„Ekki ögra okkur“

ERLENT  | 9. nóvember | 10:09 
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ávarpaði forseta Norður-Kóreu, Kim Jong-un, beint þegar hann ávarpaði þing Suður-Kóreu í dag. „Ekki vanmeta okkur. Ekki ögra okkur,“ sagði Trump.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ávarpaði forseta Norður-Kóreu, Kim Jong-un, beint þegar hann ávarpaði þing Suður-Kóreu í dag. „Ekki vanmeta okkur. Ekki ögra okkur,“ sagði Trump og gagnrýndi aðstæður fólks í N-Kóreu sem helst minni á myrka fantasíu (e. dark fantasy).

Hann ávarpaði Kim með því að segja honum að vopnin sem hann væri að eignast geri hann ekki öruggari og hvatti um leið aðrar þjóðir til þess að taka höndum saman og stöðva stjórnvöld í Norður-Kóreu. 

Heimsókn Trump til Suður-Kóreu er hluti af fimm ríkja heimsókn hans í Asíu. 

Trump hefur ítrekað rætt um metnað stjórnvalda í Norður-Kóreu á sviði kjarnorku í ferðinni en undanfarið ár hefur N-Kórea gert ítrekaðar tilraunir með eldflaugaskot. Grannt er fylgst með Trump í ferðinni og eru ummæli í suðurkóreska þinginu þar ekki undanskilin. Vakti það athygli að hann minntist ekki einu orði á mögulega árás á N-Kóreu líkt og hann hefur áður hótað. Eins vakti mikla athygli að hann réðst persónulega á leiðtoga N-Kóreu í ræðunni í stað landsins sem heildar. 

Að sögn Trump er farið að fjara undan stjórn Kim og í hvert skref sem hann stígi í þessa átt – og vísaði þar til kjarnorkuvopnatilrauna ríkisins – auki á vanda hans.

Ekki er líklegt að ummæli Trump varðandi afa Kim, Kim Il-sung, séu líkleg til vinsælda hjá stjórnvöldum í Pyongyang.

„Norður-Kórea er ekki sú paradís sem afi þinn sá fyrir sér. Hún er helvíti sem enginn manneskja á skilið.“ 

En Trump bauð einnig fram samninga því hann bætti við: „Þrátt fyrir alla þá glæpi sem þú hefur framið bjóðum við þér leið að betri framtíð.“

Lýðræðislega Alþýðulýðveldið Kórea var stofnað árið 1948 með stuðningi Sovétríkjanna, eftir þriggja ára hersetu Sovétmanna á norðanverðum Kóreuskaga. Skaganum var skipt upp á milli Sovétríkjanna og Bandaríkjanna eftir að Japanar, sem áður höfðu yfirráð á skaganum, voru sigraðir í síðari heimsstyrjöld.

 

Kim Il-sung var fyrsti leiðtogi landsins og hann mótaði þá hugmyndafræði sem ríkið hefur fylgt allt til þessa dags. Stefnan kallast juche á kóreskri tungu og felur í sér að ríkið verði sjálfu sér nægt um nauðsynjar. Þannig verði velferð borgara tryggð í sósíalísku skipulagi.

Þessi einangrunarstefna hefur leitt af sér margs konar hörmungar fyrir almenna borgara. Árið 1996 er talið að þrjár milljónir íbúa hafi látist úr hungri í kjölfar flóða og uppskerubrests.

Árið 1994 lést Kim Il-sung og þá tók sonur hans, Kim Jong-il, við æðstu stjórn landsins. Hann hélt áfram að framfylgja stefnu föður síns, ekki síst hvað uppbyggingu herafla ríkisins varðar, að því er fram kom í frétt Morgunblaðsins í sumar. 

Þættir