Á bleiku skýi með kokteil og kettlinga

FÓLKIÐ  | 31. janúar | 8:00 
Þórdís Imsland söng lagið Somewhere Over The Rainbow í undanúrslitum The Voice Ísland. Þjálfararnir voru allir mjög hrifnir og hafa líklega sjaldan notað jafnskrautlegt myndmál til að lýsa ánægju sinni á einum flutningi.

Margir þekkja lagið Somewhere over the Rainbow sem Judy Garland flutti eftirminnilega í kvikmyndinni Galdrakarlinn í Oz. Það er einmitt lagið sem Þórdís Imsland valdi að flytja í undanúrslitum sjónvarpsþáttanna The Voice Ísland sem sýndir eru í Sjónvarpi Símans.

Rödd Þórdísar fékk að njóta sín að fullu í flutningnum en eina undirspilið var gítarleikur. Útkoman var mjög falleg og skilaði Þórdísi sæti í úrslitunum sem fara fram næstkomandi föstudagskvöld. Þjálfararnir voru sérstaklega hrifnir og hafa líklega sjaldan notað jafnskrautlegt myndmál til að lýsa ánægju sinni á einum flutningi.

Innbyggt autotune

„Þórdís þú ert náttúrulega bara mögnuð, ég var bara fljótandi á bleiku skýi með kokteil og 50 kettlinga, þetta var bara unaðslegt,“ sagði Svala Björgvins þjálfari Þórdísar í þáttunum.

„Þetta var mjög flott og gaman að fá að heyra röddina þína njóta sín eins og í þessari útsetningu. Þetta eru svo spes tónar, og pitch perfect,“ sagði Unnsteinn Manúel. „Það er eins og þú sért með „autotune“ byggt inn í röddina,“ skaut Svala inn.

Eins og vaninn er átti Helgi Björns einna skrautlegastar lýsingar.„Mér fannst ég vera kominn í teiknimyndina Somwhere over the Rainbow þar sem þú varst prinsessan og ég var prinsinn og þar sem ég fæ kóngsríkið og þetta endar allt rosalega vel. Þetta var æðislega flott og skemmtilegur flutningur, mér fannst gaman að maður fékk tækifæri til að heyra röddina þína virkilega almennilega, rosalega flottur tónn, bæði aðeins rispaður, mjög mjúkur og mjög fylltur á fallsettunni. Ég er mjög impressed, rosalega flott hjá þér.“

Þættir