Fyrstu kosningarnar

Fyrstu kosningarnar sem ég hafði rétt á að taka þátt í og kjósa voru Alþingiskosningar 2013. Ég hef alltaf haft mikla réttlætiskennd og staðið fast á mínum skoðunum sem ég vil telja að ég hafi myndað mér sjálf.

Foreldrar mínir eru hægri sinnaðir og á kosningadegi var ég vakin upp og fengin til þess að horfa á öll myndbönd ungliðahreyfingar hjá ákveðnum stjórnmálaflokki. Ég veit fullvel að foreldar mínir eru frábærir einstaklingar sem styðja mig í einu og öllu en það var samt eins og þeim fyndist að ég væri bara að kjósa eitthvað, eins ég hafði ekki fullan skilning á málunum, eins og þeim fyndist ég ekki alveg hafa þroskann til þess að getað myndað mína eigin skoðun á upplýstann og málefnalegan máta. Í dag er ég enn fylgjandi öðrum stjórnmálaflokki og stefnu en foreldrar mínir og mun það eflaust alltaf vera þannig. Sú barátta sem ég stend í núna er náskyld kosningabáráttu kvenna, nema ég er af annari kynslóð. Ég berst núna fyrir lækkun kosningaaldurs, ég berst núna fyrir lýðræði- og jafnréttiskennslu í grunn- og framhaldsskólum, kennslu fjármálalæsis og hvað það þýðir að vera með lýðræðislega vitund. Því alveg eins og kvenþjóðinni skorti rödd á sínum tíma, þá skortir unga fólkinu rödd í dag.

Ég hef upplifað mikilvægi þess að skoðanir kvenna komi fram í málefnum sem snúa að kvenfólki. Umræður um málefni eins og fóstureyðingar, fæðingarorlof, getnaðarvarnir eru ekki hægt að hafa án kvenmanna, því þetta snýr jú mest að þeim hópi fólks í samfélaginu.
Saga lýðræðisþáttöku og kosningaréttar kvenna er mjög skýrt dæmi um hversu mikil þörf er fyrir því að mismunandi hópar innan samfélagsins öðlist rödd. Áður fyrr voru það aðeins miðaldra karlmenn sem töluðu fyrir hönd alla þeirra sem veltust um í samfélaginu, þessi litli hópur átti að berjast fyrir hagsmunum og réttindum allra hagsmunahópa en höfðu enga innsýn í stöðu þeirra innan samfélagsins.

Þó svo að konur séu búnar að skapa sér sess í  heimi stjórnmálanna þá erum við ekki jöfn, og var það aðeins á síðasta kjörtímabili að 42,9% þingmanna voru konur og er það hæsta hlutfall kvenna á Alþingi frá upphafi. Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, er 10. konan til þess að sitja á þingi, börn sem nú eru 3 ára voru lifandi á meðan þingsetu hennar stóð. Þó svo að Jóhanna hafi setið lengst allra kvenna á þingi, 35 ár, þá sýnir þetta samt hversu stutt er síðan konur fóru að taka virkan þátt í stjórnmálum.

Nú hef ég setið í stjórn Sambands íslenskra framhaldsskólanema í þrjú ár og gegnt starfi sem formaður sambandsins í tvö ár, ég hef oft fengið að finna fyrir því hvað það þýðir að vera kona í stjórnunarstöðu. Í fyrra var meiri hluti stjórnar Sambands íslenskra framhaldsskólanema kvenkyns, við fórum saman á fund með stjórnmálamanni og vegna þess að ungu mennirnir í stjórninni voru uppteknir voru það aðeins við ungu konurnar sem mættum á fundinn. Á meðan fundinum stóð fengum við marg oft að heyra hvað við værum allar afskaplega duglegar og hvað það væri flott hjá okkur stelpunum að koma okkur inn í mál sem varðar samfélagið. Á meðan fundinum stóð gat ég ekki gert annað en að líða eins og aðilarnir á þessum fundi sæju mig sem litla puntdúkku en ekki formann hagsmunasamtaka nemenda. Enginn af karlkyns forverum mínum höfðu lent í þessu og er þetta bara eitt dæmi af mörgum. Við eigum ennþá langt í land, því þegar ég haga mér eins og karlkyns forverar mínir; ákveðin, framsækin og stend föst á mínu, þá er ég stjórnsöm og yfirgengileg. En í rauninni er ég frambærileg, málefnaleg og fjandi stolt af því.

mbl.is