Háskólasvæðið á Bifröst til sölu

Háskólaþorpið á Bifröst samanstendur meðal annars af fallegum skólabyggingum, heimavist, …
Háskólaþorpið á Bifröst samanstendur meðal annars af fallegum skólabyggingum, heimavist, kaffihúsi, líkamsrækt, verslunarhúsnæði og fjölbreyttu íbúðarhúsnæði og allt þetta er nú til sölu hjá Gimli. Ljósmynd/Aðsend

„Tækifærin takmarkast við okkar eigin ímyndunarafl,“ segir Halla Unnur Helgadóttir hjá Gimli fasteignasölu en þar vísar hún í gríðarlega möguleika á Bifrastarsvæðinu en Háskólinn á Bifröst er eingöngu orðinn fjarnámsskóli og landið sem og byggingar á svæðinu eru því til sölu hjá Gimli.

Háskólinn á Bifröst á rætur að rekja til Samvinnuskólans sem var stofnaður árið 1918 í Reykjavík. Árið 1955 var skólinn fluttur að Bifröst í Norðurárdal í Borgarfirði og þá var skólinn endurskipulagður sem heimavistarskóli.

Háskólaþorpið á Bifröst samanstendur meðal annars af fallegum skólabyggingum, heimavist, kaffihúsi, líkamsrækt, verslunarhúsnæði og fjölbreyttu íbúðarhúsnæði. Á svæðinu er einnig leikskólahús en grunnskóli og sundlaug í Varmalandi. Jörðin er í heild skráð 17,8 hektarar.“

Bifröst er einn af þremur þéttbýliskjörnum Borgarbyggðar og það er …
Bifröst er einn af þremur þéttbýliskjörnum Borgarbyggðar og það er einungis um 20 mínútna akstur í Borgarnes. Ljósmynd/Aðsend

Tækifæri og náttúrufegurð

Bifröst er einn af þremur þéttbýliskjörnum Borgarbyggðar og það er einungis um 20 mínútna akstur í Borgarnes. Bifröst og nágrenni er rómað fyrir náttúrufegurð og marga möguleika til útiveru. Fjallið Baula setur sterkan svip á umhverfið og í göngufjarlægð eru náttúruperlur eins og Grábrók, fossinn Glanni, Hreðavatn og Paradísarlaut. Einnig er golfvöllurinn Glanni staðsettur á svæðinu.

Á Bifröst eru allar tegundir bygginga sem mynda þorp. Heildarfermetrar …
Á Bifröst eru allar tegundir bygginga sem mynda þorp. Heildarfermetrar þeirra eigna sem eru í sölumeðferð eru um 11.500 fermetrar og þar af eru 6.642 fermetrar til íbúðar, einbýlis, raðhúsa, parhúsa og lítilla fjölbýlishúsa. Ljósmynd/Aðsend

Þá talar Halla Unnur um að nýtingarmöguleikar séu margir á svæðinu. „Með því að styrkja innviðina er auðvelt fyrir framsýna kaupendur að markaðssetja þorpið sem framtíðarbúsetu fyrir þá sem vilja starfa utan við ys og þys höfuðborgarsvæðisins þar sem náttúra og byggingar renna saman í fullkomnum samhljómi.

Á Bifröst mætti einnig byggja fleiri hús samkvæmt deiliskipulagi og í þessari náttúrufegurð umvafin kjarri vöxnu hrauni kviknar óneitanlega hugmyndin að heilsuþorpi,“ segir Halla Unnur. „Það má einnig breyta hluta skólabygginganna í hótel með samlegðaráhrif frá þeirri hótelstarfsemi sem er á staðnum auk stórkostlegra möguleika til að halda stórar ráðstefnur, meðal annars.

Í dag verður sölusýning á Bifröst og mæting er klukkan …
Í dag verður sölusýning á Bifröst og mæting er klukkan 13 við aðalinngang skólans. Ljósmynd/Aðsend

Skóli, kaffihús og verslun

Í dag verður sölusýning á Bifröst og Halla Unnur hvetur alla áhugasama til að kíkja við en það er mæting klukkan 13 við aðalinngang skólans. „Á svæðinu eru allar tegundir bygginga sem mynda þorp. Heildarfermetrar þeirra eigna sem eru í sölumeðferð eru um 11.500 fermetrar og þar af eru 6.642 fermetrar til íbúðar, einbýlis, raðhúsa, parhúsa og lítilla fjölbýlishúsa.

Aðrar byggingar eru um 4.858 fm og er skilgreind notkun þeirra sem hér segir: skóli, visthús, bókasafn, geymsla/verkstæði, þvottahús/rafstöð, kaffihús og verslun. Svo eru hins vegar nokkur íbúðarhús og íbúðir, leikskóli, borhola, hótel og ein heimavistarbygging í eigu annarra aðila,“ segir Halla Unnur að lokum og hvetur áhugasama til að skoða Bifröst betur hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert