Í hjarta miðbæjar Reykjavíkur, í Bankastræti 9, stendur ein elsta starfandi skartgripaverslun landsins. GÞ Skartgripir og úr og Gullbúðin hafa verið hornsteinn í íslenskri fagmennsku og fegurð í meira en öld. „Fyrirtækið okkar á sér yfir hundrað ára sögu,“ segir Svandís Björk Ólafsdóttir, gullsmiður og fulltrúi annarrar kynslóðar í rekstrinum.
„Foreldrar mínir, Ólafur G. Jósefsson og Anna María Markúsdóttir eiga fyrirtækið í dag. Bróðir minn, Kristinn Þór Ólafsson, starfar einnig sem gullsmiður með mér. Við höldum þannig áfram þeirri hefð sem hefur fylgt fjölskyldunni í áratugi.“
Fyrirtækið var stofnað árið 1923 af gullsmiðnum Guðmundi Þorsteinssyni og eiginkonu hans Ólafíu G. E. Jónsdóttur. „Þau voru barnlaus en nánir vinir fjölskyldu föður míns. Þannig varð þessi arfleifð hluti af okkar fjölskyldusögu,“ segir Svandís.
Verslunin var á sama stað í yfir níutíu ár, í Bankastræti 12, áður en hún flutti yfir í Bankastræti 9. „Það er merkilegt að hugsa til þess að fyrirtækið hefur staðið af sér allar sveiflur – stríð, kreppur og heimsbreytingar – og alltaf haldið áfram með sama metnaði.“
GÞ Skartgripir og úr og Gullbúðin bjóða upp á breitt úrval skartgripa, úra og gjafavara. „Við leggjum áherslu á að vera alhliða úra- og skartgripaverslun með vörur fyrir alla. Hvort sem fólk er að leita að einföldu hálsmeni, klassískum gullhring eða vönduðu armbandsúri þá finnur það eitthvað við sitt hæfi hjá okkur.“
Fjölskyldan leggur sérstaka áherslu á persónulega þjónustu og faglegt viðmót. „Margir viðskiptavinir okkar hafa verslað hjá okkur í áratugi, jafnvel kynslóð fram af kynslóð. Það er það sem gerir reksturinn svo lifandi.“
Eitt af því sem fyrirtækið hefur fylgst með áratugum saman eru breyttar hefðir í tengslum við trúlofanir og giftingar. „Fyrir nokkrum áratugum var algengt að pör keyptu einfaldlega giftingarhringapar og notuðu það sem tákn trúlofunar. Í dag er hefðin önnur. Nú kemur trúlofunarhringurinn fyrst, oft með demanti eða náttúrusteini, og giftingarhringarnir fylgja síðar,“ segir Svandís.
Á undanförnum árum hafa svokallaðir loforðshringar (e. promise rings) einnig orðið vinsælir „Þetta eru hringar sem tákna skuldbindingu í sambandi án þess að um formlega trúlofun sé að ræða. Yngra fólk kýs þetta í auknum mæli. Þetta er falleg hefð sem snýst um virðingu og væntumþykju.“
Svandís segir að ákveðin þróun hafi einnig verið þegar kemur að kaupum á demöntum á undanförnum áratugum. „Við bjóðum bæði upp á ekta demanta og demanta sem eru framleiddir á rannsóknarstofum (e. lab-grown diamonds). Þeir síðarnefndu eru efnafræðilega nákvæmlega eins en aðgengilegri í verði,“ segir hún.
Að hennar sögn velur fólk stein eftir bæði tilfinningum og fjárhagsstöðu. „Sumir kjósa náttúrustein fyrir tilfinningalegt gildi, aðrir velja framleidda demanta fyrir stærðina eða verðmuninn. Þetta er stórkostleg þróun því hún gerir fagurfræði og gæði aðgengileg fyrir fleiri.“
Svandís segir að val á stærð og lögun steina sé mjög einstaklingsbundið. „Þegar kemur að trúlofunarhringum, sem dæmi, þá sjáum við bæði hefðbundna hringi með einum demanti og aðra með fleiri smærri steinum. Lögun steinanna er mismunandi og má segja að allt sé vinsælt þessa dagana.“
Gullbúðin hefur haldið í hefðina en fylgt jafnframt nýjustu straumum í hönnun og efnisvali. „Áður fyrr voru breiðir gylltir hringar allsráðandi þegar kom að giftingarhringum en nú sjáum við meiri fjölbreytni,“ segir Svandís. „Fólk velur jafnvel líka fíngerðari hönnun, tvílita blöndur úr hvítagulli og gulu gulli. Þetta er orðið persónulegra – minna um reglur og meira um tjáningu,“ segir Svandís og bætir við að gömlu og góðu klassísku giftingarhringarnir séu þó enn vinsælastir.
Hún bendir á að gullverð hafi hækkað mikið undanfarin ár sem hafi áhrif á val viðskiptavina. „Að kaupa skartgripi úr gulli í dag er fjárfesting sem endist alla ævi. Ég segi við viðskiptavini að velja það sem í hjartanu býr – hring sem passar lífstílnum en ekki tímabundin tískufyrirbæri sem hentar síður.“
Þrátt fyrir alþjóðleg merki og fjölbreytt úrval er íslenska handverkið áberandi í fyrirtækinu. „Við tökum að okkur viðgerðir og sérpantanir. Eftir langa starfsemi fyrirtækisins búum við að góðum samböndum úti í heimi ef óskað er eftir sérstökum stærðum af eðalsteinum og demöntum - þá er það lítið mál fyrir okkur. Margir koma með arfgenga gripi sem við endurlífgum – gamall skartgripur getur orðið eins og nýr eftir pússun og jafnvel rhodium-húðun. Einnig er hægt að koma með gamla gullskartgripi sem fólki líkar ekki lengur og setja upp í nýja,“ segir Svandís.
„Það er eitthvað fallegt við að sjá hvernig gullið heldur gæðum sínum og fær nýtt líf með nýrri kynslóð.“
Auk skartgripa hefur GÞ Skartgripir og úr lengi verið leiðandi í sölu úra. „Við flytjum meðal annars inn svissneska merkið Rodania sem hefur fengið frábærar viðtökur,“ segir Svandís.
„Við erum einnig með Tissot, Raymond Weil, Orient, Versace, Daniel Wellington og fleiri merki. Við leggjum áherslu á fjölbreytt verðbil – allt frá fyrsta úrinu upp í hágæða úr.“
Hún segir að hefðbundin armbandsúr séu aftur að sækja í sig veðrið eftir að hafa vikið fyrir snjalltækjum. „Margir vilja nú aftur nota fallegt úr sem hluta af heildarútlitinu og eru áhugasamir að eiga fleiri en eitt úr. Það er svo gaman að sjá unga menn koma og skoða úrin með miklum áhuga. Það er ákveðinn stíll og virðing sem fylgir klassísku úrverki.“
Verslanirnar bjóða einnig upp á breitt úrval gjafavara, barnaskartgripa og skírnarvörur. „Við erum með allt frá skartgripaskrínum til vasapela. Við viljum að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi – hvort sem það er gjöf fyrir fermingu, brúðkaup eða einfaldlega til að gleðja sjálfan sig.“
Hún segir að ungt fólk sé orðið ófeimnara við að kaupa sér skartgripi. „Það er miklu algengara nú að fólk kaupi grip fyrir sjálft sig, ekki aðeins sem gjöf. Skartgripur er ekki lengur bundinn við tilefni heldur orðinn hluti af daglegu lífi.“
Þegar líður að jólum breytist stemningin í miðborginni og í verslunum fyrirtækisins. „Þá kemur alltaf meiri glamúr í skartið. Fólk velur glitrandi lokka, armbönd og hálsmen með steinum því það má glitra aðeins meira í desember.“
Hún segir að margir nýti afsláttardaga eins og Singles Day og Black Friday til að hefja jólagjafainnkaup. „Það er skynsamlegt að byrja snemma og forðast jólastressið. Það er svo falleg stemning í miðbænum í kringum jólin – jólatrén, ljósin og kaffihúsin skapa andrúmsloft sem fólk nýtur. Svo er vert að minna á heimasíðuna okkar skartgripirogur.is.“
Svandís segir að fólk sé meðvitaðra en áður um gæði og endingu. „Þegar þú kaupir gull eða silfur ertu í raun að fjárfesta í efni sem heldur gæðum sínum og virði í áratugi. Þú getur komið við hjá okkur og látið lífga upp á erfðagripi - þannig færist sagan áfram.“
Hún bætir við að skartgripir séu alltaf örugg gjöf. „Flestar konur, og sífellt fleiri karlmenn, kunna að meta skartgrip eða úr. Það eru gjafir sem lifa – og minna á viðkomandi í hvert skipti sem þær eru bornar.“
Að lokum segir Svandís að það sem haldi fyrirtækinu lifandi eftir öll þessi ár sé ekki aðeins gullið eða steinarnir – heldur fólkið. „Við höfum alltaf lagt metnað í að þjónusta viðskiptavini af virðingu og fagmennsku,“ segir Svandís Björk Ólafsdóttir gullsmiður að lokum.