Á Akranesi stendur yfir kraftmikil uppbygging á nýju atvinnusvæði, Flóahverfinu, þar sem skýrar áherslur á skipulag, samkeppnishæft lóðaverð og umhverfisvitund skapa einstakt tækifæri fyrir fyrirtæki. Auk þess undirbýr bærinn nú úthlutun á nýjum íbúðarlóðum, meðal annars á hinum svokallaða Sementsreit þar sem íbúar munu hafa útsýni beint yfir Faxaflóann. Við settumst niður með Haraldi Benediktssyni bæjarstjóra Akraness og ræddum framtíðarsýn bæjarins.
Hvað einkennir Flóahverfið og hvers vegna ættu fyrirtæki að horfa til Akraness sem framtíðarstaðar fyrir starfsemi sína?
„Flóahverfið er mjög vel staðsett atvinnusvæði sem hefur þegar tekið á móti fyrstu fyrirtækjunum. Gatnagerð er komin langt á veg og við höfum lagt mikla áherslu á skipulag og fagleg vinnubrögð. Það sem gerir hverfið sérstaklega aðlaðandi er hvernig það styður við fjölbreyttan atvinnurekstur – bæði hefðbundinn iðnað, þjónustu og nýsköpun auk þess sem við erum með sérstakt svæði fyrir matvælafyrirtæki.
Við leggjum okkur fram um að skapa raunveruleg tækifæri fyrir fyrirtæki. Lóðaverð í Flóahverfinu er mjög hagstætt, í raun mjög samkeppnishæft miðað við nágrannasveitarfélög. Þess utan erum við sveigjanleg í samningum. Við viljum vinna með fyrirtækjum sem sjá tækifæri á Akranesi, hvort sem það er ný starfsemi, flutningur eða stækkun á núverandi rekstri.“
Skipulagssjónarmið skipta greinilega miklu máli – hvað er sérstakt við skipulagið í Flóahverfinu?
„Við erum að byggja upp grænan iðngarð þar sem fyrirtæki geta starfað í nálægð og nýtt sér klasaáhrif. Skipulagsskilmálarnir taka mið af þessari hugsun sem stuðlar að samstarfi, sjálfbærni og faglegum umhverfisáherslum. Við gerum einnig skýrar kröfur um umgengni og frágang lóða. Við viljum snyrtilegt og öruggt atvinnuumhverfi.“
En íbúðarlóðir, liggja þær á lausu á Akranesi?
„Já, við eigum til lausar lóðir fyrir þá sem vilja byggja hér íbúðarhúsnæði. Bæði fyrir einbýli, fjölbýlishús og allt þar á milli. Í dag verða settar hér í úthlutun 19 nýjar lóðir fyrir 139 íbúðir á hinum svokallaða Sementsreit, þar sem Sementsverksmiðja ríkisins stóð áður, en gert er ráð fyrir allt að 400 íbúðum á reitnum í heild. Uppbygging á reitnum er þegar hafin og þegar er búið að úthluta þar rúmlega 100 íbúðum.
Íbúar á Sementsreitnum munu njóta óhindraðs útsýnis yfir Faxaflóann og öll hús á svæðinu verða á tveimur til fjórum hæðum. Segja má að þetta svæði sé í hjarta bæjarins með íþróttamannvirkin, skóla, Langasand og Guðlaugu í næsta nágrenni, svo fátt eitt sé nefnt. Þar er því kjörið tækifæri fyrir bæði verktaka og einstaklinga sem vilja njóta þeirra lífsgæða að hafa sjávarútsýni. Á reitnum er einnig gert ráð fyrir atvinnustarfsemi.”
Akranes er vaxandi samfélag – hvaða kostir fylgja því að starfa þar?
„Akranes hefur vaxið hratt undanfarin ár og nú erum við 8.550 íbúar. Hér er öflug menntun frá leikskóla upp í framhaldsskóla, sjúkrahús og sterkt samfélag. Við erum í nálægð við höfuðborgarsvæðið og atvinnusvæðið á Grundartanga. Á Akranesi er stutt í náttúruna og mjög öflugt íþróttastarf. Sem dæmi verður glænýtt íþróttahús tekið í notkun á allra næstu vikum auk þess sem eldra íþróttahús okkar hefur fengið verulega mikla endurnýjun.
Þegar Sundabraut verður komin styttist ferðatími til Reykjavíkur verulega. Þetta skiptir máli – bæði fyrir fyrirtæki og starfsfólk þeirra. Hér eru greiðar samgöngur til allra átta.“
Hver er framtíðarsýnin fyrir atvinnulíf á Akranesi og Flóahverfið til lengri tíma litið?
„Við viljum sjá fjölbreytt og öflugt atvinnulíf sem byggir á sjálfbærni, nýsköpun og samstarfi. Flóahverfið er mikilvægur þáttur í þeirri sýn - það er grunnur sem við byggjum ofan á. Með aðlaðandi umhverfi, traustu skipulagi og skýrum stuðningi við fyrirtæki sköpum við raunverulegt val fyrir þá sem horfa til vaxtar og stöðugleika. Það eru tækifæri á Akranesi – og þau eru tilbúin nú þegar.“
Getur áhugafólk um lóðir eða samstarf haft samband?
„Já, allar helstu upplýsingar um lausar lóðir er að finna á vefnum 300akranes.is en þar er jafnframt hægt að sækja um lóðir. Við hvetjum öll fyrirtæki sem eru að horfa til uppbyggingar eða breytinga á starfsemi sinni að skoða Flóahverfið. Akraneskaupstaður er tilbúinn að ræða málin, veita upplýsingar og vinna hratt og markvisst með áhugasömum aðilum. Flóahverfið er ekki síst góður kostur fyrir fyrirtæki sem þurfa að skapa sér gott athafnarými og endurnýja húsakost sinn.
Við erum sveigjanleg við að stækka og sameina lóðir þannig að fyrirtæki geti horft til framtíðar með rekstur sinn. Eins hvetjum við áhugasama til að skoða þær íbúðarlóðir sem í boði eru, bæði á Sementsreitnum og í hinu svokallaða Skógarhverfi, sannkölluðu fjölskylduhverfi með nýjum og glæsilegum leikskóla og í næsta nágrenni við bæði golfvöllinn og Garðalund, eitt helsta útivistarsvæði bæjarins.”