Eignaumsjón er umsvifamesta fyrirtæki landsins í þjónustu við rekstur húsfélaga og atvinnuhúsnæðis. Fyrirtækið var stofnað árið 2000 og þjónustar í dag um tuttugu og átta þúsund eignir og þær verða hátt í þrjátíu og fjögur þúsund talsins frá 1. nóvember þegar samkomulag um kaup Eignaumsjónar á Rekstrarumsjón tekur gildi.
Mikill vöxtur hefur verið í starfsemi Eignaumsjónar sem endurspeglar þróttmikið starf sem byggir á áratuga þekkingu og reynslu starfsfólks.
„Það þarf að huga að stofnun húsfélags miklu fyrr og í raun alveg frá upphafi,“ segir Páll Þór Ármann hjá Eignaumsjón, fyrirtæki sem sérhæfir sig í rekstri húsfélaga og býður upp á umfangsmikla og góða þjónustu fyrir húsfélög.
„Það er mikið byggt af stórum fjöleignarhúsum og í samvinnu við verktakana er húsfélagið stofnað snemma þannig að allt sé tilbúið þegar húsið fer í sölu. Auk þess er nauðsynlegt að kaupa tryggingar, ræstingar og aðra grunnþjónustu alveg frá upphafi. Það hefur aukist mjög að ný hús nýti sér svona þjónustu frá upphafi,” segir Páll Þór.
„Það hefur náttúrulega orðið mikil þjóðfélagsbreyting síðustu áratugi. Áður fyrr sinntu íbúar ýmsu við húsið og dyttuðu að en í dag er samfélagið þannig að fólk er uppteknara við að sinna sínum málum og sínu félagslífi. Svo eru þetta orðnar svo stórar rekstrareiningar í dag, oftast tugir og jafnvel á annað hundrað íbúðir, sem fáir eru tilbúnir að halda utan um á eldhúsborðinu heima hjá sér. Það einfaldar helling að fá fagaðila til að sjá um húsfélagið.“
Eins talar Páll Þór um að það sé líka kostur að hafa fagaðila við rekstur húsfélaga, meðal annars þegar það koma upp ágreiningsmál eða einhver erfið atriði eða mál sem þarf að taka á. „Þá er nauðsynlegt að fagaðilar stýri málum í réttan farveg út frá lögum og reglugerðum því það gilda vitanlega ákveðin lög um húsfélög. Best er að leysa þannig mál á fundum og með úrlausnum sem eru í samræmi við lög um fjöleignarhús og fá til þess faglegan stuðning. Mörg fjölbýlishús eru líka mjög stór, jafnvel með marga stigaganga og matshluta á sömu lóðinni í deildaskiptu fyrirkomulagi með verslunar- og þjónusturýmum á jarðhæð. Þá er nauðsynlegt að byggja upp eitt samfellt samfélag innan þess húsfélags svo allir séu samstíga og þetta samfélag virki fyrir alla,“ segir Páll Þór með áherslu.
Mikið af eldri fjölbýlishúsum þurfa að fara í gegnum stór viðhaldsverkefni sem er gjarnan gert með löngum aðdraganda og segir Páll Þór að: „Við getum aðstoðað húsfélög við slík verkefni og ákvarðanatöku og við að setja verkið í ferli. Þegar ljóst er hvað þarf að gera getum við vísað húsfélaginu á fagaðila sem metur umfang verkefnisins svo meðal annars sé hægt að bjóða út verkið. Þá er það fagaðili sem heldur á því verki og við veitum ráðgjöf um hvernig best er að vinna það og hvernig fjármagna skuli framkvæmdirnar. Vitanlega er nauðsynlegt að húsfélagið geti staðið straum af kostnaði sem fylgir þeirri ákvörðun sem er tekin.“
Aðspurður hvað felist nákvæmlega í þjónustu Eignaumsjónar fyrir húsfélög segir Páll Þór að boðið sé upp á þrjár þjónustuleiðir. „Í þjónustuleið 1 sjáum við um allt sem snýr að fjármálum húsfélagsins, hvort sem það er að innheimta húsgjöld, skipta kostnaði, greiða reikninga eða sjá um bókhaldið og í raun allt þar á milli. Það er ákveðið öryggi því þá er allt sem tengist fjármálunum í farvegi óháð því hverjir eru í stjórn húsfélagsins á hverjum tíma.
Það sem bætist svo við þessa þjónustu þegar þjónustuleið 2 er valin er allt sem tengist aðalfundi húsfélagsins. Við höldum aðalfund einu sinni á ári, stýrum honum og ritum fundargerð með faglegum hætti. Allar ákvarðanir sem þarf að taka eru settar inn í fundarboðið sem og vitanlega niðurstöður þeirra inn í fundargerðina.
Í þjónustuleið 3 útvegum við húsfélögunum þá þjónustu sem óskað er eftir. Við köllum til þá þjónustuaðila sem þarf, svo sem í ræstingar, húseigendatryggingar, lóðahirðu, gluggaþvott og svona mætti lengi telja. Við erum með þjónustuaðila, fagaðila á skrá sem hægt er að kalla til í ýmis minniháttar viðvik,“ segir Páll Þór og bætir við að þriðja þjónustuleiðin sé langvinsælust. „Það er vinsæll heildarpakki sem flestir virðast sækja í, kannski ekki síst vegna þess að hlutfallslega munar ekki miklu á verði.“
Páll Þór talar líka um þjónustu sem heitir Húsumsjón en það er þjónusta sem Eignaumsjón hefur boðið upp á í nokkur ár og hefur verið mjög vinsæl. „Þá bjóðum við upp á reglulegar heimsóknir, kannski vikulega eða einu sinni í mánuði, þar sem eftirlitsmenn á okkar vegum fara reglulega yfir sameignina. Athugað er hvort það sé drasl í sameigninni, hvort þurfi að laga hurðapumpur eða hvort það sé annað smávægilegt viðhald og hvort öll ljós, slökkvitæki og þess háttar séu í lagi.
Húsumsjónarmenn okkar fylgjast líka með hvort sameignin sé snyrtileg og í lagi og hafa samband við þjónustuaðila ef eitthvað er í ólagi, til dæmis ef þrifum er ábótavant og þess háttar. Þeir halda í raun utan um sameignina af umhyggju. Það eru mörg ný og sérstaklega stærri hús sem hafa nýtt sér Húsumsjón hjá okkur frá upphafi því þá er vel haldið utan um sameignina frá upphafi. Það þarf lítið til að sameign drabbist fljótt niður, sérstaklega í stærri fjölbýlishúsum þar sem eru margir eigendur en á þennan hátt er komið í veg fyrir það.“
„Við höfum í gegnum árin sífellt verið að bæta okkar verkferla og þróa tæknilegar lausnir til að mæta þörfum viðskiptavina okkar. Þar höfum við lagt mikla áherslu á að miðla upplýsingum til félagsmanna og stjórnarfólks í gegnum Húsbókina. Hún er aðgengileg öllum eigendum og þar geta þeir ávallt leitað upplýsinga um húsfélagið sitt auk þess sem stjórnarfólk hefur þar aðgang að fjárhagsupplýsingum húsfélagsins. Mikil ánægja er með Húsbókina meðal fasteignaeigenda í húsfélögum hjá okkur,“ segir Páll Þór.
„Það er mikilvægt fyrir þjónustufyrirtæki eins og Eignaumsjón að fá endurgjöf frá viðskiptavinum til að geta bætt þjónustu okkar og því höfum við framkvæmt ýmsar þjónustukannanir meðal okkar viðskiptavina. Það er gaman að segja frá því að niðurstöður þeirra hafa verið mjög jákvæðar og hvetja okkur til enn frekari dáða.“