Rithöfundurinn Stefán Máni segir það blasa við öllum að klíkuskapur ráði för við útdeilingu listamannalauna. Það sjáist á þeim sem alltaf fái launin og hverjir fái þau sömuleiðis nær aldrei.
Stefán Máni er gestur Spursmála og ræðir þar fyrirkomulag listamannalauna en hann er í hópi afkastamestu rithöfunda landsins. Á næstu vikum kemur út 29. bók hans á jafnmörgum árum.
Hann segir að þótt hann hafi á tímum þegið listamannalaun þá myndi hann ekki kæra sig um að vera á þeim öllum stundum. Það myndi ganga nærri sjálfsvirðingu hans.
Orðaskiptin um þetta má sjá í spilaranum hér að ofan en einnig eru þau rakin í textanum hér að neðan:
„Það vita það allir“
„Þetta er of óskýrt og það vita allir að það er klíkuskapur í þessu. Það sést alveg. Það vita það allir.“
Hvernig sést það?
„Á því hverjir eru þarna alltaf og hverjir eru þarna nánast aldrei.“
En eru þá rökin ekki bara að þetta séu bestu höfundarnir, þetta er það fólk sem við ættum að vera að veðja mest á...?
„Það eru örugglega einhverjir sem eru á þeirri skoðun en mér finnst að það mætti alveg dreifa þessu betur.“
Mikilvægt að styðja við nýliða
Þeir hafa ýtt aðeins við því, mig minnir að í síðustu úthlutun hafi þetta verið 7% af nýrri höfundum. það er væntanlega krítískasta skeiðið í lífi hvers höfundar að menn fái einhvers konar bakstuðning, hvort sem það er með því að útgefandi samþykki að gefa þig út eða að þú fáir sex mánuði eða níu mánuði til þess að vinna að...
„Já það er alveg mikilvægt að styðja við nýliða. Það er borðleggjandi. Svo er það líka, þetta á allt undir högg að sækja. Íslenska tungan á undir högg að sækja og bækur og bóklestur eiga undir högg að sækja, það eru bara símarnir og Netflix þannig að það mætti bara styðja betur við alla höfunda sem eru að skrifa og gefa út því um leið og fólk hættir að kaupa bækur þá er það ekki bara að ég hætti að fá tekjur heldur fer útgefandinn á hausinn. Bókabúðirnar lenda í vandræðum þannig að það er mikið þarna undir. Þannig að það á að styðja höfunda sem eru duglegir.“
Er þá ekki afkastahvati í kerfinu?
„Það virðist ekki vera. En þetta skiptir alveg máli ef við ætlum að hafa bókmenntir og tungan, hún er í hættu. Það er bara barnaskapur að halda öðru fram þannig að mér finnst alveg að það megi styrkja þetta en það verður að vera praktískt.“
Góð sjálfsvirðing
Aðalatriðið er að það sé hægt að eiga samtal um þetta til þess að koma í veg fyrir spillingu og væntanlega, upplýsingagjöf getur ekki verið af hinu illa.
„En svo eins og ég hef ekki verið á spenanum og þess vegna er ég með góða sjálfsvirðingu og ég þarf ekki að skammast mín fyrir neitt og það getur enginn bent á mig og sagt að ég sé einhver afæta, ég er bara stikkfrí. Það er ekki búið að skemma mig með einhverju dekri.“
Ég hef nú eitthvað verið sakaður um að tala um menn sem afætur en það eru bara hugtök sem eru mér mjög framandi.
„Já, ég myndi bara ekki kæra mig um að vera bara á listamannalaunum. Mér fyndist það bara of mikið.“
„Vil ekki að mér sé haldið uppi“
Það væri of mikið?
„Já, stuðningur er fínn en að vera bara haldið uppi, ég vil ekki að mér sé haldið uppi. Ég er bara vinnandi maður.“
Nærðu að framfleyta þér á listinni?
„Nei. ef ég væri bara einhleypur. Ég borðaði mikið af bökuðum baunum þegar ég var bara sveltandi listamaður en ég bara get ekki leyft mér það í dag með barn á framfæri og svoleiðis. En nei, það væru ekki háar tekjur.“
Þannig að þú vinnur með þessu?
„Já.“
Og það tekst þrátt fyrir allt?
„Já, já. Þetta er bara eitthvað sem ég vel að gera og í stað þess að horfa á Netflix á kvöldin þá er ég kannski bara að skrifa. Ég vorkenni mér ekkert fyrir það. Maður verður að halda sjálfsvirðingunni.“
Viðtalið við Stefán Mána má sjá í heild sinni í spilaranum hér að neðan:












