Hafa fulla trú á Svölu

FÓLKIÐ  | 9. maí | 10:56 
„Ég hef fulla trú á að þetta hafist í kvöld,“ segir Hildur Tryggvadóttir Flóvenz, stjórnarmaður FÁSES, félags áhugamanna um Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í samtali við blaðamann mbl.is í Kænugarði en í kvöld ræðst hvort Svala kemst í úrslit í Eurovision.

„Ég hef fulla trú á að þetta hafist í kvöld,“ segir Hildur Tryggvadóttir Flóvenz, stjórnarmaður FÁSES, félags áhugamanna um Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í samtali við blaðamann mbl.is í Kænugarði en í kvöld ræðst hvort Svala kemst í úrslit í Eurovision.

„Maður finnur fyrir því að blaðamennirnir eru farnir að skipta um skoðun á laginu og eru hrifnari en þeir voru fyrst,“ bætir Flosi Jón Ófeigsson, annar stjórnarmaður FÁSES við. „Það þarf eitthvað mikið að gerast til þess að hún komist ekki áfram.“

Þau Flosi og Hildur segjast vera mjög vel stemmd fyrir kvöldinu og ótrúlega spennt fyrir framlagi Íslendinga í ár. „Við sáum bæði rennslin í gær og þetta kemur rosalega vel út hjá henni,“ segir Hildur.

 

Fyrri riðillinn sterkari en sá seinni

Þau eru bæði á því að  riðillinn í kvöld sé sterkari en seinni riðillinn sem keppir á fimmtudaginn. „Þarna í kvöld verða alveg 13-14 lönd sem eru alveg mjög sterk,“ segir Hildur og nefna lönd eins og Portúgal, Svíþjóð og Moldavíu sem líkleg til þess að gera það gott í kvöld. „Það er mikið af rólegum lögum í ár og þess vegna mun lag Moldavíu, sem er svona hresst vekja athygli,“ segir Flosi.

„Ég hef líka meiri trú á Finnum núna en fyrst. Ég held að þeir komist áfram,“ segir Hildur.

Ítalinn hefur sjarma

Ítölum hefur verið spáð sigri í keppninni í margar vikur og eru Hildur og Flosi nokkuð viss um að þeir vinni í ár. „Það virðist ekki vera neitt annað sem á möguleika,“ segir Hildur. „Hann hefur rosalegan sjarma. Fólk hefur misjafnar skoðanir á laginu en sjarminn, apinn og „conceptið“ gengur upp.“

 

 

„Sá eini sem á eitthvað í hann er kannski Svíinn,“ segir Flosi. „Búlgarinn er líka rosalega góður, 17 ára strákur. Hann er eins og Svala, maður heyrir varla muninn á þegar hann syngur „live“ og á upptöku.“

Ef maður fer einu sinni fer maður aftur

Þetta er áttunda ferð Flosa á Eurovision og sjötta ferð Hildar. Aðspurð hvort Eurovison sé þannig að fari maður einu sinni þurfi maður að fara aftur segja þau bæði já og hlæja. „Maður fær bara bakteríuna, auðvitað búin að fylgjast með Eurovision í mörg ár,“ segir Hildur.

Þau eru sammála um það að vel sé staðið að öllu í keppninni í ár og eru þau ánægð með störf skipuleggjenda. Þá er borgin skemmtileg og fólkið indælt að mati þeirra FÁSES-liða.

FÁSES var stofnað á Eurovision árið 2010 af hópi áhugamanna, m.a. Hildi og Flosa, og segja þau félagið fara stækkandi. „Við erum næstum því jafn stór og klúbbarnir í hinum löndunum á Norðurlöndum,“ segir Flosi.

Dönsuðu zumba við Eurovision-slagara

Blaðamaður mbl.is hitti þau Hildi og Flosa í Euroclub fyrr í dag þar sem fram fór sérstakur Eurovision-zumba tími. Þar mátti sjá Eurovision-aðdáendur frá hinum og þessum löndum sameinast í dansi og er þetta í þriðja skiptið sem sérstakur Eurovision-zumba-tími er haldinn samhliða keppninni.

 Flosi stjórnaði tímanum ásamt ísraelskum aðdáanda, Gilli. Flosi er vinsæll zumba-kennari heima á Íslandi í líkamsræktarstöðinni Reebok Fitness og segir hann Eurovision-lög henta sérstaklega vel fyrir zumba.  „Það er bara svo mikil gleði. Fólk elskar tónlistina,“ segir Flosi.

Myndband af hópnum að dansa zumba við ítalska lagið má sjá með fréttinni. 

Þættir