„Iðnaður er burðarás íslensks hagkerfis“

Árni Sigurjónsson yfirlögfræðingur JBT Marel, var fyrst kjörinn formaður Samtaka …
Árni Sigurjónsson yfirlögfræðingur JBT Marel, var fyrst kjörinn formaður Samtaka iðnaðarins í apríl árið 2020 en hafði setið í stjórninni síðan árið 2016 og verið varaformaður frá 2017. mbl.is/BIG

Árni Sigurjónsson, yfirlögfræðingur JBT Marel og formaður Samtaka iðnaðarins, segir Ísland standa á tímamótum um þessar mundir í nýrri heimsmynd vegna aukinnar verndarstefnu, tollamúra og aukinna ríkisafskipta víða.

„Verðmætasköpun greinarinnar í það heila var 900 milljarðar króna á síðasta ári sem er um fjórðungur landsframleiðslunnar, og að jafnaði störfuðu um 52 þúsund manns í greininni árið 2024, sem er einn af hverjum fjórum á íslenskum vinnumarkaði. Íslenskur iðnaður stendur því undir stórum hluta lífsgæða landsmanna,“ segir Árni Sigurjónsson, yfirlögfræðingur JBT Marel, sem einnig gegnir stöðu formanns Samtaka iðnaðarins. „Á síðustu árum hefur vægi iðnaðar í hagkerfinu aukist, bæði vegna vaxandi útflutnings og fjölgunar starfa.

Í dag er iðnaður stærsta útflutningsgrein Íslands en tvær af fjórum meginstoðum útflutnings, orkusækinn iðnaður og hugverkaiðnaður, eru innan okkar vébanda. Þau lífsgæði sem við njótum á Íslandi í dag væru óhugsandi án sterks iðnaðar sem skapar útflutningstekjur og stuðlar að verðmætasköpun,“ segir hann og bætir við að á síðasta ári námu útflutningstekjur iðnaðar 750 milljörðum króna eða 39% af heildarútflutningstekjum þjóðarbúsins. „Til samanburðar skilaði ferðaþjónustan 32% og sjávarútvegur 18%. Þetta sýnir að iðnaður er burðarás íslensks hagkerfis. Orkusækinn iðnaður á yfir hálfrar aldar sögu útflutnings hér á landi en í fyrra skilaði hann um 23% af heildarútflutningi. Hugverkaiðnaður er yngri grein sem hefur verið í miklum vexti undanfarinn áratug og skilaði sú grein 16% útflutningstekna síðasta árs.“

Nýr iðnaður sem byggir ofan á grunnstoðirnar, hugvit, tækniþekking, sérþekking á auðlindum okkar og náttúrulegum áskorunum, er sífellt stærri þáttur í verðmætasköpun okkar. „Og við getum gert enn betur ef við sköpum réttar kringumstæður. Þar leikur allt sem byggist á hugvitinu áfram algjört lykilhlutverk. Eitt útilokar ekki annað því annar iðnaður og atvinnulíf almennt nýtur undantekningarlaust góðs af vexti og uppbyggingu af þessum toga,“ segir Árni.

Samkeppnishæfni Evrópu hefur farið hratt þverrandi

Árni segir að hvort sem okkur líkar það betur eða verr verðum við að horfast í augu við að upp sé runninn nýr tími. „Í raun ný heimsmynd með aukinni verndarstefnu, tollamúrum, auknum ríkisafskiptum í viðskiptum og umtalsvert meiri opinberri fjárfestingu í stefnumótandi og mikilvægum atvinnugreinum en við höfum áður séð. Stórveldin í alþjóðaviðskiptum; Bandaríkin og Kína sýna okkur ítrekað að þau spila ekki eftir sömu leikreglum og Evrópa, okkar stærsti einstaki útflutningsmarkaður, gerir og samkeppnishæfni Evrópu hefur því miður farið hratt þverrandi undanfarin ár. Sú staða hefur mikil áhrif á Ísland.

Árni bendir á að af 100 stærstu tæknifyrirtækjum heims nú …
Árni bendir á að af 100 stærstu tæknifyrirtækjum heims nú um stundir eru einungis um 15 þeirra í Evrópu. mbl.is/BIG

Það sem helst hefur verið bent á í Evrópu hvað þetta varðar er að orka er of dýr, fjárfestingar í lágmarki, hraði nýsköpunar of hægur, minnkandi framleiðni, skriffinnska og óhófleg reglubyrði sem hindrar vöxt og sá fyrirsjáanleiki sem fyrirtæki þarfnast til að fjárfesta hefur reynst veruleg áskorun. Raunar var það orðað þannig í hinni umræddu Draghi-skýrslu, sem kom út fyrir um hálfu ári, að Evrópa væri í tilvistarkreppu þegar kæmi að aðgerðum til að auka framleiðni.

Meðan diplómatísk vinabönd traustra bandamanna og samstarfsþjóða trosna smám saman er hvergi slegið af í tækni- og gervigreindarkapphlaupinu. Þar stendur Evrópa öðrum stórveldum langt að baki en af 100 stærstu tæknifyrirtækjum heims nú um stundir eru einungis um 15 þeirra í Evrópu.“

Þurfum að auka samvinnu við stórveldin

Eins og Árni rakti í ræðu sinni á Iðnþinginu telur hann svarið við þessum áskorunum vera aukið alþjóðasamstarf sem leiðir til sterkari Evrópu. „Þar geta Norðurlöndin í sameiningu haft mikið að segja. Samkeppnishæf og framsækin Evrópa þýðir einfaldlega samkeppnishæfara Ísland. Sömuleiðis þurfum við markvisst að auka samvinnu og samstarf við stórveldin sem leiða tækni- og gervigreindarkapphlaupið í þeim efnum, einkum og sér í lagi Bandaríkin sem standa okkur nær landfræði- og menningarlega en Kína. Fríverslunarsamningar við nýja markaði eins og Indland, þriðja stærsta hagkerfi heims, munu sömuleiðis opna möguleika fyrir Ísland í breyttri heimsmynd.

Við vitum að á tímum óvissu spretta upp fjölmargir nýir möguleikar og tækifæri og þau verðum við að grípa. Við höfum ekki efni á að láta stefnuleysi, innviðaskuld eða kerfislægan seinagang hamla för okkar. Við þurfum að taka höndum saman og skapa jarðveg sem getur brugðist hratt við sviptingum í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi okkar. Þannig getur smæðin, sjálfstæðið, óhæðið og stuttar boðleiðir frá hugmyndum til framkvæmdar orðið það forskot sem við þurfum að nýta okkur.“

Árni er án efa einn af helstu sérfræðingum þjóðarinnar þegar …
Árni er án efa einn af helstu sérfræðingum þjóðarinnar þegar kemur að umhverfi iðnfyrirtækja í landinu en hann hefur verið formaður Samtaka iðnaðarins frá árinu 2020. mbl.is/BIG

Starfsumhverfið og leikreglurnar þurfa fyrst og fremst að endurspegla stefnu okkar og lykilhagsmuni, sem er því miður ekki alltaf raunin hér á landi að mati Árna. „Starfsumhverfið hér ber oftar en ekki keim af hagsmunum ríkja innan Evrópusambandsins sem við svo innleiðum í íslensk lög og reglugerðir. Hluti af því er óneitanlega eitthvað sem okkur hefði aldrei dottið í hug að setja í íslensk lög ef við stæðum fullkomlega óháð en er það gjald sem við greiðum fyrir að vera hluti af hinum mikilvæga EES-samningi. Þá ríður á að vera gagnrýnin og lausnamiðuð við innleiðinguna og gæta þess að gullhúðun eigi sér ekki stað, það er að segja að þyngri byrðar, kvaðir og óhagkvæmari sérreglur séu lagðar á fyrirtæki og almenning hér á landi með íslenskum lögum en raunverulega er mælst til. Við sjáum svart á hvítu að það eru ekki allir að spila eftir sömu leikreglum í alþjóðaviðskiptum og Evrópuríkin, og þar með Ísland, eiga á hættu að klemmast á milli stórveldanna og verða undir í samkeppninni ef ekkert verður aðhafst. Evrópa getur því ekki haldið áfram á sömu braut hvað þetta varðar.

Við höfum sjálfdæmi um svo margt þegar kemur að regluverki og megum ekki vera feimin við að sníða okkur stakk eftir vexti. Gera nauðsynlegar og fyrirsjáanlegar breytingar á starfsumhverfinu til að auka hvata á ýmsum sviðum, laða að fjárfestingu og efla rannsóknir og þróun enn frekar. Á sama tíma kann að þurfa að grípa til varna fyrir viðkvæmari en ekki síður mikilvægar greinar með þeim úrræðum sem bjóðast, rétt eins og aðrar þjóðir gera. Þannig getum við byggt á styrkleikum okkar, sérstöðu og þeirri gjörbreyttu stöðu í atvinnumálum sem okkur hefur tekist að skapa með fjölgun útflutningsstoða á undanförnum 15 árum eða svo.“

Mikill áhugi var á Iðnþingi 2025 en hér má sjá …
Mikill áhugi var á Iðnþingi 2025 en hér má sjá Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra, Sigurð Hannesson framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins og Rannveigu Rist forstjóra Rio Tinto á Íslandi. mbl.is/BIG

Þurfum stöðugt að efla íslenskt menntakerfi

Ný ríkisstjórn hefur boðað að vinna sé að hefjast um atvinnu- og iðnaðarstefnu sem Árni telur að gæti orðið mikilvægt framfaraskref sem ætti að geta hjálpað okkur í að skilgreina og gæta lykilhagsmuna Íslands í framtíðinni. „Við erum stöðugt á krossgötum þar sem annars vegar takast á löngunin til að halda okkur við það sem við þekkjum og hins vegar viljinn til að framkvæma og hugsa stærra. Ef við ætlum að halda áfram að ná árangri og ef við ætlum að viðhalda og auka lífsgæði okkar, skapa verðmæti og góð störf þá er einsýnt að við þurfum að taka ákvarðanir sem geta sumar verið erfiðar og umdeildar, til dæmis í orku- og menntamálum.

Við þurfum stöðugt að efla íslenskt menntakerfi með markvissu samstarfi atvinnulífs og skólanna til að mæta færniþörfum framtíðarinnar og örum tæknibreytingum og sem gagnast heildinni. Nú sem endranær þurfum við að tryggja að við eigum nægan mannauð í fjölbreyttum greinum til að geta áfram vaxið og dafnað. Fyrir fámenna þjóð skiptir hvert og eitt okkar máli í þeim efnum.“

Við þurfum stöðugt að efla íslenskt menntakerfi með markvissu samstarfi …
Við þurfum stöðugt að efla íslenskt menntakerfi með markvissu samstarfi atvinnulífs og skólanna til að mæta færniþörfum framtíðarinnar og örum tæknibreytingum, sem gagnast heildinni að mati Árna. mbl.is/BIG

Árni segir alla geira atvinnulífsins skipta máli í okkar litla hagkerfi og grunnstoðirnar hafa stutt við nýja atvinnuvegi. „Við eigum ótal sögur af hugmyndum, stórum sem smáum, sem urðu til í sjávarútvegi, landbúnaði, ferðaþjónustu og ekki síst fjölbreyttum iðnaði, sem leiddu af sér mikilvæg skref til framþróunar og bættra lífshátta. Á móti hafa grunnstoðirnar notið stórkostlegs ábata af hvers konar tækninýjungum og grundvallarbreytingum í vinnslu- og framleiðsluaðferðum. Hugmyndirnar, trúin á þær og krafturinn til að hrinda þeim í framkvæmd hafa alltaf verið það sem fleytir okkur inn í betri framtíð,“ segir Árni og bætir við að eftirspurnin eftir íslenskum hugmyndum sé mikil.

„Íslensk fyrirtæki eru stöðugt að hagnýta hugvitið til að ná eftirtektarverðum árangri. Frumkvöðlarnir eru búnir að ryðja skaflinn og við erum í óðaönn að koma á laggirnar nýjum fyrirtækjum sem sum hver munu verða alþjóðleg stórfyrirtæki. Önnur munu skapa ný störf og þekkingu sem ekki hefur áður verið til á Íslandi. Við erum að leggja grunninn að nýjum atvinnugreinum, við erum að hagnýta tæknina til að gera vegalengdir og landamæri að aukaatriði, vinna gegn loftslagsvandanum, skapa meiri verðmæti úr takmörkuðum auðlindum, auka öryggi starfsfólksins okkar og svo mætti lengi telja. Stærstu vaxtartækifærin til framtíðar eru því í iðnaði. Þannig er hugverkaiðnaðurinn, fjórða stoð útflutnings, á góðri leið með að verða sú stærsta áður en þessi áratugur er á enda.“

Aldrei hafa fleiri mætt á Iðnþing en nú mættu. Yfirskrift …
Aldrei hafa fleiri mætt á Iðnþing en nú mættu. Yfirskrift Iðnþingsins var Ísland á stóra sviðinu og sköpuðust áhugaverðar umræður um samkeppnishæfni landsins og iðnað almennt.

Sumt gengið vel og annað illa í iðnaði

Hvað hefur gengið vel á undanförnum árum og hvar eru málin seint og illa að vinnast?

„Íslenskur iðnaður hefur heilt yfir aldrei verið í sterkari stöðu en einmitt nú. Sá aukni fókus sem settur var á nýsköpun, rannsóknir og þróun fyrir um áratug sem vaxtarsprota fyrir íslenskt atvinnulíf hefur skilað sér í undraverðum vexti og uppgangi hugverkaiðnaðar. Þó vísirinn að spennandi tækni- og hugverkaiðnaði hafi sannarlega verið kominn til sögunnar fyrr, til dæmis með fyrirtækjum eins og Össuri, Marel, Oz, Actavis og CCP, hafði umgjörð og starfsumhverfi þessa geira fengið litla athygli stjórnvalda. Þau skref sem tekin hafa verið, til að mynda varðandi endurgreiðslur á hlutfalli af rannsóknar- og þróunarkostnaði, hafa gjörbreytt myndinni og verið frábær fjárfesting í framtíðinni. Endurgreiðslurnar hafa gert fyrirtækjum og frumkvöðlum í hugverkaiðnaði kleift að ráða til sín fleiri starfsmenn, sinna meiri þróun en ella og skapað grundvöll að hraðari vexti á breiðari grunni. Flóra öflugra fyrirtækja í þessum geira er orðin afar fjölbreytt og af þeim árangri er ég gríðarlega stoltur.“

Þá segir Árni að mjög jákvæðar breytingar hafi orðið bæði í mannvirkja- og framleiðsluiðnaði þar sem mikil nýsköpun hafi átt sér stað í að mörgu leyti breyttu landslagi. Framleiðsluiðnaðurinn hafi tileinkað sér ýmsar tækninýjungar sem gjörbreyti stöðunni fyrir marga og auki möguleika á bættri framleiðni og nýtingu hráefna með hliðsjón af sjálfbærnimarkmiðum. „Þó er fjárfestingaþol með misjöfnum hætti eftir greinum enda sums staðar lítið sem situr eftir í hávaxtaumhverfi þegar búið er að greiða fyrir hráefni, há laun og íþyngjandi skatta og gjöld í alþjóðlegum samanburði og annan fastan kostnað, svo sem ört hækkandi raforkuverð. Okkur ber að styðja vel við innlenda framleiðslu og við vitum að Íslendingar velja almennt íslenskt þegar það er í boði.

Það sem stendur okkur helst fyrir þrifum, eins og í flestum öðrum atvinnugreinum hér á landi, eru háir vextir og verðbólga sem hafa bein áhrif á fjárfestingar og rekstrarkostnað fyrirtækja. Þá stendur orkuskortur iðnaði verulega fyrir þrifum sem endurspeglast í ört hækkandi raforkuverði sem um leið er bein afleiðing orkuskorts. Innviðina okkar þarf almennt að styrkja, þar erum við sem þjóð í stórri skuld, sem er eitthvert óhagstæðasta lán sem ríkið getur tekið.

Hár launakostnaður er sömuleiðis viðfangsefni atvinnurekenda um land allt og tækifæri til hagræðingar virðast af skornum skammti, ekki síst vegna strangra samkeppnisreglna á litlum markaði. Eins höfum við nefnt skort á tæknimenntuðu vinnuafli sem áskorun til framtíðar og sömuleiðis það starfsumhverfi sem okkur er ætlað að starfa og blómstra í, sem einkennist af háum sköttum, íþyngjandi gjöldum og flóknu regluverki. Þá er sú óvissa sem nú ríkir í alþjóðahagkerfinu og mögulegt tollastríð milli stórveldanna veruleg áskorun fyrir okkar útflutningsdrifna hagkerfi.“

Óskalistinn ekki flókinn

Árni er hafsjór af þekkingu um umhverfi fyrirtækja í landinu og því er forvitnilegt að vita hver óskalisti hans væri – ef hann gæti breytt umhverfinu fyrir fyrirtækin og fólkið í landinu. „Í fyrsta lagi myndi ég vilja öflun nægrar orku með skynsömum hætti og með þjóðarhag í fyrirrúmi. Það að ekki sé til orka fyrir ný verkefni og tækifæri á sviði iðnaðar er grafalvarlegt mál. Orkan er grundvöllurinn að frekari uppbyggingu – og ég hef ítrekað bent á að án orku verði ekki hagvöxtur. Ég tel auðsýnt að þverpólitískur vilji sé fyrir því að fara nú í myndarlegt átak hvað þetta varðar en það mun því miður taka drjúgan tíma að koma orkuöflun í gott og sjálfbært horf. Þegar kemur að starfsumhverfi og regluverki væri óskandi að það væri hvetjandi en ekki letjandi, þar með talið með lækkun skatta og gjalda en Ísland er á flesta mælikvarða háskattaland þar sem um 40% af verðmætasköpun hagkerfisins renna til stjórnvalda í formi skatta og gjalda. Hið opinbera seilist stöðugt í stærri hluta af þeirri litlu framlegð sem eftir verður þegar búið er að greiða fastan kostnað og laun. Þá myndi ég vilja að innviðirnir okkar landið um kring væru sterkari og í mun betra ásigkomulagi en raun ber vitni, samanber umfjöllun okkar um innviðaskuldina í skýrslunni um ástand og framtíðarhorfur innviða á Íslandi sem kynnt var í síðasta mánuði. Það er erfitt að vera í stöðugum átaksverkefnum með innviðina en skuldin er há og við þurfum að ná henni myndarlega niður á sem skemmstum tíma. Svo óska ég þess að við byggjum við öflugra fjárfestingaumhverfi sem trúir á íslenskt atvinnulíf og væri ekki feimið við að laða að sér erlenda fjárfestingu. Að lokum þurfum við framúrskarandi menntakerfi sem horfir fram á veginn, skilur framtíðina og gerir ungu fólki kleift að blómstra, byggt á hæfileikum hvers og eins,“ segir Árni Sigurjónsson, yfirlögfræðingur JBT Marel og formaður Samtaka iðnaðarins, að lokum.

Árni segir að án orku verði ekki hagvöxtur í landinu.
Árni segir að án orku verði ekki hagvöxtur í landinu. mbl.is/BIG
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert