mbl | sjónvarp

Getur valdið Icelandair tjóni

INNLENT  | 6. október | 15:34 
Innviðaráðherra gaf út nýja reglugerð síðdegis á fimmtudag sem tryggir að þær vélar flugfélagsins Play sem skráðar voru í loftfaraskrá hér á landi verði ekki afskráðar öðruvísi en að uppgjör eigi sér stað áður við Isavia ohf.

Innviðaráðherra gaf út nýja reglugerð síðdegis á fimmtudag sem tryggir að þær vélar flugfélagsins Play sem skráðar voru í loftfaraskrá hér á landi verði ekki afskráðar öðruvísi en að uppgjör eigi sér stað áður við Isavia ohf.

Fyrri reglugerð gerði aðeins ráð fyrir slíku uppgjöri við Samgöngustofu. Upplýst hefur verið að skuld Play við Isavia hafi numið um 500 milljónum króna þegar félagið féll fyrr í þessum mánuði.

Steinn Logi Björnsson, sem á að baki áratugareynslu sem flugrekandi, bæði á vettvangi Icelandair og Bluebird, segir að með þessu sé staða flugvélaleigusala gerð ótryggari en áður og að það geti komið niður á fjármögnunarkjörum annarra flugfélaga sem starfi undir íslenska regluverkinu.

Steinn Logi var gestur í aukaþætti Spursmála en þar benti hann á að árið 2019 hefði svokallaður Höfðaborgarsáttmáli verið viðurkenndur af stjórnvöldum hér á landi en það hefði verið gert í kjölfar mikillar óvissu sem skapaðist um stöðu og rétt eigenda flugvéla þegar Wow air féll með brauki og bramli 28. mars það sama ár. Kom til mikilla átaka milli Isavia ohf. og flugvélaleigusalans Air Lease Corporation (ALC) sem átti einu flugvél Wow air sem staðsett var á Keflavíkurflugvelli þegar félagið féll.

Með sáttmálanum er víðtækur réttur flugvélaeigenda til þess að nálgast eignir sínar tryggður. Fyrrnefnd reglugerð þrengir að þeim rétti.

Heimildir Morgunblaðsins herma að ekkert samráð hafi verið haft við flugrekendur hér á landi þegar reglugerðin var sett.

Isavia setti strik í reikninginn

Í fyrrnefndum Spursmálaþætti er einnig rætt við Svein Andra Sveinsson, skiptastjóra Wow air. Þar upplýsir hann að það hnútukast sem upp kom milli Isavia og ALC 2019 hafi komið í veg fyrir fyrirætlanir Skúla Mogensen og annarra lykilstjórnenda hins fallna flugfélags um að endurreisa félagið.

Þannig hafi Steve Udvar-Hazy forstjóri ALC verið búinn að heita fjórum vélum úr flota sínum til endurreisnarinnar. Það loforð hafi hins vegar orðið að engu þegar átökin við opinbera hlutafélagið sem heldur utan um rekstur Keflavíkurflugvallar náðu hámarki.

Viðtalið við Stein Loga og Svein Andra er aðgengilegt á mbl.is, Spotify og Youtube. 

Spursmál
Loading