Einstök þægindi að hafa rafmagn í gluggatjöldum

Verslunin Z-brautir og gluggatjöld var stofnuð árið 1964 og hefur …
Verslunin Z-brautir og gluggatjöld var stofnuð árið 1964 og hefur verið í eigu sömu fjölskyldu síðan þá. Guðrún Helga Theodórsdóttir byrjaði að vinna í fjölskyldufyrirtækinu þegar hún var ung og viðurkennir hlæjandi að vissulega þekki hún flest sem viðkemur gluggatjöldum og brautum. Ljósmynd/Aron Hugi

Það er varla það mannsbarn á Íslandi sem þekkir ekki hina gamalkunnu verslun Z-brautir og gluggatjöld enda var fyrirtækið stofnað árið 1964 og er því orðið rúmlega 60 ára gamalt. Guðrún Helga Theodórsdóttir hefur því verið að skottast um fyrirtækið síðan hún var lítil en foreldrar hennar stofnuðu Z-brautir og gluggatjöld. Hún viðurkennir hlæjandi að vissulega þekki hún flest sem viðkemur gluggatjöldum, brautum og öllu því tengdu.

„Mitt fyrsta hlutverk var að tína svona hjól í poka og hefta fyrir. Mér fannst það mjög skemmtilegt. Foreldrar mínir reyndu að láta mig vinna annars staðar og ég prófaði að vinna í fiski og í Landsbankanum. En ég kom alltaf til baka, mér fannst þetta svo skemmtilegt. Það er líka alltaf nóg um að vera því við sérhæfum okkur í framleiðslu á hágæða efnum og framleiðum nær allar okkar vörur hér í Faxafeni 14. Við bjóðum upp á mjög breitt úrval af efnum og gardínulausnum svo sem rúllugluggatjöld, strimlagardínur og margt fleira. Þá bjóðum við upp á sérsniðin gluggatjöld eftir máli sem og að koma heim og hjálpa fólki hvort sem er að mæla, við val á efnum eða gardínulausnum sem og uppsetningu á gardínum.“

Verslunin Z-brautir og gluggatjöld býður upp á mjög breitt úrval …
Verslunin Z-brautir og gluggatjöld býður upp á mjög breitt úrval af efnum og gardínulausnum svo sem rúllugluggatjöld, strimlagardínur og margt fleira. þar má líka finna fallega húsmuni og gjafavöru úr versluninni Laura Ashley. Ljósmynd/Aron Hugi

Fólk kann að meta góða þjónustu

Guðrún talar um að það hafi mikið breyst á síðustu 20 árum í gluggatjöldum, hvað þá á síðustu 60 árum. „Þá var kannski bara ein af hverjum tíu konum sem lét sauma gluggatjöld fyrir sig eða setja upp. Núna er enginn sem kemur og lætur sauma gluggatjöld fyrir sig nema að vera með ömmu sína með sér,“ segir Guðrún og hlær.

„Það er enginn sem saumar gluggatjöld sjálfur í dag nema kannski helst þeir sem hafa farið í nám í klæðskerann eða eru mjög duglegir að sauma sjálfir. Þjónustan hjá okkur er því alltaf að verða meiri og meiri. Við fórum úr því að vera verslun sem seldi efni í metravís auk brauta í að vera þjónustufyrirtæki með gluggatjöld, brautir og margt fleira. Við höfum reyndar alla tíð farið heim til fólks og mælt fyrir gluggatjöldum, eins og flestar verslanir eru farnar að gera í dag. Pabbi sá alltaf alveg um það. Hann var rosalega hönnuður í sér, hafði gott auga fyrir hlutum og var gjarnan að græja eitthvað fyrir fólk langt fram á nótt án þess að rukka krónu fyrir það.

Ég er ekki í vafa um að það er ein af ástæðum þess að okkur hefur gengið svona vel öll þessi ár, fólk kann virkilega vel að meta góða þjónustu. Það er líka vissara að láta mæla gardínur fyrir sig því það er auðvelt að gera mistök þar og því best að láta fagfólkið um það. Það sama á við um brautirnar, við setjum þær yfirleitt upp fyrir fólk og það er nánast enginn í dag sem setur brautur upp sjálfur.“

Z brautir og gluggatjöld framleiða allar sínar gardínur sjálf og …
Z brautir og gluggatjöld framleiða allar sínar gardínur sjálf og þannig hefur það verið frá upphafi. Í framleiðslunni starfa fjórar konur sem sauma gardínur allan daginn en samtals starfa sautján manns hjá fyrirtækinu. Ljósmynd/Aron Hugi

Gardínur bæta hljóðvist

Það eru miklar tískusveiflur í gardínum rétt eins og öðru en Guðrún talar um að sumar tískusveiflur séu lífsseigari en aðrar. „Undanfarin ár hefur tískan verið frekar tímalaus. Nú til dags er mjög vinsælt að nota hvítar, þunnar álbrautir í loftið en Z-brautirnar eru alltaf vinsælar enda endingargóðar og nytsamlegar þar sem hægt er að fá þær einfaldar, tvöfaldar eða þrefaldar sem gefur möguleika á fleiri en einni tegund af gardínum í sömu braut. Þá eru gardínur ekki mynstraðar eða skræpóttar eins og var á tímabili. Þær eru að mestu einlitar þannig að fólk er ekki mikið að breyta til.

Hins vegar er ekki langt síðan allir voru með rimlagardínur en það er nær enginn með rimlagardínur í dag. Þær eru allar á haugunum og það eru örugglega um tíu ár síðan við hættum að framleiða þær. Á tímabili voru margir með strimla en það er að detta svolítið út því fólki finnst það smá skrifstofulegt.

Það hefur aukist mjög síðastliðin fimm ár að fólk sé með rúllugardínur og á síðustu árum hafa vængirnir aftur orðið vinsælir. Það er mikið um að fólk sé með þunna vængi í stofu og alrými. Reyndar hefur það aukist undanfarið að fólk sleppi rúllugardínunum og sé eingöngu með vængi úr efni. Myrkvunarvængir eru til að mynda mjög vinsælir í svefnherbergjum og yfirleitt frá lofti og niður á gólf og mögulega þynnri gardínur undir. Góðar gardínur gera líka mjög mikið fyrir rýmið, sérstaklega ef fólk er með háa lofthæð eins og svo margir eru með í dag. Fallegar gardínur breyta flestöllum rýmum og gera þau heimilislegri og skemmtilegri,“ segir Guðrún og bætir við að gardínur bæti líka hljóðvist í húsum.

„Í húsum í dag er mikið gifs og oft hátt til lofts og þá getur bergmál verið mikið. Vængirnir hjálpa til við að draga úr því. Margir kannast líka við að þurfa að þurrka raka úr glugganum alla morgna en það eru litlar líkur á því ef þú ert með réttu gluggatjöldin. Þess vegna kjósa margir myrkvunargluggatjöld í svefnherbergin. Bæði næst betri myrkvun þannig sem og betri hljóðvist auk þess sem rýmið verður margfalt fallegra.“

Þjónustan hjá Z-brautum og gluggatjöldum er alltaf að verða meiri …
Þjónustan hjá Z-brautum og gluggatjöldum er alltaf að verða meiri og segja má að þau séu þjónustufyrirtæki með gluggatjöld, brautir og margt fleira. Ljósmynd/Aron Hugi

Allt efni má endurvinna enda ekki úr eiturefnum

Z brautir og gluggatjöld framleiða allar sínar gardínur sjálf og þannig hefur það verið frá upphafi. Í framleiðslunni starfa fjórar konur sem sauma gardínur allan daginn en samtals starfa sautján manns hjá fyrirtækinu. Aðspurð hvort það séu margir fastakúnnar hjá fyrirtækinu segir hún að svo sé. „Okkar helstu viðskiptavinir eru heimili til jafns við stofnanir, hótel og veitingastaði og byggingaverktaka. Okkar gardínur eru miklar gæðavörur og gerðar til að endast og það er ekki óalgengt að það komi til okkar viðskiptavinir sem hafa verið með sömu gardínur í á þriðja tug ára. Það hefur ekki séð þörf á að skipta enda líta gardínurnar enn vel út,“ segir Guðrún hógvær og viðurkennir að vissulega gleðji svona sögur hana.

„Það er góð ending og hefur vissulega mikla þýðingu fyrir okkur. Við höfum alltaf passað að sauma gardínur úr gæðaefnum. Það eru engin eiturefni og allt efni sem má endurvinna er mjög umhverfisvænt. Við seljum mikið úrval af endurunnum efnum sem og eldvarin efni sem henta vel fyrir stofnanir og fyrirtæki. Grænvottaðar vörur eru einnig orðnar eftirsóttar hjá okkur enda eru sjúkrastofnanir stór viðskiptavinur okkar því þau þurfa að nota gardínur úr því allra besta. Það fer ekki hvaða efni sem er inn á skurðstofur.“

Það er langt í frá að hjá Z-brautum og gluggatjöldum …
Það er langt í frá að hjá Z-brautum og gluggatjöldum sé bara hægt að fá gardínur og brautir því á vefsíðunni má líka finna mikið og glæsilegt úrval af smáhlutum; gjafavöru, rúmföt, lampa, matarstell og margt fleira. Ljósmynd/Aron Hugi

Tímastilltar rafmagnsgardínur

Það sem er selt einna mest af í dag, að sögn Guðrúnar, er rafmagn í gardínur en það sé komið mjög víða og henti í raun fyrir allar tegundir gardína. „Þróunin í rafmagnsgardínum hefur verið mjög mikil síðastliðin fimm ár en í fyrstu var þetta mjög dýrt. Þá voru þetta helst fyrirtæki og stofnanir sem voru með rafmagn í gardínum. En núna er það gjörbreytt því lausnirnar eru orðnar mikið heimilisvænni.

Það er lítið mál að bæta rafmagni við gardínur sem þegar eru komnar upp en þetta er hreinlega mótor með batteríum sem fer inn í rörið á gardínunni. Það þarf bara að hlaða batteríið einu sinni til tvisvar sinnum á ári en það fer vitanlega eftir notkun. Og í raun þarf ekki einu sinni að taka gardínuna niður til að hlaða batteríið ef þú ert með nægilega langa snúru. Það er hægt að stýra gardínunni með rofa, fjarstýringu eða hreinlega í gegnum símann og jafnvel þá með raddstýringu. Það er líka hægt að tímastilla gardínuna þannig að hún dregst alltaf frá klukkan hálfátta að morgni. Tilvalið til að vekja börnin á heimilinu,“ segir Guðrún og hlær.

„Svo eru margir sem koma til okkar en eru ekki alveg vissir um rafmagnið og prófa því að fá sér rafmagn í eina gardínu til dæmis. Langflestir þeirra koma svo aftur og vilja fá rafmagn í allt. Svona þægindi venjast svo vel. Rafmagnið er sérstaklega vinsælt í rúllugardínum en það eru líka margir sem hafa rafmagn í vængjum, strimlum og öðrum gardínum.“

Helstu viðskiptavinir Z-brauta og gluggatjöld eru heimili til jafns við …
Helstu viðskiptavinir Z-brauta og gluggatjöld eru heimili til jafns við stofnanir, hótel, veitingastaðir og byggingarverktakar. Ljósmynd/Aron Hugi

Glæsileg gjafavara frá Laura Ashley

Það er langt í frá að hjá Z-brautum og gluggatjöldum sé bara hægt að fá gardínur og brautir því á vefsíðunni má líka finna mikið og glæsilegt úrval af smáhlutum; gjafavöru, rúmföt, lampa, matarstell og margt fleira. „Vefsíðan okkar er nýleg en hefur gengið gríðarlega vel síðan hún fór í loftið. Ég var svo heppin að geta tryggt mér vinsælustu vörurnar sem voru í búð sem hét Laura Ashley sem var lengi í Skeifunni.

Það voru einstaklega fallegar vörur þar og við seljum mikið af þeim á heimasíðunni okkar. Og svo má vitanlega líka finna þar allar upplýsingar um okkur og vörurnar okkar,“ segir Guðrún áður en hún rýkur af stað að sinna öllu því sem til fellur í fjölskyldufyrirtækinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert