Jón Birgir Valsson, sölustjóri fyrirtækjasviðs S4S, sér til þess að Ellingsen sé með allt sem til þarf fyrir notalegar útilegur sumarsins sem hann segir að séu alltaf að verða glæsilegri með árunum.
„Þar sem Ellingsen og heildsala S4S snýst að miklu leyti um árstíðabundnar vörur þá erum við komin á fulla ferð í sölu á útilegu- og útivistarvörum fyrir þessa árstíð. Hvað útileguvörurnar varðar má segja að viðskiptavinir okkar hafi tekið nokkuð vel við sér í ár og þeir eru í óðaönn um þessar mundir að græja sig upp fyrir sumarið með tjaldakaupum og endurnýjun á öðrum viðlegubúnaði.
Það sem Ellingsen leggur áherslu á er þjónusta við fjölskylduna þar sem hún getur fundið allt það helsta fyrir útileguna og útivistina á einum stað. Í því samhengi leggjum við áherslu á að bjóða upp á breitt úrval fjölskyldutjalda þar sem vel fer um alla í svefnrýminu og ekki síður í forstofurými þeirra tjalda sem búin eru slíkum munaði. Þá erum við með gott úrval af vindsængum eða loftdýnum, bæði uppblásnum sem og sjálfuppblásanlegum. Útilegu-húsgagnaúrvalið er sömuleiðis mjög gott og ættu allir að geta fundið stóla og borð við sitt hæfi,“ segir Jón Birgir Valsson, sölustjóri fyrirtækjasviðs S4S, sem ásamt verslunarstjórum Ellingsen-búðanna í Reykjavík og á Akureyri hefur veg og vanda af innkaupum á útileguvörunum fyrir Ellingsen og heildsölu S4S.
Hverju mælirðu með fyrir fjölskyldur með ung börn fyrir útileguna?
„Vegna bjartra sumarnátta á Íslandi myndi ég mæla sérstaklega með Coleman Blackout-tjöldunum. Þessi tjöld eru búin sérstakri Blackout Bedroom-filmu sem útilokar 99% af sólarljósi inni í svefnrýminu en þannig geta foreldrarnir sofið aðeins lengur án þess að barnið vakni fullsnemma haldandi klukkan fimm að nóttu að það sé kominn dagur. SPF50-sólarvörnin í filmunni hjálpar jafnframt við hitatemprun inni í tjaldinu þannig að ekki verði molla í morgunsólinni. Þá er einnig hlýrra í kulda heldur en í öðrum tjöldum. Coleman-tjöldin eru þau einu á markaðnum með þessa filmu. Í útilegum hér á landi þarf að gera ráð fyrir að veður geta verið válynd og votviðrasöm, því skiptir miklu máli að vera alltaf með High Peak-áldýnu undir vindsænginni til að loka á kuldaleiðni upp í líkamann. Það má einnig nefna að Merino-ullarnærfatnaðurinn frá Devold, fyrir börn og fullorðna, er frábær í útileguna til að fyrirbyggja kuldann. Þarna er um að ræða langerma ullarbol og föðurland sem lagar sig að hitastigi líkamans þannig að þér verður hvorki kalt, né of heitt. Devold-ullarfatnaðurinn stingur ekki,“ segir Jón Birgir.
Fyrir utan Coleman Blackout-tjöldin eru loftsúlutjöldin alltaf að verða vinsælli meðal útilegufólks að hans sögn. „Þessi tjöld eru fljótleg í uppsetningu og eru einstaklega hentug fyrir íslenskt veðurfar þar sem þau standa vel af sér verstu hvassviðri. Þegar bálhvasst er þá svigna þau kannski aðeins í takt við veðrið en fara svo aftur í upprunalega stöðu. Það er því ekki hætta á brotnum súlum. Loftsúlutjöldin sem Ellingsen býður upp á eru afskaplega vönduð en á mjög skaplegu verði fyrir fjölskyldufólk. Þau eru rúmgóð og með tveimur svefnrýmum sem hægt er að opna á milli og þá er forstofan það stór að auðvelt er að koma fyrir útileguhúsgögnum þar til að snæða máltíðir með fjölskyldunni. Loftsúlutjöldin koma frá Safarica og Bardani, sem eru sömu merki og við höfum verið með í útilegustólum og borðum til fjölda ára.“
Í Ellingsen má finna mjög vandaðar vindsængur eða loftdýnur frá Coleman, Exped og High Peak. „Þarna er um að ræða gömlu góðu uppblásnu dýnurnar og svo eru sjálfuppblásanlegu loftdýnurnar alltaf að ryðja sér meira til rúms hjá okkar viðskiptavinum en þær eru líkari því sem við eigum að venjast í hefðbundnum rúmdýnum. Við erum með gott úrval af svefnpokum, þar eru hvað þekktastir Coleman-svefnpokarnir sem hafa notið mikilla vinsælda hjá okkur í áratugi. Einnig bjóðum við upp á frábæra svefnpoka frá Mountain Equipment og High Peak. Hver og einn ætti að finna svefnpoka við sitt hæfi eftir því hvort fólk er heitfengt eða kulsækið.“
Þar sem verslanir S4S eru hvað þekktastar fyrir sölu á vönduðum skófatnaði í gegnum tíðina þá er mjög gott úrval útivistarskóa í Ellingsen. „Ég má til með að nefna í því samhengi Peak Freak frá Columbia sem eru í boði háir og lágir en það eru léttir og vatnsheldir skór sem henta í alla útivist, hvort sem er í léttri göngu upp Esjuna eða á röltinu upp að Svartafossi í Skaftafellsþjóðgarði.
Ellingsen býður einnig upp á vandaðan og góðan útivistarfatnað frá Pinewood, Columbia og Bergans. „Þriggja laga skeljarnar frá Pinewood og Columbia eru einstaklega léttar og vandaðar yfirhafnir sem gott er að nýta í öllum sumarveðrum á íslandi. Þá eru útivistarbuxurnar frá téðum merkjum frábærar, þar sem val er um mjög léttar buxur og upp í þriggja laga vatnsheldar. Köflóttu flannel-skyrturnar eru mjög vinsælar í útivistina enda um léttar og þægilegar skyrtur að ræða. Flanel-skyrturnar frá Pinewood og Bergans hafa slegið í gegn hjá okkur og höfum við vart undan að panta inn nýjar frá birgjum okkar erlendis.“
Það má merkja af viðskiptavinum Ellingsen að oft á tíðum er mikið lagt upp úr að hafa það sem notalegast í útileguferðum. „Að ferðast með sem umfangsminnstum hætti, helst þannig að bíllinn nægi fyrir farangurinn en þó þannig að rúmt sé um alla – en samt þannig að lúxus og þægindi séu í hávegum höfð þegar á tjaldstæðið er komið. Þarna skiptir máli að vera með góða en þægilega stóla og borð sem leggjast vel saman í flutningi, fólk er jafnframt farið að velja sér nett grill eða gashellur sem ganga fyrir 300-500 gramma gashylkjum frekar en einnota grill eða fyrirferðarmikil grill sem kalla á tveggja til fimm kílóa gaskúta. Einnig hefur færst í vöxt að fólk skreyti tjöldin sín með gólfmottum, ljósaseríum, litlum borðlömpum og skrauti til að hafa notalegheitin sem mest.
Þá bjóðum við einnig upp á samanbrjótanleg „eldhús“ og skápa sem verða eins og litlir IKEA-pakkar þegar gengið er frá þeim til flutnings. Eldhúsið er í raun borð með nokkrum hillum og hólfum með flísalagnamynstruðu baki hvar hægt er að standa uppréttur við eldamennskuna, hvort sem er úti eða innandyra í fjölskyldutjöldunum.
Framþróun hefur átt sér stað í rafmagnskæliboxum sem nú bjóðast með kælipressu í stað kæliviftu sem býður upp á mun meiri orkusparnað en forverinn gat boðið upp á. Nýju rafkæliboxin geta verið tengd við rafinnstungu bílsins í allt að fjóra sólarhringa án þess að tæma rafgeymi bílsins. Viftukæliboxið er mun eyðslufrekara og getur tæmt rafgeymi bílsins á nokkrum klukkutímum sé brunahreyfill bílsins ekki í gangi. Því er þarna um mikla framþróun að ræða í rafmagnskæliboxunum,“ segir Jón Birgir að lokum og bætir við: „Ég minni þá sem eru að undirbúa viðlagakassann vegna átaks Rauða krossins, 3dagar.is, á að hægt er að kaupa sjúkrakassa, gashylki og gasbrennara hjá Ellingsen Reykjavík og Ellingsen Akureyri.“