„Von harðfiskverkun ehf. er fyrirtæki með hjartað í Hafnarfirði þar sem við sameinum íslenskt hráefni, gömul handbrögð og nútímalega framleiðslutækni til að búa til einstakan bitafisk,“ segir Jóhannes Egilsson, framkvæmdastjóri Von Iceland.
„Við höfum þróað okkar vöruframboð í gegnum árin og einblínum sérstaklega á að gera harðfisk aðgengilegan fyrir nútímalegt fólk sem vill grípa í eitthvað hollt, próteinríkt og íslenskt, hvort sem það er á ferðinni, í vinnunni eða á æfingu.“
Vörurnar frá Von Iceland fást í öllum verslunarkeðjum landsins undir vörumerkjum Gullfisks, Gæðafisks, Crunchy Fish og Viking Snack. „Auk þess framleiðum við undir vörumerkjum allra verslunarkeðja landsins. Krónu harðfiskur í bitum hefur m.a. verið mjög vinsæll. Nettó Bitafiskurinn einnig og svo er einn vinsælasti harðfiskur landsins Gullfiskur Ýsubiti sem fæst m.a. í Bónus, Hagkaup og Fjarðarkaupum. Við erum á sama tíma lítið fjölskyldufyrirtæki með mikinn metnað og mikla ástríðu fyrir að bjóða upp á próteinríkustu vöru sem til er,“ segir hann.
Hver er framtíðarsýn fyrirtækisins?
„Framtíðarsýn okkar snýst ekki bara um að selja meira heldur að breyta því hvernig fólk hugsar um millimál. Við viljum að harðfiskur verði raunverulegur valkostur í heimi sem er fullur af sykruðu og unnu snakki.
Okkar draumur er að bitafiskurinn fylgi Íslendingum hvert fótmál, hvort sem það er fyrir og eftir æfingu, í gönguferðina, skíðaferðina eða hvert sem er og fólk um allan heim sjái hann fyrir það sem hann er í raun og veru, eitt hollasta snarl sem til er,“ segir Jóhannes.
Hjá Von starfa 17 manns. „Margir hafa unnið með okkur í 15 til 20 ár. Innanhúss hjá okkur er samtals 150 ára reynsla að búa til harðfisk. Svo segja má að fyrirtækið sé lítið að utan en stórt að innan með stórt net af samstarfsaðilum og viðskiptavinum bæði innanlands og utan.“
Hvort er innanlands- eða erlendi markaðurinn stærri?
„Við höfum lengi haft sterka stöðu hér heima en erlendi markaðurinn er sífellt að stækka og er um 45% af tekjum okkar. Það er líka magnað að sjá hvað Íslendingar sem búa erlendis eru stoltir af að kynna harðfisk fyrir vinum sínum, hann vekur alltaf athygli,“ segir hann.
Neysla á harðfisk hefur aukist á undanförnum árum að sögn Jóhannesar. „Fólk er farið að hugsa mun meira um heilsu og lífstíl og hvað það setur ofan í sig. Það skoðar innihaldslýsingarnar vel og því styttri sem hún er því betri er varan. Harðfiskur passar fullkomlega inn í þá þróun. Einnig tökum við eftir því að ungt fólk er farið að ná sér í þessa vöru meira og meira því yngri kynslóðin í dag er mun meðvitaðri um holla og góða næringu miðað við okkur sem eldri erum.“
Hvaða vara er söluhæst hjá ykkur?
„Það er án efa Bitafiskurinn okkar, og þá sérstaklega Ýsubitinn. Bitafiskurinn okkar er einstakur en við notum sérhannaða kæliþurrkun til að ná fram einstakri áferð þannig að hann er stökkur og skilur ekki eftir sig mylsnu. Hann hefur náð miklum vinsældum, bæði meðal barna og fullorðinna. Það skiptir líka máli að hægt sé að grípa hann með sér í bílinn, í vinnuna eða í æfingatöskuna. Þessi vara er einföld en hún stendur fyrir svo margt: Íslenskt hráefni, hollustu, og gamlan menningararf sem við pökkum inn í nútímalegt form,“ segir Jóhannes.
Sjálfur borðar hann harðfiskinn sinn beint úr pokanum. „Sérstaklega eftir æfingu eða í bílferð. Harðfiskur með smjöri er klassískt en ég nota harðfiskinn oft í staðinn fyrir kexið og set ofan á hann túnfisksalat, ost, rúsínur eða döðlur. Það eru til margar leiðir og bitafiskurinn býr yfir þeim töfrum að vera bæði „gamaldags og nýr“ á sama tíma.“
Von Iceland hefur að undanförnu þróað nýjan harðfisk sem ber heitið EM Biti. „Við erum nýbúin að setja EM Bitafiskinn á markað í samstarfi við KSÍ. Varan er sérstaklega hönnuð til að fagna Evrópumótinu í fótbolta og gefa stelpunum okkar og stuðningsfólki Íslands hollan, próteinríkan snarlkost í anda þess sem við Íslendingar stöndum fyrir: Styrk, þol og hreina orku,“ segir Jóhannes og bætir við að EM Bitafiskurinn sé ekki einvörðungu snakk. „Heldur val um að fá sér betri næringu, án sykurs og allra óþarfa aukaefna, sem styður við þig sama hvar þú ert, hvort heldur sem er á leik, í vinnunni eða í sófanum að horfa á landsliðið.“
„Við viljum með EM Bitanum sýna að harðfiskur getur verið spennandi hluti af menningu, gleði og samstöðu – og um leið styðja við bakið á stelpunum okkar. Áfram Ísland!" segir Jóhannes Egilsson framkvæmdastjóri Von Iceland að lokum.