Matarprentari örbylgjuofn framtíðar

TÆKNI  | 8. september | 18:02 
Prentari sem prentar mat er eitthvað sem flestir tengja líklega við Star Trek-sjónvarpsþættina eða annan vísindaskáldskap. Matís kynnti þó sérstakan þrívíddarprentara í dag, sem sendi frá sér hvern saltfiskréttinn eftir öðrum sem voru í laginu eins og eldspúandi eldfjall.

Prentari sem prentar mat er eitthvað sem flestir tengja líklega við Star Trek-sjónvarpsþættina eða annan vísindaskáldskap. Matís kynnti þó sérstakan þrívíddarprentara í dag, sem sendi frá sér hvern saltfiskréttinn eftir öðrum sem voru í laginu eins og eldspúandi eldfjall.

Það er doktor Holly Kristinsson, ráðgjafi í rannsóknum og nýsköpun, sem hefur umsjón með verkefninu hjá Matís. Um er að ræða 3 ára verkefni sem styrkt er af tækniþróunarsjóði Rannís.

„Prentaranum er ætlað að hvetja neytendur til að neyta sjávarfangs,“ segir Holly og kveður prentarann óneitanlega hafa vakið mikla athygli. „Það vekur furðu hjá fólki að það sé hægt að búa eitthvað til sem að mótar matinn svona. Það eru margir spenntir og svo segja þeir „Vá, þetta bragðast venjulega!“ þegar þeir prufa matinn.“

Hjá Matís nýtir þrívíddarprentarinn hráefni á borð við fisk til að búa til rétti. Holly segir prentarann enn fremur hafa þann kost að hægt sé að ráða hvað fari í réttinn og þannig sé hægt að klæðskerasníða mat að þörfum þeirra sem eru með mataróþol eða séróskir.

„Ég bjó til að mynda til glútenlaust ravíólí sem bragðaðist mjög vel,“ segir hún. „Fegurðin í þessu felst í því að það er hægt að stjórna því hvaða innihaldsefni fara í prenthylkin sem síðan prenta matinn.“ Hún bætir við að í framtíðinni sé svo gert ráð fyrir að hægt verði að stjórna kaloríufjöldanum  í hverju hráefni. „Þannig getur maður tekið uppskrift og lagað hana að manns eigin næringarþörfum,“ segir Holly og bætir við að það sé ekki síður kostur að hægt sé að búa til fjölmarga nýja rétti með prentaranum.

Hægt að búa til bragðgóða rétti úr aukaafurðum

Notkun matarprentarans hjá Matís snýst þó aðallega um matarsóun. „Til dæmis hvernig við getum verið sjálfbærari og nýtt auðlindir okkar betur.“ Holly nefnir sem dæmi þær hliðarafurðir sem eru lítið sem ekkert nýttar við fiskvinnslu. „Það er hægt að búa til dásamlega og bragðgóða rétti úr þeim með þrívíddarprentaranum, án þess að fólk átti sig á því að það er að borða aukaafurðir.“

„Þetta er matur sem raunverulega er hægt að nota,“ bætir hún við.

Botnlagið í réttinum sem Holly lagaði fyrir myndavélina er kartöflumús, svo bætist saltfisklag ofan á eldfjallið og að lokum er eldrauð tómatsósa látin leka úr gígnum.

Holly segir formúluna skipta miklu máli þegar verið er að nota þrívíddarprentara við matargerð. „Ef formúlan er ekki rétt, þá helst rétturinn ekki saman,“ segir hún og bætir við að þegar verið sé að vinna úr hliðarafurðum sjávarfangs, þá sé til að mynda hægt að auka próteinmagn í réttunum.

„Það sem er svo spennandi við prentarann, er að þetta er leið til að auka tengingu neytandans við matinn og gera hann spenntan fyrir sjávarfanginu.“  

Örbylgjuofn framtíðarinnar

Þrívíddarmatarprentara er ekki að finna á rannsóknarstofum víða í dag, en Holly telur líklegt að í framtíðinni þá muni þeir verða algengir í eldhúsum veitingastaða. „Þetta er nefnilega frábær leið til að prufa hráefni og hvernig það bregst við,“ segir hún.

Í dag getur prentarinn ekki eldað hráefnið ennþá en það mun breytast. „Í eldhúsi framtíðarinnar þá mun þrívíddarprentarinn vera nýi örbylgjuofninn og þá mun hann geta soðið, steikt og bakað eftir þörfum.“

Þættir