Konungur brunch-boðanna, á þrjá vegu

MATUR  | 9. júní | 12:12 
Óskar kokkur sýnir hvernig á að slá í gegn í næsta brunch-boði með ekki minna en þremur útgáfum af hinum sívinsæla brunch-rétti, egg benedict. „Þetta er eitthvað sem öllum finnst gott og þetta er ótrúlega einfaldur réttur!“

„Þetta er hugsað sem lunch- eða brunch-réttur, en reynslan hefur sýnt mér að ég get borðað þetta á hvaða tíma sólarhringsins sem er!” Segir Óskar kokkur um egg benedict. Í þætti dagsins af Korter í kvöldmat töfrar hann fram hvorki meira né minna en þrjár útgáfur af þessum vinsæla rétti, með skinku, með beikoni og egg royal, með reyktum laxi.

Fyrsta skrefið er að bræða 300 gr af smjöri í potti. Á meðan það bráðnar tekur við erfiðari hluti, sem varla má líta af.

 „Við setum vatn í pönnu ásamt 1 msk. ediki og smá salti. Þegar vatnið er komið að suðu er hrært í vatninu með skeið svo vatnið snúist í stóran hring í pönnunni. Því næst eru eggin brotin beint út í og hreyfingin á vatninu heldur þeim saman.“

Það þarf að fylgjast vel með eggjunum, þau þurfa aðeins örfáar mínútur í vatninu og eru best ef rauðan er enn fljótandi svo það þarf að passa að sjóða þau ekki of mikið. Ef rauðan stendur upp úr vatninu er gott að setja lok á pönnuna svo hún eldist. Þegar eggin eru tilbúin eru þau tekin upp úr vatninu og jafnvel kæld svo þau ofeldist ekki.

„Mér finnst best að nota brioche- eða hamborgarabrauð, við notum ekki lokin því þau eru of þykk og matarmikil.“ Brauðinu er stungið inn í ofn á grillið í nokkrar mínútur, þar til það er orðið stökkt. Á meðan það gerist er skinkan og beikonið steikt á pönnu og sett til hliðar.

Sósan er lykilatriði í þessum rétti og passar fullkomlega með egginu, brauðinu og öllu sem fer á milli.

Eggjarauðurnar eru skildar frá hvítunum og settar saman í skál sem fer yfir smjörpottinn „Við notum hitann af smjörinu til þess að fá velgju í eggin. Við þurfum að passa okkur, við erum ekki að búa til eggjaköku svo við þurfum að þeyta þau vel og lyfta skálinni við og við til að hleypa gufunni upp.“

Þegar eggjarauðurnar eru orðnar léttar og ljósar er smjörinu hellt saman við í mjórri bunu á meðan þeytarinn gengur í eggjarauðunum (hvort sem það eru hendurnar eða rafmagn sem knýja hann áfram). Ef það gengur brösulega að halda takti með þeytaranum á meðan að smjörinu er hellt saman við er tilvalið að fá einhvern til að hjálpa til, því ef þeytarinn gengur ekki nógu hratt er hætta á að sósan skilji sig. Þegar sósan er farinn að þykkna talsvert er hún bragðbætt með smá nautakrafti, sítrónusafa og pipar, þetta ætti að þynna hana aðeins aftur.

Þessu höldum við áfram þar til smjörið er nánast búið og eftir situr botnfallið, „þið sjáið þetta hvíta sem liggur í botninum, það er ekki að fara út í,“ hvítu flekkirnir sem fljóta ofan á smjörinu mega hins vegar fara með.

„Þetta er svona réttur þar sem allt er á hvolfi og brjálað að gera, svo er þetta bara allt í einu tilbúið!“

Þá er bara að raða saman. Brauðið er sett á disk og smá sósu hellt yfir. Beikonið er sett á brauðið og því næst eggið. Rétturinn er svo toppaður með því að þekja eggið í enn meiri sósu og jafnvel smá steinselju ef hún er við höndina. Skinkan og laxinn eru meðhöndluð á nákvæmlega sama hátt, þó skvetta af sítrónusafa lyfti laxinum yfir á enn hærra plan.

Uppskriftin miðar við 4 egg benedict með beikoni, 4 með skinku og 4 egg royal, með reyktum laxi. Eins og sjá má er enginn fyrirhöfn að hafa þrjár útgáfur af þessum glæsilega og girnilega rétti, nokkuð sem er bókað að slái í gegn í næsta brunch-boði.

Þættir