Vel heppnuð æfing Gæslunnar í Kollafirði

INNLENT  | 8. September | 14:06 
Síðasti hluti alþjóðlegu leitar- og björgunaræfingarinnar Arctic Guardian 2017 fór fram á Kollafirði í morgun. Æfð voru viðbrögð við leka um borð í skipi og fór æfingin að mestu fram í kanadíska ísbrjótnum Pierre Radisson.

Síðasti hluti alþjóðlegu leitar- og björgunaræfingarinnar Arctic Guardian 2017 fór fram á Kollafirði í morgun og lauk síðdegis. Æfð voru viðbrögð við leka um borð í skipi og fór æfingin að mestu fram í kanadíska ísbrjótnum Pierre Radisson.

Öll skiptin á Arctic Guardian tóku þátt í æfingunni, norska skipið And­enes, Spencer frá bandarísku strandgæslunni, hið kunna danska varðskip Vædderen og varðskipið Þór.

Það eru samtök strandgæslustofnana norðurslóðaríkjanna átta (Arctic Coast Guard Forum) sem standa fyrir æfingunni og er hún sú fyrsta sem haldin er undir merkjum þeirra. Æfingunni lýkur formlega á morgun.

Frétt mbl.is: Bandaríkjamenn hrifnir af Gæslunni

Æfingin á Kollafirði í dag þótti afar vel heppnuð. Fjölmiðlafólki bauðst að fylgjast með úr varðskipinu Þór og úr þyrlu Landhelgisgæslunnar, TF-LÍF. Ljósmyndari mbl.is var um borð í þyrlunni eins og sjá má í myndskeiði sem fylgir fréttinni.

Veður var með allra besta móti og var afar tilkomumikið að fylgjast með skipunum athafna sig.

Arctic Guardian 2017 hefur verið í gangi síðustu daga við strendur Íslands. Fyrr í vikunni leituðu þátttakendur á æfingunni að sex björgunarbátum sem áttu að tilheyra farþegaskipi í sjávarháska. Auk strandgæsluskipanna fimm voru flugvélar og þyrlur notaðar við leitina og heppnaðist þessi hluti sömuleiðis vel. Í gær var svo verkefni leitarfólks að leita að manni sem féll útbyrðis af farþegaskipi.

Þættir