Eldsnöggur fiskréttur með beikoni og osti

MATUR  | 10. febrúar | 21:12 
Eldsnöggur fiskréttur með beikoni, hvítmygluosti og sætum kartöflum er það sem Óskar Finnsson býður upp á í þessum síðasta þætti af Korter í kvöldmat í bili. Hann segir að þessi réttur sé algert sælgæti.

Eldsnöggur fiskréttur með beikoni, hvítmygluosti og sætum kartöflum er það sem Óskar Finnsson býður upp á í þessum síðasta þætti af Korter í kvöldmat í bili. Hann segir að þessi réttur sé algert sælgæti. 

„Við byrjum á því að steikja beikonið á pönnu þar til mikið af fitunni hefur bráðnað en beikonið er ekki orðið fullstökkt (engar áhyggjur, það gerist síðar), á meðan það er að gerast er sæta kartaflan skorin í teninga,“ segir Óskar.

Þegar beikonið er tilbúið er það tekið af pönnunni og kartöfluteningarnir settir á hana í staðinn. Kartöflurnar eru svo steiktar í 2-3 mínútur upp úr beikonfitunni sem sat eftir á pönnunni og kryddaðar með pipar og rósmaríni. „Þetta er gert til að ná beikonbragðinu í kartöflurnar áður en ég set þær inn í ofninn.“

Kartöflurnar fara í ofnfast fat og inn í ofn á 180° í 20 mínútur.

Á meðan kartöflurnar bakast er fiskinum velt upp úr smá ólífuolíu og kryddaður með pipar og örlitlu salti. Það þarf ekki mikið því beikonið er nokkuð salt.

Hvítmygluosturinn er tekinn úr kæli og u.þ.b. hálfur osturinn er skorinn niður í sneiðar sem eru um hálfur cm að þykkt.

  • Það er best að borða hvítmygluosta við stofuhita, silkimjúka og bragðmikla, en það er mun auðveldara að skera þá niður beint úr ísskápnum, þá eru þeir talsvert stífari.

Þegar kartöflurnar hafa bakast í 20 mínútur eru þær teknar út og fiskurinn lagður ofan á þær. Yfir fiskinn fer svo beikonið og sneiðar af hvítmygluosti.

Fatið fer aftur inn í ofn í 10 mínútur á 180°, fiskurinn bakast, beikonið verður stökkt og osturinn bráðnar, gerist ekki betra.

„Ef þið viljið gera þetta glæst er hægt að saxa smá af ferskum kryddjurtum yfir, til dæmis salvíu, rétturinn steinliggur svona!“

Þættir