Reglur um framsal einfaldaðar

INNLENT  | 14. apríl | 18:48 
Á Íslandi eru reglur um framsal sakamanna flóknari og strangari en innan Evrópusambandsins. Þrátt fyrir það telur dómsmálaráðherra að skjól erlendra afbrotamanna sé ekki meira hér en annars staðar innan EES-svæðisins. Hann segir að unnið sé því að einfalda reglur um framsal sakamanna.

Á Íslandi eru reglur um framsal sakamanna flóknari og strangari en innan Evrópusambandsins. Þrátt fyrir það telur dómsmálaráðherra að skjól erlendra afbrotamanna sé ekki meira hér en annars staðar innan EES-svæðisins. Hann segir að unnið sé því að einfalda reglur um framsal sakamanna.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segir fréttir um dvöl erlendra afbrotamanna hér á landi eðlilega vekja óhug. Sagt sé, að skjól þeirra sé meira hér en annars staðar innan EES. Þessi fullyrðing byggist væntanlega á því, að hér gildi aðrar og flóknari reglur um framsal sakamanna en innan Evrópusambandsins.

Á bloggsíðu sinni bendir Björn á að ESB-ríkin sendi sakamenn á milli landa á grundvelli evrópskrar handtökutilskipunar. Hún einfaldi handtöku og framsal sakamanna. Ákvarðanir sé teknar úr höndum ráðuneyta og færðar í hendur lögreglustjóra. Pólsk stjórnvöld verði að óska eftir framsali manna á formlegan hátt en geti ekki treyst á orðsendingaskipti milli lögregluyfirvalda.

„Ísland hefur samið við ESB um aðild að evrópsku handtökutilskipuninni og er verið að semja frumvarp um nauðsynlegar lagabreytingar í samræmi við samninginn. Við svo búið verður hann lagður fram til fullgildingar. Öll ESB-ríkin verða einnig að fullgilda hann.

Íslensk stjórnvöld hafa skapað sér nokkra sérstöðu í framsalsmálum, meðal annars innan Norðurlanda, og hér hefur ekki verið vilji til að auðvelda framsal með vísan til hagsmuna íslenskra ríkisborgara. Alþjóðavæðingin er líklega að grafa undan þessari sérstöðu eins og svo mörgu öðru. 

Sæki erlendir sakamenn hingað til lands vegna strangra skilyrða fyrir framsali, sannar það enn, hve miklu skiptir, að íslensk löggjöf sé í takt við það, sem er í öðrum ríkjum, svo að hér skapist ekki neitt lagaskjól fyrir afbrotamenn.

Í umræðum um hina pólsku sakamenn kemur glöggt fram, að lögregla hefur vitneskju um dvöl þeirra í landinu. Hún er hins vegar bundin af lögum, niðurstöðum dómstóla og alþjóðasamningum um framsal, þegar kemur að því að taka ákvarðanir um aðgerðir,“ skrifar Björn Bjarnason á heimasíðu sinni.

 

Þættir