Mikilli eyðileggingu spáð í Flórída

ERLENT  | 9. september | 9:06 
Útlit er fyrir að fellibylurinn Irma valdi mikilli eyðileggingu í Flórída eða grannríkjum í suðaustanverðum Bandaríkjunum um helgina, að sögn almannavarnastofnunar landsins, FEMA. Áður hafði fellibylurinn valdið miklu tjóni í Karíbahafi og að minnsta kosti tuttugu létu lífið af völdum óveðursins.

Útlit er fyrir að fellibylurinn Irma valdi mikilli eyðileggingu í Flórída eða grannríkjum í suðaustanverðum Bandaríkjunum um helgina, að sögn almannavarnastofnunar landsins, FEMA. Áður hafði fellibylurinn valdið miklu tjóni á eyjum í Karíbahafi og að minnsta kosti tuttugu manns létu lífið af völdum óveðursins.

Brock Long, yfirmaður FEMA, sagði í gær að stór svæði í Flórída yrðu án rafmagns dögum saman vegna fellibylsins og gert væri ráð fyrir því að meira en 100.000 manns þyrftu að dvelja í neyðarskýlum.

„Suður-Flórída gæti verið óbyggileg vikum eða mánuðum saman,“ sagði veðurstofa Bandaríkjamanna um áhrif óveðursins.

Um hálfri milljón manna hafði í gær verið sagt að forða sér af svæðum í sunnanverðri Flórída sem eru talin í mestri hættu. Gert er ráð fyrir því að Irma komi að landi í Flórída á morgun og úrhelli sem fylgi fellibylnum valdi miklum flóðum. Talið er að Irma fari þaðan til Georgíu og Suður-Karólínu.

Frétt mbl.is: 5,6 milljónum gert að yfirgefa heimili sín

Óveðrið var skilgreint sem fjórða stigs fellibylur á kvarða sem kenndur er við vísindamennina Saffir og Simpson. Áður hafði Irma mælst á fimmta og hæsta stigi kvarðans lengur en nokkur annar fellibylur í Atlantshafi frá því að mælingar hófust.

 

Reynt að stöðva gripdeildir

Talið er að 1,2 milljónir manna hafi orðið fyrir tjóni eða þurft á neyðaraðstoð að halda vegna fellibylsins á eyjum í Karíbahafi. Irma olli m.a. miklu tjóni á eyjunni St. Martin, sem lýtur yfirráðum Frakklands og Hollands. Embættismenn segja að um 60% húsa á franska hluta eyjunnar hafi skemmst svo mikið að þau séu óíbúðarhæf. Hermt er að um 6.000 bandarískir ferðamenn séu á eyjunni og komist ekki í burtu, að sögn fréttavefjar breska ríkisútvarpsins.

Frétt mbl.is: 150 milljarða tjón af völdum Irmu

 

Fregnir hermdu að vopnaðir menn hefðu látið greipar sópa um verslanir á St. Martin. „Ástandið er alvarlegt,“ sagði Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, og staðfesti hermenn væru að reyna að stöðva gripdeildir.

Yfirvöld í Frakklandi, Bretlandi og Hollandi hafa sent herskip og flugvélar með hjálpargögn til eyja sem tilheyra löndunum.

Viðbúnaður á Kúbu og Bahamaeyjum

Irma olli úrhelli á Haítí og í Dóminíska lýðveldinu en tjónið þar var ekki eins mikið og óttast hafði verið. Fellibylurinn gekk yfir Kúbu og Bahamaeyjar í nótt. Um 50.000 ferðamenn hafa flýtt heimför sinni frá Kúbu vegna óveðursins og hótel á vinsælum ferðamannastöðum á norðurströndinni eru nú tóm.

Margir íbúar Bahamaeyja hafa verið fluttir af svæðum sem eru talin í mestri hættu vegna fellibylsins.

Þættir