„Frábært veiðisumar framundan“

Friðjón Mar Sveinbjörnsson eigandi Veiðiflugna verður með Veiðimessu á morgun, …
Friðjón Mar Sveinbjörnsson eigandi Veiðiflugna verður með Veiðimessu á morgun, laugardaginn 31. maí, að Langholtsvegi 111. Á myndinni má sjá hann í sínu náttúrulega umhverfi. mbl.is/Aðsend

„Við fögnum veiðisumrinu með sannkallaðri veiðiveislu í Veiðiflugum á morgun, laugardaginn 31. maí,“ segir Friðjón Mar Sveinbjörnsson, eigandi Veiðiflugna á Langholtsvegi. Friðjón hefur í gegnum árin aðstoðað fjölmarga veiðimenn í fluguveiðinni, hvort sem það er við val á hentugum vöðlum eða fengsælum flugum. Til að bjóða veiðisumarið velkomið verður blásið til Veiðimessu í versluninni á morgun þar sem veiðiþyrstir geta kynnt sér allt það helsta og nýjasta í heimi fluguveiðinnar.

„Við ætlum að hefja veiðisumarið með stæl og halda sumarhátíðina á morgun frá klukkan ellefu til fimm. Það ætti enginn veiðiáhugamaður að láta Veiðimessuna fram hjá sér fara enda tilvalið að mæta og hitta aðra veiðimenn sem eru orðnir ansi spenntir fyrir veiðisumrinu. Við munum setja upp sérstakt veiðitjald fyrir framan verslunina þar sem notalegt andrúmsloft og sannkölluð fjölskyldustemning mun ráða ríkjum. Brasserie-vagninn sér um veitingarnar og hafa veðurguðirnir lofað bongóblíðu á laugardaginn svo að hægt verði að njóta þeirra í sólinni.“

Þeir Andri Freyr og Jóhann Sigurður eru á meðal þeirra …
Þeir Andri Freyr og Jóhann Sigurður eru á meðal þeirra sem standa vaktina í sumar í Veiðiflugum að Langholtsvegi. mbl.is/Karítas

„Gestir geta svo tekið þátt í happdrætti þar sem fjöldi veglegra vinninga er í boði. Þá verðum við með sérstök sumartilboð á veiðibúnaði og við kynnum allt það nýjasta frá okkar birgjum, svo sem Patagonia, Fishpond, Guideline, Korkers, CND, Loop og Einarsson. Fjölmargar nýjar flugur líta dagsins ljós fyrir þetta sumarið en úrvalið í þeirri deild hefur aldrei verið meira. Við efnum til kastkeppni og bjóðum áhugasömum að prófa flugustangir og línur. Á Veiðimessunni kynnum við einnig til leiks nýtt frétta-app og íslenska landsliðið í flugulínum en það samanstendur af átta flugulínum sem hafa meðal annars verið þróaðar af Veiðiflugum,“ segir Friðjón.

Það er eitt mesta úrval af veiðivörum í Veiðiflugur að …
Það er eitt mesta úrval af veiðivörum í Veiðiflugur að Langholtsvegi að sögn Friðjóns. mbl.is/Karítas

Verslunin Veiðiflugur leit fyrst dagsins ljós árið 2009 og fluttist skömmu síðar á Langholtsveg 111 þar sem verslunin hefur verið starfrækt allar götur síðan. „Fyrirtækið var upphaflega stofnað til að mæta eftirspurn eftir vönduðum og vel hnýttum flugum sem erfitt var að finna á þeim árum. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Ég kem inn í Veiðiflugur árið 2016 svo þetta er tíunda sumarið hjá mér á bak við búðarborðið á Langholtsvegi.

Við höfum hægt og hljótt byggt upp reksturinn en árið 2019 keyptum við rekstur heildverslunarinnar Árvíkur og bættust þá við fjölmörg mikilvæg viðskiptasambönd. Fyrirtækið er í stöðugum vexti og erum við sífellt að bæta við vönduðum og áhugaverðum vörumerkjum. Í dag fæst í raun allt hjá okkur sem viðkemur fluguveiði.“

Nýverið hófu Veiðiflugur sölu á SALAR, Iwana og Einarsson fluguhjólum.
Nýverið hófu Veiðiflugur sölu á SALAR, Iwana og Einarsson fluguhjólum. mbl.is/Karítas

Veiðiflugur í þúsundatali

Sjálfur hnýtti Friðjón flugur hér á árum áður. „Það væri óskandi að ég hefði meiri tíma fyrir slíkt núna en ég lærði að hnýta í grunnskóla og svo hefur þessi áhugi bara þróast með árunum og undið upp á sig.“

Fyrir hvaða flugum ertu spenntastur núna?

„Það er erfitt að segja því þær eru svo margar fallegar. Í Veiðiflugum bjóðum við upp á fleiri þúsund gerðir af flugum og það eru alltaf einhverjar nýjar flugur að dúkka upp og skila góðri veiði. Snemmsumars í lax er blá Metallica eftir Pétur Steingrímsson heitinn í sérstöku uppáhaldi. Hún hefur oft á tíðum skilað mér ótrúlegri veiði. Síðan nota ég mikið klassískar flugur eins og Night Hawk og Collie Dog í bland við nýjungar líkt og Glódísi og Bláma. Þá fer flugan Valbeinn, í ýmsum útfærslum, sífellt oftar undir og skilar oftar en ekki fiskum. Ég er aðeins vanafastari þegar kemur að silungaflugunum en Pheasant Tail, Langskeggur, Krókurinn og Holan í ýmsum stærðum og gerðum fara oftast undir. Fyrir þau sem vilja hnýta sínar eigin flugur er gaman að geta þess að hnýtingadeild Veiðiflugna er sífellt að stækka og má þar finna allt frá krókum upp í vönduð fluguhnýtingasett.“

Veiðiflugur bjóða einstakt úrval af flugum í lax- og silugsveiði.
Veiðiflugur bjóða einstakt úrval af flugum í lax- og silugsveiði. mbl.is/Karítas

Alltaf eitthvað nýtt á teikniborðinu 

Þegar kemur að vöruúrvalinu þá eru hin vinsælu vörumerki Pantagonia og Loop Tackle áberandi í Veiðiflugum. „Við erum alltaf með augun opin fyrir nýjum og spennandi vörumerkjum. Sem dæmi tókum við inn stangarmerki í fyrra sem heitir CND og hafa stangirnar fengið alveg gríðarlega góðar viðtökur. Hróður stanganna hefur borist víða og er merkið orðið eitt það vinsælasta á Norðurlöndunum, í Skotlandi og á Írlandi meðal hágæða flugustanga. CND eru nú að kynna nýjar stangir fyrir sumarið sem gaman verður að sýna veiðiáhugafólki. 

Á meðal nýrra vörumerkja fyrir þetta sumar eru Iwana fluguhjólin sem eru framúrskarandi hjól í anda gömlu Bogdan-hjólanna. Þau eru með frábærum bremsubúnaði og 2:1 margfaldara sem þýðir að einn snúningur jafngildir tveimur. Sá eiginleiki getur komið sér sérlega vel þegar mikið er undir. Við höfum einnig tekið inn nýjar stangir og hjól frá Mikael Frödin sem nefnast SALAR S4. Þá kynnti Patagonia í vor nýja línu í vöðlum og veiðifatnaði sem hefur mælst virkilega vel fyrir. Að auki höfum við tekið Einarsson-fluguhjólin aftur í sölu en þau eru Íslendingum vel kunn enda var það vörumerki stofnað á Ísafirði. Fjöldi smærri framleiðanda er einnig að aukast en þeirra á meðal eru Smith Creek, Umpqua, Oros og McLean en hinn síðastnefndi framleiðir frábæra veiðiháfa í lax- og silungsveiði.“

Jóhann Sigurður Þorbjörnsson hefur starfað í þjónustu við veiðimenn í …
Jóhann Sigurður Þorbjörnsson hefur starfað í þjónustu við veiðimenn í yfir 25 ár. mbl.is/Karítas

Flugulínur fyrir íslenskar aðstæður

Hvað getur þú sagt okkur um nýju flugulínurnar?

„Við vorum búin að vera með þá hugmynd í maganum að láta framleiða flugulínur sem eru hugsaðar sérstaklega fyrir íslenskar aðstæður. Árnar okkar eru að mörgu leyti frábrugðnar þeim erlendu enda eru þær íslensku almennt mun tærari, vatnsminni og nálægð við fisk er mikið meiri. Það kallar á öðruvísi nálgun og annars konar veiðibúnað. Flugulínurnar okkar taka mið af þessu og hver og ein þeirra er hönnuð með sérstakar aðstæður í huga. Þær eru framleiddar fyrir einhendur, tvíhendur og fyrir switch-stangir.

Línurnar bera allar nöfn á íslenskum veiðiám svo sem Hofsá, Laxá, Þverá, Sandá og Sog. Nöfnin eru lýsandi fyrir þær ár sem línurnar eru hugsaðar fyrir. Flugulínurnar verða kynntar á Veiðimessunni á morgun og mun gestum og gangandi gefast tækifæri til að prófa og fræðast meira um eiginleika þeirra. Það verður virkilega gaman að kynna þessa skemmtilegu nýjung fyrir veiðimönnum.“

Nýjar flugulínur gerðar fyrir íslenskar aðstæður eru nú til sölu …
Nýjar flugulínur gerðar fyrir íslenskar aðstæður eru nú til sölu í Veiðiflugum. mbl.is/Aðsend

Miðlað af þekkingu og reynslu

„Við eigum sem betur fer mjög stóran og dyggan viðskiptavinahóp enda væri ekki hægt að standa í svona rekstri án hans. Við sinnum einstaklingum og fyrirtækjum, innlendum sem erlendum, og sömuleiðis leiðsögumönnum, veiðileyfasölum og ferðaþjónustufyrirtækjum. Síðast en ekki síst samanstendur stór hluti viðskiptavina af fólki sem stundar lax- og silungsveiði á Íslandi, hvort sem það eru byrjendur eða lengra komnir.“

Það skiptir máli að vita hvernig stöng, lína og fluga …
Það skiptir máli að vita hvernig stöng, lína og fluga virkar í hvaða á. mbl.is/Karítas

„Við leggjum ríka áherslu á hlýtt viðmót og framúrskarandi þjónustu. Hjá Veiðiflugum starfar fólk með gríðarmikla reynslu, bæði í veiði og í þjónustuhlutverki við veiðifólk. Fluguveiðimenn finna vart annars staðar jafnmikla sérfræðiþekkingu þegar kemur að fluguveiði hérlendis og leggjum við metnað okkar í að miðla þekkingu okkar og reynslu svo að hver veiðiferð verði sem ánægjulegust. Þegar fólk byrjar í fluguveiði er sérstaklega mikilvægt að það fái réttar upplýsingar um flugur, tauma, stangir og annan búnað. Við sem sinnum þessari þjónustu verðum að vera meðvituð um vatnsstöðu í hverri á fyrir sig, hvaða flugur eru að virka á hverjum tíma og hversu sterka eða granna tauma þú þarft. Það eru mjög margar breytur sem skipta máli og ekki endilega hægt að fletta því upp á netinu.“

Veiðifatnaður, töskur og fylgihlutir frá þekktum framleiðendum.
Veiðifatnaður, töskur og fylgihlutir frá þekktum framleiðendum. mbl.is/Karítas

Lofar góðu veiðisumri

Friðjón er ekki í nokkrum vafa um að von sé á góðu sumri, í það minnsta þegar kemur að veiðinni. „Ég held að það sé frábært veiðisumar framundan. Ég get nánast lofað því! Við munum mjög líklega fá töluvert af tveggja ára fiski og svo vonum við að smálaxinn fylgi með. Það væri ansi gott að fá milt og hlýtt sumar, með góðri rigningu á sex daga fresti og þurrt þess á milli. Lífríkið er langt á undan miðað við sama tíma í fyrra svo að öll vötn og ár, hringinn í kringum landið, eru nú þegar iðandi af lífi. Það er því staðföst trú mín að þetta verði gott veiðisumar, bæði fyrir lax- og silungsveiðimenn.“

Vel hannaður veiðifatnaður frá Patagonia, Loop og Guideline.
Vel hannaður veiðifatnaður frá Patagonia, Loop og Guideline. mbl.is/Karítas

Að lokum segir Friðjón að hann sé ánægður að finna fyrir þeim mikla áhuga sem unga kynslóðin sýnir fluguveiðinni. „Ég get ekki betur séð en að ný kynslóð af áhugasömum veiðimönnum sé að verða til. Enda varla annað hægt með Ísland sem leikvöll, þar sem hægt er að velja úr ótal veiðivötnum- og ám hringinn í kringum landið.“

Flugustangir frá Loop og CND njóta mikilla vinsælda.
Flugustangir frá Loop og CND njóta mikilla vinsælda. mbl.is/Karítas
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert