Brynjuís er norðlenska ísbúðin sem flestir Íslendingar hafa heimsótt á ferð um Akureyri en færri vita kannski að íbúar höfuðborgarsvæðisins geta fengið sér ljúffengan Brynjuís að Engihjalla 8 í Kópavogi.
„Brynjuís er ein elsta ísbúð landsins og var lengst af í eigu Fríðar Leósdóttur og Júlíusar Fossberg Arasonar, eða í þrjá áratugi. Brynja flutti í núverandi húsnæði árið 1948 en var áður til húsa hinum megin við götuna. Það voru svo Fríður og Júlíus sem byrjuðu að selja ísinn yfir vetrarmánuðina og þótti það fullmikil bjartsýni hjá þeim að selja ís á veturna. Við erum nú sjöttu eigendur rekstursins,“ segir Karen Ýr Lárusdóttir eigandi Brynjuíss og bætir við að unnusti sinn, Viðar Valgeirsson, sé Akureyringur í húð og hár og því sé reksturinn í höndum norðlenskrar fjölskyldu eins og hefð er fyrir.
„Brynjuís er norðlenska ísbúðin sem flestir Íslendingar hafa heimsótt á ferðalagi sínu um Akureyri en færri vita eflaust að ferðaþyrstir landsmenn sem búa á höfuðborgarsvæðinu en eru fastir í vinnu eða öðru geta heimsótt Brynjuísbúðina að Engihjalla 8 í Kópavogi þar sem ég og fleiri stöndum vaktina,“ segir Karen.
Vinsældir Brynjuíss eru þannig að stundum er talað um Brynju sem eitt af kennimerkjum Akureyrar. „Við breytum ekki því sem virkar í fyrirtækinu og það ríkir mikil hefð hér sem við elskum að framfylgja. Brynjuísinn er sem dæmi gerður eftir uppskrift sem hefur haldist eins frá því um miðbik síðustu aldar,“ segir Karen og bætir við að margir hafi falast eftir uppskriftinni sem verður að sjálfsögðu ekki gefin upp opinberlega. „Brynjuísinn er gerður eftir leynilegri uppskrift en við blöndum ísblönduna sjálf á báðum stöðum. Við erum með einungis fimm hráefni og bætum engum rotvarnarefnum eða fylliefnum í ísinn svo að hann endist betur. Innihaldsefnin eru eins fersk og hrein og völ er á en ætli sannast sagna sé ekki að segja að norðlenska mjólkin setji punktinn yfir i-ið. Líftími blöndunnar eru fimm dagar svo að við þurfum vanalega að skipuleggja okkur mjög vel,“ segir Karen.
Fyrir þá sem ekki þekkja sögu Brynju á Akureyri þá var ísbúðin eitt sinn lítil kjörbúð staðsett í innbæ Akureyrar, en það voru Steinþór Jensen og fjölskylda sem stofnuðu heildverslun sem seinna varð verslun og síðar ísbúð. Brynja verslun var fyrst opnuð árið 1939 við Aðalstræti á Akureyri, sala á Brynjuísnum hófst í versluninni árið 1955. Verslunin var nefnd í höfuðið á Brynjari bróður Steinþórs og hefur nafnið fengið að halda sér allar götur síðan. „Það hefur verið einstök upplifun að viðhalda rekstri fyrirtækis með svo mikla sögu og sál. Svo er mjög ánægjulegt að segja frá því að eftirspurnin eftir Brynjuís hefur aukist jafnt og þétt með árunum. Hér áður var ísinn blandaður í tíu lítra fötur en þróunin undanfarið hefur verið þannig að við blöndum allt að 500-600 lítra af ís á góðum sólarhelgum fyrir norðan.“
Karen útskýrir að það geti verið svo mikil traffík fyrir norðan í Brynjuísinn að þau þurfa að loka á röðina til að hleypa starfsfólki sínu heim.
Hvernig það kom til að Karen og Viðar urðu eigendur fyrirtækisins á sínum tíma er skemmtileg saga að segja frá. „Ég var nýfarin að starfa hjá lífeyrissjóði og hafði verið í alls konar tölvuvinnu frá því ég kom fyrst út á vinnumarkaðinn. Ég var orðin frekar þreytt á að sitja við tölvuna frá átta til fjögur og sagði við Viðar að ég væri til í að gera eitthvað allt annað við líf mitt. Hann fór í fótbolta með vinum sínum og kom svo heim með þær fréttir að það væri verið að selja Brynjuís og við ættum að kaupa reksturinn.
Hann talaði mig inn á að mæta á fund hjá fasteignasala og rúmlega viku seinna vorum við komin með lyklana í hendurnar. Þetta var á þeim tíma sem sumartörnin var að hefjast í Brynju svo við stukkum svo að segja í djúpu laugina,“ segir Karen og bætir við að það sem sé einstakt við fyrirtækið, fyrir utan ísinn, sé allt það dásamlega fólk sem kemur í ísbúðirnar þeirra. „Svo ekki sé talað um allt þetta dásamlega fólk sem stendur vaktina með okkur í ísbúðunum.“
Brynjuísinn stendur alltaf fyrir sínu en að undanförnu hefur veganísinn úr vél slegið í gegn, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. „Veganísinn hentar bæði þeim sem eru vegan og svo fáum við mikið af fólki með mjólkuróþol, en veganísinn fer betur í það en hinn hefðbundni þar sem undirstöðuefnið í honum er kókoshnetumjólkurduft. Svo höfum við tekið á móti mörgum alsælum foreldrum sem geta loksins keypt ís úr vél fyrir börnin sín með meðlæti því við bjóðum upp á aragrúa af sósum og sælgæti sem er veganvænt. Við höfum verið að leika okkur með bragðtegundir á veganísnum og höfum verið með jarðarberja-, saltkaramellu-, vanillukókos- og sítrónuveganís.“
Karen segir að þegar rigni mikið á höfuðborgarsvæðinu, eins og í fyrrasumar, elti fólk greinilega sólina norður. „Það voru mjög margir á ferðinni síðasta sumar, sérstaklega fyrir norðan. Það kom ekki einn rólegur dagur í Brynju á Akureyri frá byrjun júlí fram í miðjan september og verður það að teljast lúxusvandamál.
Jóhann Ingi Einarsson sem blandar ísinn fyrir norðan, tengdasonur Júlla og Fíu sem ráku Brynjuís svo lengi, tekur alltaf ákveðinn hjólahring á morgnana um Akureyri til að áætla hvað hann þurfi að blanda mikið. Þegar tjaldstæðið er fullt veit hann að við þurfum að blanda mjög mikið magn. Ég veit ekki hvort sumarið í fyrra hafi verið metár hjá okkur en eitt er víst, að við vorum mjög ánægð með það. Við erum ótrúlega þakklát fyrir áhuga landsmanna á Brynju og erum stolt af því að geta boðið upp á sama ljúffenga ísinn á höfuðborgarsvæðinu. Ef fólk vill svo ekki kalda ísinn þá erum við einnig með klassíska rjómaísinn úr vél sem og auðvitað veganísinn á báðum stöðum líka.“
Hver er uppáhaldsísinn þinn í Brynju?
„Það er erfitt að velja á milli enda er allt svo gott hérna hjá okkur en ef ég ætti að velja eitthvað þá væri það saltkaramelluísinn í bland við jarðarberjaísinn. Svo er súkkulaðiísinn einnig í miklu uppáhaldi hjá mér og að sjálfsögðu klassíski Brynjuísinn úr vél í brauðformi, það er náttúrulega ekkert sem toppar hann!“