Útsendarar Björgólfs Thors Björgólfssonar höfðu í hyggju að fella Vilhjálm Bjarnason á áfengisdrykkju, kvennafari eða skattamálum. Þetta fullyrðir hann í viðtali á vettvangi Spursmála.
Líkt og greint var frá í liðinni viku gerði njósnafyrirtækið PPP sf. reka að því að skrásetja ferðir Vilhjálms um nokkurra vikna skeið á árinu 2012. Vilhjálmur ræðir málið í athyglisverðu viðtali í Spursmálum og má sjá brot úr því í spilaranum hér að ofan.
Felldu Al Capone með sköttum
Þá er samtalið einnig rakið í textanum hér að neðan:
Þú segir í véfréttastíl í viðtali á RÚV í gærkvöldi að gjarnan sé reynt að fella menn á brennivíni, konum og öðru slíku...
„Og sköttum.“
Og sköttum.
„Já, Al Capone féll á sköttum.“
Og þú lætur að því liggja að það hafi verið tilraunin.
„Já.“
Á hvaða sviði ertu veikastur í þessum efnum.
„Ja, ég er náttúrulega veikur á öllum sviðum.“
Tiltölulega einfalt skattframtal
Ekki þó skattamálunum...
„Nei, nei. Ég er með tiltölulega einfalt skattframtal enda er búið að sauma þannig að manni. En á þessum tíma þegar njósnirnar stóðu yfir, það sem ég hef séð, ég veit náttúrulega ekki hvað er meira. Þá er ég í prófkjöri, þá er ég í prófkjörsbrölti. Og ég var þokkalega þekkt persóna á þeim tíma vegna þátttöku minnar í brölti í kringum hrunið. Ég tel mig hafa meiri þekkingu á fjármálamarkaði heldur en almenningur og ég tel mig hafa betri þekkingu á uppbyggingu fjármálafyrirtækja og þeirra krafna sem gerðar eru til þeirra...“
Þú ert gamall yfirmaður í bankakerfinu.
„Já ég var yfirmaður í bankakerfinu en það var annað bankakerfi en það sem síðar varð. Og til dæmis eiginfjárkröfur. Þetta dæmi gekk bara ekki upp og mér verður snemma ljóst að hlutabréf bankanna er veðsett, annað hvort bankanum sjálfum eða öðrum banka þannig að bankakerfið veikist við hverja veðsetningu og ef einn banki fellur þá verða dómínó-áhrif og þeir falla allir.“
En þú nefnir prófkjörið.
„Þá var svo einfalt. Þessi metnaðarfulli maður sem hefur nú haft áhuga á stjórnmálum síðan hann var sjö ára gamall. Nú ætlar hann að ganga aðeins lengra og fara í framboð og þá er svo einfalt að fella mig á meintum fylleríum og samskiptum við konur og skattamálum og einkafjármálum og öðru slíku.“
Og heldur þú að þeir hafi verið að reyna að róta upp einhverju slíku?
„Hvar er maðurinn? Hvert fer maðurinn? Af hverju er fylgst svona með mér?“
Er hundleiðinlegur að eigin sögn
En það kemur í ljós að þú lifir bara ótrúlega óáhugaverðu lífi. Þú ferð í sund klukkan sjö á morgnanna og ert alltaf að bóna bílinn þinn.
„Já ég er hundleiðinlegur sko. Ég er hundleiðinlegur.“
Það sagði ég ekki.
„Ég er hundleiðinlegur. Til dæmis þegar ég er að bóna bílinn þá er ég ekki að drekka til viðbótar. Og...“
Þannig að þeir fundu ekkert.
„Þeir fundu ekkert þannig að það eru ákveðin vonbrigði í málinu en það breytir því ekki að ég kann ekki við að það sé fylgst með mér með þessum hætti.“
Til marks um óáhugavert land
Það var nú einn maður sem sagði að það væri til marks um það hvað Ísland er lítið og áhugavert mál að þegar það kemur upp njósnamál að þá tengist það eftirför gagnvart Vilhjálmi Bjarnasyni.
„Já, já. Það má alveg segja það.“
Viðtalið við Vilhjálm má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér að neðan: