Þrjár stúlkur í lífshættu

ERLENT  | 8. nóvember | 10:58 
Mikil sorg ríkir meðal barna í grunnskóla í Sydney eftir að bifreið var ekið inn í skólastofu þeirra í gær. Tveir átta ára gamlir drengir létust og þrjár stúlkur eru í lífshættu en konan sem ók bifreiðinni hefur verið ákærð fyrir manndráp af gáleysi.

Mikil sorg ríkir meðal barna í grunnskóla í Sydney eftir að bifreið var ekið inn í skólastofu þeirra í gær. Tveir átta ára gamlir drengir létust og þrjár stúlkur eru í lífshættu en konan sem ók bifreiðinni hefur verið ákærð fyrir manndráp af gáleysi.

Konan sem ók bifreiðinni, Maha Al-Shennag, var að keyra börn sín í Banksia Road skólann þegar hún virðist hafa misst stjórn á bifreiðinni og ók inn í kennslustofu barnanna. Alls voru 24 nemendur inni í stofunni ásamt kennara sínum.

Lögfræðingur hennar, Nick Hanna, segir í viðtali við Sydney Daily Telegraph, að skjólstæðingur hans sé gjörsamlega miður sín og hugur hennar sé hjá öllum þeim sem eigi um sárt að binda. 

Al-Shennag hefur verið svipt ökuleyfi vegna þessa og er gert að koma fyrir dómara 29. nóvember.

Kennt var í skólanum í dag en þar voru sálfræðingar og aðrir ráðgjafar til staðar fyrir börn í skólanum. Íbúar í nágrenni skólans eru lamaðir eftir atvikið og segja að allir þekki alla á þessum slóðum. Bráðaliði sem kom á vettvang segir að aðkoman hafi verið skelfileg og foreldrar taka í sama streng. Annar drengjanna lést ekki fyrr en hann var kominn á sjúkrahús og að sögn manns sem kom að því að lyfta bifreiðinni ofan af hinum drengnum að hann hafi heyrt drenginn segja: „Ég vil fá mömmu mína.“ Henni hafi hins vegar ekki auðnast að sjá hann áður en hann lést af völdum áverka sem hann hlaut.

Frétt mbl.is: Harmleikur í Sydney

Þættir