„Aldrei hafa fleiri mætt á Iðnþing“

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir mikilvægt að auka orkuöflun …
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir mikilvægt að auka orkuöflun og hraða uppbyggingu flutningskerfisins til að iðnaður í landinu verði samkeppnishæfur. mbl.is/BIG

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir áhuga á Iðnþinginu 2025 vera skýr skilaboð til stjórnvalda um að iðnaður og áskoranir hans sé ofarlega á baugi hjá landsmönnum.

„Það er ákaflega spennandi og gefandi að starfa fyrir iðnaðinn á Íslandi. Iðnaðurinn er fjölbreyttur, hann snertir nánast öll svið samfélagsins og hefur bein áhrif á verðmætasköpun, lífskjör og samkeppnishæfni þjóðarinnar. Mikill kraftur býr í félagsmönnum Samtaka iðnaðarins, sem sýna frumkvæði og áræði í að sækja tækifæri og leysa áskoranir.

Starfsfólk SI er einnig framúrskarandi, brennur fyrir eflingu iðnaðar og vinnur markvisst að því að bæta umhverfið fyrir fyrirtæki í greininni. Ég er stoltur af því að vera hluti af þessu starfi og stuðla að sterkari framtíð fyrir íslenskan iðnað,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, og bætir við að íslenskur iðnaður sé undirstaða lífskjara okkar.

Það var fullur salur af fólki á Iðnþingi 2025 eins …
Það var fullur salur af fólki á Iðnþingi 2025 eins og sést á þessari ljósmynd. mbl.is/BIG

„Við byggjum hagsæld þjóðarinnar á verðmætasköpun og útflutningi og á síðustu áratugum höfum við fjölgað útflutningsstoðum okkar. Hefðbundin framleiðsla, orkuksækinn iðnaður og nú síðast hugverkaiðnaður hafa skapað verðmæti sem skila stöðugra hagkerfi og aukinni velsæld. Hugverkaiðnaðurinn, sem nú er orðinn fjórða stoðin í hagkerfinu, hefur vaxið hratt og útflutningstekjur hans eru nú yfir 300 milljarðar króna á ári. Við reiknum með að hann verði stærsta útflutningsstoð Íslands fyrir lok þessa áratugar en til að það gerist þarf markvissa stefnumótun stjórnvalda, aukna fjárfestingu í innviðum og öflugra stuðningsumhverfi fyrir nýsköpun og tæknifyrirtæki. Það sýnir að við höfum gríðarlega möguleika ef við sækjum þau tækifæri sem eru fyrir hendi,“ segir hann.

Ísland stendur frammi fyrir tækifærum og áskorunum sem krefjast skýrra ákvarðana og framsýnnar stefnu. „Í breyttri heimsmynd standa þjóðir frammi fyrir ýmsum áskorunum. Stríðsátök, gervigreindarkapphlaup og breyttir viðskiptahættir hafa haft áhrif á alþjóðlegt efnahagslíf og skilað sér með einum eða öðrum hætti hingað til lands. Við byggjum okkar lífskjör á því að framleiða verðmæti og flytja út. Þess vegna þarf virkilega að sinna alþjóðlegri hagsmunagæslu til að tryggja greiðan aðgang að helstu mörkuðum. Stærstu hindranirnar sem við þurfum að takast á við hérna heima fyrir eru skortur á raforku og flutningsgetu, flókið regluverk og tafir á leyfisveitingum, slæmt ástand innviða og skortur á sérþekkingu hvort heldur sem er á sviði iðnmenntunar eða í STEAM-greinum.“

Við verðum að sækja tækifærin, tryggja orkuframboð, fjárfesta í innviðum …
Við verðum að sækja tækifærin, tryggja orkuframboð, fjárfesta í innviðum og halda áfram að styðja við nýsköpun og tækniframfarir að mati Sigurðar Hannessonar framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins. mbl.is/BIG

Iðnþingið fékk sterk og jákvæð viðbrögð

Hvernig gekk Iðnþingið 2025?

„Iðnþingið gekk afar vel og við höfum fengið sterk og jákvæð viðbrögð. Aldrei hafa fleiri mætt á Iðnþing og ljóst er að iðnaðurinn og áskoranir hans eru ofarlega á baugi. Skilaboðin voru skýr: Við verðum að sækja tækifærin, tryggja orkuframboð, fjárfesta í innviðum og halda áfram að styðja við nýsköpun og tækniframfarir. Við þurfum að taka virkan þátt í gervigreindarkapphlaupinu og efla tengsl okkar bæði til vesturs og austurs. Þetta kallar á stefnumótun stjórnvalda sem styður við tækniþróun og innleiðingu gervigreindar í atvinnulífið,“ segir Sigurður.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra fylgdist athugul með á Iðnþingi 2025.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra fylgdist athugul með á Iðnþingi 2025. mbl.is/BIG

Viðnámsþróttur var til umfjöllunar á Iðnþinginu og geta samfélagsins til að takast á við fjölbreyttar áskoranir og ógnir, bæði af völdum náttúruhamfara en einnig af mannavöldum. „Við þurfum að efla okkur og þar þarf samstarf stjórnvalda og atvinnulífs að vera skýrt og markvisst. Fjölmargar leiðir eru til þess að gera betur en áhuginn og þörfin er sannarlega til staðar.

Gervigreindarkapphlaupið er nokkurs konar vopnakapphlaup 21. aldarinnar og snertir alla geira samfélagsins. Ísland þarf að vera virkur þátttakandi í þeirri þróun ef við viljum tryggja samkeppnishæfni og öryggi þjóðarinnar. Það mun skilja á milli þeirra þjóða sem taka virkan þátt og þeirra sem sitja hjá. Ísland sætir takmörkunum frá bandarískum stjórnvöldum þegar kemur að tækni gervigreindar sem mun að óbreyttu draga úr möguleikum okkar til að taka virkan þátt. Við höfum fundið fyrir áhuga íslenskra stjórnvalda á því að bæta úr sem er forsenda þess að okkur vegni vel á þessu sviði.

Þá kom einnig fram mikilvægi þess að gæta alþjóðlegra hagsmuna Íslands bæði til austurs og vesturs. Við byggjum okkar lífskjör á því að framleiða verðmæti og flytja út. Þess vegna þurfum við greiðan aðgang að mörkuðum,“ segir hann.

Ljóst er að iðnaður og áskoranir hans eru ofarlega á …
Ljóst er að iðnaður og áskoranir hans eru ofarlega á baugi fólks um þessar mundir. mbl.is/BIG

„Þurfum að tryggja iðnaðinum nægjanlega orku“

Sigurður fer fögrum orðum um mótun iðnaðarstefnu forsætisráðherra. „Við fögnum orðum forsætisráðherra um mótun iðnaðarstefnu með það að meginmarkmiði að auka framleiðni. Það er ljóst í okkar huga að slík stefna á að vera heildstæð og taka til þess hvernig við sækjum tækifærin en ekki síður um hindranir sem þarf að ryðja úr vegi. Ef við ætlum að sækja fram og tryggja stöðu Íslands sem samkeppnishæfs lands í iðnaði og nýsköpun verðum við að grípa til eftirfarandi aðgerða: Auka orkuöflun og hraða uppbyggingu flutningskerfisins til að tryggja að iðnaðurinn hafi nægjanlega orku. Einfalda regluverk og flýta fyrir leyfisveitingum til að fjárfestingar skili sér hraðar í atvinnulífið. Fjárfesta í innviðum, sérstaklega samgöngum, til að bæta hagkvæmni og samkeppnishæfni. Fjölga þarf iðn- og tæknimenntuðum sem og sérfræðingum til að mæta vexti hugverkaiðnaðar. Til þess þarf markvissar aðgerðir eins og aukna fjárfestingu í menntakerfinu, öflugra starfsnám og hvata fyrir fyrirtæki til að taka virkan þátt í þjálfun og þróun starfsfólks. Styðja áfram við nýsköpun og tækniþróun með skýrri stefnu og markvissum hvötum.

Ef við leysum þessi mál höfum við alla burði til að byggja upp öflugt atvinnulíf sem tryggir áframhaldandi velmegun fyrir þjóðina.“

Sigurður Hannesson hefur verið áberandi í umræðunni um betra umhverfi …
Sigurður Hannesson hefur verið áberandi í umræðunni um betra umhverfi fyrir iðnfyrirtæki í landinu á undanförnum árum. Hann leggur áherslu á að allar breytingar sem gerðar eru, séu einnig fyrir fólkið í landinu, sem nýtur góðs af þeim verðmætum sem verða til. mbl.is/BIG

Öryggi vegfarenda er ógnað í umferðinni

Innviðaskuldin vex og vex þrátt fyrir vilja til að bæta úr því segir Sigurður: „Við verðum að breyta forgangsröðun opinberra fjárfestinga og nýta fjölbreyttari fjármögnunarleiðir. Sem dæmi þarf að ráðast í samvinnuverkefni í vegagerð til að hraða uppbyggingu. Betri innviðir eru lykillinn að aukinni framleiðni og hagvexti. Öryggi vegfarenda er ógnað, fletta þarf klæðningu af vegum og burðarlag er víða lélegt. Við getum ekki beðið lengur eftir uppbyggingu,“ segir hann.

Áliðnaður burðarás í efnahagslífinu

Að mati Sigurðar er og verður áliðnaðurinn burðarás í íslensku efnahagslífi. „Rannveig Rist ræddi á Iðnþingi um mikla þróun í greininni og stór verkefni fram undan. Landsvirkjun var stofnuð til að selja raforku til Álversins í Straumsvík sem hefur átt stóran þátt í þróun íslensks orkusækins iðnaðar. Velgengni Landsvirkjunar byggist að miklu leyti á þessum viðskiptum, sem sýna hversu mikilvægur iðnaðurinn er fyrir íslenskt efnahagslíf,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, að lokum.

Sigurður hefur átt gott samstarf við Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur …
Sigurður hefur átt gott samstarf við Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur á undanförnum árum. mbl.is/BIG
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert