„Það hefur orðið gríðarleg aukning í ferðavagnabransanum og það stefnir í að það verði allt brjálað út september. Yfirleitt byrjar þessi vertíð í maí en hún virðist vera að byrja enn fyrr í ár, og síðustu ár. Mesta aukningin er í viðgerðum og viðhaldi á öllum ferðavögnum, hvort sem það heitir húsbíll, hjólhýsi, fellihýsi eða camper,“ segir Pétur Júlíus Halldórsson sem er eigandi Bílaraf að Flatahrauni í Hafnarfirði ásamt eiginkonu sinni, Kristínu Gunnarsdóttur.
„Bílaraf er almennt bílaverkstæði auk þess að gera við og sinna viðhaldi við ferðavagna. Þetta skiptist svolítið eftir tímabilum hjá okkur. Yfir sumarið er þetta meira ferðavagnarnir og vissulega bílarnir en á veturna erum við líka mikið í alls kyns kerruviðgerðum, svo sem á hestakerrum, snjósleðakerrum og bílakerrum.“
Bílaraf er lítið fjölskyldufyrirtæki í Hafnarfirði þótt lítið sé kannski rangnefni þar sem verkefnin eru stór og mikil. Pétur og Kristín hafa átt fyrirtækið í tvö ár en upphaflega var Bílaraf stofnað árið 1964 af Val Marinóssyni. Aðspurður af hverju Bílaraf rataði í þeirra hendur segir Pétur að þau hafi verið að reka Bifreiðaverkstæði Hafnarfjarðar. „Svo var ég að leita að nýju húsnæði fyrir bifreiðaverkstæðið þegar ég frétti að Bílaraf væri til sölu. Ég ákvað því að kaupa Bílaraf og sameina Bifreiðaverkstæði Hafnarfjarðar undir Bílaraf,“ segir Pétur sem bjóst þó ekki alveg við þessu mikla annríki í ferðavögnum sem og öðru.
„Þetta er skemmtileg vertíðarvinna en auk þess að sinna viðhaldi og viðgerðum erum við umboðsaðilar fyrir miðstöðvar af gerðinni Truma og Alde, ísskápa, eldavélar og fleira frá Dometic ásamt Thetford-ferðasalernum og -efnavörum. Segja má að þetta séu fjögur stærstu og þekktustu merkin í þessum bransa.“
Þegar Pétur er inntur eftir því hvaða nýjungar séu mest spennandi í ferðavagnaheiminum þessa dagana segir hann að það sé áhugavert að fylgjast með þróuninni hjá Truma og Alde. „Truma er 75 ára gamalt þýskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í vörum fyrir ferðavagna. Þetta er mjög þekkt merki, einna helst fyrir miðstöðvarnar en þau eru líka með vatnshitakerfi, gasþrýstikerfi og svo má ekki gleyma „moverum“ fyrir hjólhýsi sem við seljum mjög mikið af.
Alde er með miðstöðvarkerfi fyrir ferðavagna og ofnakerfi svipað og er á heimilum okkar, heitt vatn sem rennur stöðugt. Þetta eru mun flottari kerfi en við eigum að venjast og vissulega aðeins dýrari kerfi. Sem dæmi eru þau með kerfi sem er mun hljóðlátara en almennt er enda kemur hitinn frá ofnum og jafnvel er gólfhiti líka. Hægt er að hafa mismunandi hita í mismunandi rýmum í hjólhýsinu, svona eins og heima hjá okkur þar sem er svalara í svefnherberginu en í stofunni.
Það er líka hægt að hafa útihitaskynjara þannig að ef kólnar úti þá helst sama hitastigið inni,“ segir Pétur og bætir við að það sé í raun hægt að fá allt sem fólk vilji, það sé bara spurning um hvað viðkomandi sé tilbúinn að borga fyrir það því úrvalið sé gríðarlega mikið.
Það er því mikil fjölbreytni í verkefnum hjá Bílaraf og til að mynda flytur fyrirtækið inn alternatora og startara frá AS, Valeo og fleirum. „Fyrir utan almennar bílaviðgerðir og ferðavagnaviðhald þá erum við líka sérfræðingar í rafmagni í farartækjum. Ef það er eitthvað rafmagnsvandamál í bílum þá er yfirleitt vísað til okkar enda með mikla sérfræðiþekkingu í þess háttar vanda,“ segir Pétur og bætir við að nýlega setti Bílaraf nýja heimasíðu í loftið.
„Þar má finna allt mögulegt og sérstaklega alls kyns aukahluti fyrir ferðavagna og fleira. Síðan er enn í vinnslu og við erum stöðugt að bæta við hana vörum. Enda fáum við töluvert af fyrirspurnum af heimasíðunni og svo er vitanlega hægt að panta af síðunni sem sífellt fleiri gera,“ segir Pétur að lokum áður en hann hleypur af stað til að leysa enn eitt verkefnið hjá Bílaraf.