Þegar Sigrún Sól Vigfúsdóttir gengur inn í framleiðslusal Bakarameistarans tekur á móti henni ilmur sem margir tengja við æskuheimili, jól og hátíðlega daga. Hún er þriðja kynslóð bakara í einni þekktustu fjölskyldu íslenskra bakara og hefur sjálf tekið við keflinu – í „hjarta bakarísins“, eins og hún orðar það.
„Ég útskrifaðist sem bakari og konditor í Danmörku,“ segir hún brosandi. „Ég var þar í fimm ár, og þetta var dásamlegur tími. Danmörk er náttúrulega land brauðsins – þar lærir maður að bera virðingu fyrir hráefninu, handverkinu og hefðinni.“
Nú er hún komin heim og sinnir leiðtogahlutverki hjá Bakarameistaranum sem er í eigu afa hennar og ömmu, Sigþórs Sigurjónssonar og Sigrúnar Stefánsdóttur. „Þau eru enn virkilega áhugasöm, og afi kemur við daglega og fylgist vel með,“ segir hún og brosir. „Hann vill vera viss um að allt sé eins og það á að vera.“
Bakarameistarinn hefur frá stofnun vaxið úr einni verslun í Suðurveri í níu verslanir en finna má Bakarameistarann í Mjódd, Glæsibæ, Húsgagnahöllinni, Smáratorgi, Austurveri, Flatahrauni í Hafnarfirði, Spönginni og Holtagörðum. Enn í dag er fjölskyldan við stjórnvölinn og heldur fast í grunngildin sem fyrirtækið var byggt á.
„Við leggjum áherslu á gæði og gott úrval og höldum í klassískar hefðir,“ segir Sigrún. „Það á bæði við um hráefni, framleiðslu og þjónustu. Allt sem fer út úr húsi þarf að vera 100% – fallegt, ferskt og bragðgott.“
Í framleiðslunni gætir hún þess að hver kaka, hver brauðhleifur og hver tertusneið fái þá umhyggju sem einkennir handverk bakarans. „Við fylgjumst náið með gæðum hráefnisins og pössum að varan komi falleg og heil í búðirnar. Við viljum að viðskiptavinurinn fari glaður út frá okkur og vilji koma aftur.“
Október er sérstakur mánuður hjá Bakarameistaranum því þá standa yfir Brauðdagar – þar sem öll brauð eru á sérstökum afslætti til 31. október, á aðeins 499 krónur. „Við byrjuðum Brauðdagana fyrir nokkrum dögum og þeir standa út mánuðinn,“ segir hún. „Þetta er hátíð brauðsins. Við viljum hvetja fólk til að prófa nýtt brauð, finna sitt uppáhaldsbrauð og njóta.“
Í tilefni daganna verður einnig klassíska Íslandsbrauðið aftur á boðstólum sem er einfalt, mjúkt og nostalgískt brauð. „Það var eitt vinsælasta brauðið okkar fyrir nokkrum árum. Við ákváðum að endurvekja það og viðskiptavinirnir hafa tekið því ótrúlega vel.“
Aðspurð um fleiri góð brauð þarf hún ekki að hugsa sig lengi um. „Ég er mjög hrifin af Brauði ársins 2025 – súrdeigsbrauði með cheddarosti og jalapeño. Það er með fallegri skorpu, svolítið blautt að innan og með góðu beiskjublautu jafnvægi. Þetta er brauð með karakter,“ segir Sigrún Sól.
Þeir sem hafa heimsótt verslanir Bakarameistarans vita að það er ekki aðeins brauðið sem dregur fólk að. Tertur, smákökur og frönsku súkkulaðikökurnar eru orðnar hluti af menningarlífi margra íslenskra heimila.
„Við höfum alltaf lagt áherslu á klassískar uppskriftir sem virka,“ segir Sigrún. „Franska súkkulaðikakan okkar er vinsæl sem dæmi - hún er djúp, seig og fullkomin með vanilluís.“
Í ár hefur fyrirtækið einnig endurvakið nokkrar ástsælar kökur, meðal annars bananarúllutertuna sem margir muna eftir frá fyrri árum. „Hún er komin aftur – aðeins í nýjum búningi, með meiri glans og þurrkuðum bönunum á toppnum, en bragðið mun minna á gömlu góðu rúlluna sem svo margir voru hrifnir af.“
Bakarameistarinn hefur alltaf leitast við að styðja verkefni í þágu samfélagsins, og eitt af því er þátttaka í Bleika deginum. Á Bleika deginum þann 22. október sem dæmi, verður fyrirtækið skreytt bleikum kökum, snúðum og tertum og 15% af sölu rennur til Krabbameinsfélags Íslands.
„Okkur finnst gefandi að taka þátt í Bleikum október,“ segir Sigrún. „Við höfum styrkt átakið í nokkur ár, og það er alltaf jafn fallegt að sjá allt verða bleikt í afgreiðsludisknum; kökurnar og snúðana. Þetta er skemmtileg leið til að styðja gott málefni með viðskiptavinum okkar,“ segir Sigrún Sól.
Jólin eru einn annasamasti tími ársins í bakaríinu. „Við erum nú þegar byrjuð að undirbúa jólin,“ segir hún. „Jólavörurnar okkar eru að tínast inn, súkkulaðibitakökurnar og enska jólakakan eru nú þegar komnar.“
Á bak við hverja jólavöru liggur saga. „Stollenbrauðið okkar er gamaldags þýsk uppskrift, svokallað meistarastollen, sem við byrjuðum að baka árið 1980 og eru margir sem vilja ekkert annað en þetta stollen. Við bökum það alveg á sama hátt og afi og amma gerðu á sínum tíma,“ segir Sigrún Sól stolt.
Jólabaksturinn er einnig vinsæll meðal fyrirtækja sem vilja gleðja starfsfólk sitt eða viðskiptavini með bragðgóðum jólagjöfum. „Við getum pakkað jólavörunni sérstaklega fyrir hvert og eitt fyrirtæki í þeirra útliti ef óskað er eftir því. Þetta er vinsæl gjöf og auðveld leið til að gleðja fólk á aðventunni.“
Framundan eru spennandi og annasamir tímar. Eftir jólin taka við áramótaveitingar með kransakökuskreytingum og snittum. „Við erum í stöðugri vöruþróun,“ segir Sigrún Sól. „Við hlustum á viðskiptavininn og reynum að koma til móts við óskir. Sumir vilja hollari brauð, aðrir lúxustertur og við getum boðið bæði. Svo er veisluþjónustan okkar alltaf stór hluti af okkar þjónustu, og mörg fyrirtæki og einstaklingar sem við þjónustum daglega með allskyns veislur, fundarhöld eða annað.“
Að lokum segist hún vonast til að fólk haldi áfram að sækja í íslensk bakarí þar sem handverkið blómstrar og fólk hittir nágranna og kunningja. „Íslensk bakarí eru á heimsmælikvarða og metnaðurinn í faginu hefur sjaldan verið meiri. Það er eitthvað við að ganga inn í bakarí, finna ilm af nýbökuðu brauði og sjá fólk njóta. Það er þessi tenging við daglegt líf, við hefðina og gleðina – það er það sem við viljum halda á lofti.“