríki dagsins að gefa sér þessa ljúfu lestrarstund á meðan svefninn sígur að.

Afar og ömmur koma líka oft með barnabörnin og enginn fer tómhentur heim. Börnin hafa ekkert endilega gaman af sömu bókunum og við myndum velja handa þeim. Því er gott að þau ráði ferðinni.“

Bókakarlinn stendur vaktina á bókamarkaðnum í HOltagörðum þar sem má …
Bókakarlinn stendur vaktina á bókamarkaðnum í HOltagörðum þar sem má finna alls kyns bækur fyrir alla. Ljósmynd/Aðsend

Opið fram á kvöld

Bókamarkaðurinn stendur til 16. mars og verður opið alla daga frá kl. 10.00-20.00 og það er mikill hugur í Bókarkarlinum. „Í fyrra seldust hér 100.426 bækur! Nú vil ég bæta um betur og selja að minnsta kosti 105.000 bækur!“

Fastagestir Bókamarkaðarins eru orðnir kærir vinir Bókakarlsins. „Bækur sameina fólk. Það þarf ekki annað en að benda á bók og spyrja næstu manneskju hvort hún hafi lesið hana til að samræður kvikni. Hingað kemur sama konan ár eftir ár og kaupir sér Lærdómsrit Bókmenntafélagsins og um tíma mætti hingað alltaf ungur maður til að næla sér í ljóðabækur frá 10. áratugnum.

Nú er hann sjálfur farinn að yrkja. Fólk vill eiga ljóðabækur upp í hillu. Þær þarf jú að lesa oft. Annars er áhugi manna svo misjafn. Til eru lestrarhestar sem lesa bókstaflega allt! Það getur verið gaman að kíkja ofan í innkaupakörfuna hjá þeim. Eitt er víst að hver kynslóð þarf nýjar sögur og nýjar söguhetjur. Þetta vita rithöfundar og þess vegna hefur bókamarkaðurinn starfað svona lengi.“

Bókamarkaðurinn stendur til 16. mars og verður opið alla daga …
Bókamarkaðurinn stendur til 16. mars og verður opið alla daga frá kl. 10.00-20.00 mbl.is/Árni Sæberg

Bók er besta gjöfin

Bókakarlinn bendir á hvað bókin sé góð tækifærisgjöf. „Hver fúlsar við fallega innpökkuðu smásagnasafni?" Og hann svarar sér sjálfur: „Ekki nokkur maður! Ég tala nú ekki um hvað bók er líka dásamleg skírnar-, fermingar- og afmælisgjöf.“

Bókamarkaðurinn opnaði fyrst dyr sínar árið 1952 og var Bókakarlinn þá óðara ráðinn til starfa. Í upphafi var markaðurinn í Listamannaskálanum við hlið Alþingishússins og lengi vel var líka starfrækt pöntunarþjónusta í sérstöku símanúmeri. Slagorðið var: „Pöntunarþjónusta fyrir alla landsmenn til sjós og lands! Allan sólarhringinn!“

„Ég var sívakinn yfir bókunum,“ rifjar Bókakarlinn upp. „Fólk hringdi um miðjar nætur til að panta Ástarpakkann, Trúarpakkann eða Dulrænapakkann sem höfðu þegar verið teknir saman. Þá voru bækur um handanheima ákaflega vinsælar. Einu sinni kom hingað miðill sem sagði að þar væri líka til bókakarl sem langaði að hafa samband við mig. Ég varð aldrei var við hann. Líklega er ég ekki mjög andlegur þegar allt kemur til alls.“

Gamla krónan í fullu gildi!

Lengi vel var kjörorð Bókamarkaðarins: „Gamla krónan í fullu gildi!“ Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og gamla krónan öllum gleymd.

„Slagorðið skýrist af því að í gamla daga voru engar bókaútsölur eins og nú tíðkast. Bókamarkaðurinn var því hátíð þeirra sem vildu bækur á góðu verði. Verðlagið á markaðinum er auðvitað enn ákaflega hagstætt og hér má finna miklar gersemar.“

Bókamarkaðurinn er ekki aðeins í Reykjavík því á haustin er hann haldinn á Akureyri enda Norðlendingar annálaðir bókaunnendur. Sjálfur er Bókakarlinn auðvitað mikill lestrarhestur.
„Ég var einn af þessum krökkum sem stalst til að lesa með vasaljós undir sænginni þótt ég ætti að vera löngu sofnaður. Skáldsögur eiga hug minn og hjarta en líka lífsstílsbækur því eftir því sem ég eldist huga ég betur að heilsunni en ég gerði. Nú fer ég ekki fram úr á morgnana án þess að þakka fyrir allt það góða sem lífið hefur gaukað að mér, til dæmis hattinn minn góða sem ég sef alltaf með. Mér finnst ég ekki vera ég sjálfur án hattsins. Síðan teygi ég úr skrokknum þar til skrjáfar í mér öllum. Þá fyrst getur dagurinn hafist.“

Hver kynslóð þarf nýjar sögur og nýjar söguhetjur og það …
Hver kynslóð þarf nýjar sögur og nýjar söguhetjur og það má finna ansi margar skemmtilegar söguhetjur á bókamarkaðnum. mbl.is/Árni Sæberg

Ástin vaknar yfir stöflunum

Þegar Bókakarlinn er spurður nánar út í þakklætið kemur í ljós að hann þakkar fyrir margt fleira en hattinn – þótt hann sé vissulega góður fyrir sinn hatt. „Ég er líka þakklátur fyrir allar sögurnar sem ég á enn eftir að lesa og vinina sem ég hef eignast hér á meðal bókanna. Íslendingar eru bókaþjóð. Við skrifum bækur, lesum þær, ræðum, speglum okkur í persónunum, lærum inn á siði annarra, aukum víðsýni okkar og það er aldrei of mikið af einmitt henni. Ekki hefði ég hugmynd um hvernig er að fara á hesti yfir brennheita eyðimörkina hefði ég ekki lesið Lukku-Láka og síðan drakk ég svo mikið kaffi með sögupersónum Guðrúnar í Lundi að ég svaf ekki í viku eftir að ég lauk við Dalalíf.

Sögur auðga líf okkar.“

Bókamarkaðurinn sjálfur hefur líka breytt lífi gestanna. „Hér hafa hjónabönd orðið til,“ segir Bókakarlinn sposkur á svip. „Fyrir fáeinum árum teygði ung kona sig í krossgátublað, snerti óvart hönd annars krossgátuunnanda, þau tóku tal saman og ári síðar keyptu þau hannyrðabók til að henda í heimfararsett,“ segir Bókakarlinn og hlær. Hann bætir því við að krossgátublöðin séu óskaplega vinsæl á markaðnum en sömuleiðis handbækur um pottablóm eða prjónalykkjur og ævisögur listafólks og lukkuriddara.

„Sannir bókaunnendur eiga ekki aðeins gott bókasafn heima hjá sér, heldur líka í sumarbústaðnum. Síðan þarf að taka með sér skáldsögur og krossgátublöð til Tenerife. Þar mætti nú opna íslenskt bókasafn svo þjóðinni leiðist ekki á sundlaugarbakkanum og bjóða jafnvel upp á upplestur úr jólabókunum á aðventunni!“

Guðmundur Hauksson, starfsmaður Eddu útgáfu, stillir upp hluta af fjölbreyttu …
Guðmundur Hauksson, starfsmaður Eddu útgáfu, stillir upp hluta af fjölbreyttu úrvali útgáfunnar á bókamarkaðnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þjóðin elskar bækur

Bókakarlinn lætur augun reika yfir alla bókastaflana. Ungt par grúfir sig yfir spennubækurnar og krakki situr flötum beinum á gólfinu með myndabók. „Það heyrist hverjir lesa bækur," segir Bókakarlinn. „Þetta er orðheppnasta og áhugaverðasta fólkið! Og gjarnan hæverskara en gengur og gerist. Ég læt mig dreyma um hlaðvörp og marga skemmtilega sjónvarpsþætti þar sem fólk hvaðanæva að af landinu segir frá uppáhaldsbókunum sínum.

Hér á landi er fjöldinn allur af leshópum sem taka mætti tali svo ekki sé minnst á rithöfundana, þýðendurna og myndhöfundana. Ég er bara einn fjölmargra bráðnauðsynlegra milliliða sem komið hafa bókunum í hendur lesenda áratugum saman. Þegar ég leiði hugann að öllum þeim fjölda bóka verð ég himinglaður. Ég er svo sannarlega á réttum kili.“

Það kveður við öskur. „Mamma!“ Krakkinn er staðinn á fætur og skimar áhyggjufullur í kringum sig. Bókakarlinn sprettur á fætur. „Við finnum hana mömmu þína saman!“ segir hann við barnið. Þar með er viðtalinu lokið. Bókakarlinn hefur mikilvægum hnöppum að hneppa. Hann gefur sér þó tíma til kveðja mig áður en hann grípur í hönd barnsins og leiðir það til bókumhlaðinnar konu í glæpasagnadeildinni. Svona eru bestu sögurnar. Maður getur algjörlega gleymt sér í þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert