„Klaufamistök hvað eftir annað“

ÍÞRÓTTIR  | 30. september | 16:50 
„Mér fannst við vera betri framan af en þeir refsa okkur fyrir mistök,“ sagði Egill Þormóðsson, annar varafyrirliða Esju, eftir 4:2-tapið gegn Búlgaríumeisturum Irbis-Skate í Evrópukeppni félagsliða í íshokkí í Belgrad.

„Mér fannst við vera betri framan af en þeir refsa okkur fyrir mistök,“ sagði Egill Þormóðsson, annar varafyrirliða Esju, eftir 4:2-tapið gegn Búlgaríumeisturum Irbis-Skate í Evrópukeppni félagsliða í íshokkí í Belgrad.

Þetta var annar leikur Esju af þremur um helgina en liðið tapaði fyrir Rauðu stjörnunni, heimamönnum, í gær og mætir svo Tyrklandsmeisturunum á morgun. Leikurinn við Irbis í dag var nokkuð jafn en Búlgararnir fögnuðu á endanum sigri:

„Þetta voru augljóslega miklir reynsluboltar, góðir að spila á milli sín en ekki það var mikill hraði í þeim. Við vildum refsa þeim aðeins með því að vera á undan í pekkina og mér fannst við vera skrefi á undan þeim, sérstaklega í öðrum leikhluta, en svo skoruðu þeir eftir klaufamistök hjá okkur hvað eftir annað. Svona fór þetta því bara,“ sagði Egill, sem skoraði seinna mark Esju í leiknum og minnkaði þá muninn í 3:2 þegar enn voru þrettán mínútur til leiksloka.

„Við höfðum fulla trú á þessu þá og fengum „power play“ í kjölfarið. Það munaði ekki miklu að við næðum að nýta það því við fengum nokkur mjög góð færi til að jafna, en svo kom þetta fjórða mark þeirra sem drap leikinn eiginlega. Við reyndum hvað við gátum en markvörðurinn þeirra var mjög góður fannst mér. Þetta bara gekk ekki í dag,“ sagði Egill, en hann er ánægður með ferðina sem slíka og að Esja þreyti nú frumraun hjá íslensku félagsliði í íshokkí:

„Það er mikil reynsla fólgin í að spila hérna á móti öðrum leikmönnum en við erum vanir. Þetta er aðeins öðruvísi en í landsliðsferðunum því erlendu leikmennirnir í liðunum hækka getustigið. Þetta er mikil reynsla fyrir okkur og mjög gaman,“ sagði Egill.

Nánar er rætt við Egil í meðfylgjandi myndskeiði. Mbl.is er með Esju í Belgrad og fylgist grannt með gangi mála þar til að mótinu lýkur á morgun.

Þættir