Verður erfitt að mynda ríkisstjórn

INNLENT  | 30. október | 13:42 
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir að miðað við niðurstöðu kosninga verði erfitt að mynda ríkisstjórn. Hann segir að það stefni í að aldrei hafi jafn margir flokkar farið á þing og að skilaboð kjósenda hafi aldrei verið jafn ólík.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir að miðað við niðurstöðu kosninga verði erfitt að mynda ríkisstjórn. Hann segir að það stefni í að aldrei hafi jafn margir flokkar farið á þing og að skilaboð kjósenda hafi aldrei verið jafn ólík.

Sigmundur ræddi við mbl.is eftir að formenn flokkanna ræddu saman í kosningasjónvarpi RÚV í nótt. Sagði hann að Miðflokkurinn hefði talað fyrir ákveðinni stefnu og það virtist vera sem hún hefði fengið mikinn hljómgrunn. Sagði hann að það liti út fyrir að Miðflokkurinn gæti orðið stærsta nýja framboð hér á landi frá upphafi.

Spurður um mögulegar stjórnarmyndunarviðræður segir Sigmundur að slíkt verði erfitt. Þannig sé ljóst að möguleg stjórn Vinstri grænna, Samfylkingar, Pírata og Framsóknar verði ekki að veruleika. Spurningin sé hvort þeir flokkar muni sækja til fimmta flokks eða hvort byrjað verði á grunni. Segist hann telja síðari kostinn líklegri.

Miðflokkurinn hefur verið nokkuð harður á ákveðnu máli er varða bankana og arðgreiðslur úr þeim. Spurður hvort fylgi Miðflokksins muni duga til að fara í svo stórt mál segir Sigmundur að það fari eftir því hvernig fylgið skiptist að öðru leyti. Segir hann markmið flokksins ekki eftirgefanleg, en að á þessum tímapunkti sé of snemmt að segja til um hversu sterk samningsstaðan sé.

 

Þættir