Íslenskur ævintýraheimur á Venice Beach

INNLENT  | 8. nóvember | 16:20 
Litríkar og skrautlegar persónur Tulipop-heimsins gleðja nú vegfarendur á Venice Beach í Los Angeles þessa dagana. Færri vita kannski að um alíslenskar persónur er að ræða.

 

Attachment: "Vegglistaverk Tulipop á Venice Beach" nr. 10501

 

 

Litríkar og skrautlegar persónur Tulipop-heimsins gleðja nú vegfarendur á Venice Beach í Los Angeles þessa dagana. Færri vita kannski að um alíslenskar persónur er að ræða.

„Við erum að fagna þeim áfanga að Tulipop er komið til Bandaríkjanna, en við opnuðum skrifstofu í New York fyrr á árinu og nú er Tulipop vörulínan er nú komin í 300 Hot Topic verslanir vítt og breitt um Bandaríkin,“ segir Signý Kolbeinsdóttir, annar af stofnendum og eigendum Tulipop. Fyrirtækið var stofnað árið 2010 af Signýju og Helgu Árnadóttur með það markmið að búa til skapandi og fallega vörulínu fyrir börn á öllum aldri.

Vegglistaverkið á Venice Beach er hluti af herferð fyrirtækisins til að kynna Tulipop-heiminn og persónurnar í Bandaríkjunum. Í myndbandinu hér að ofan má fylgjast með listaverkinu verða að veruleika.

 

„Veggurinn er staðsettur á æðislegum stað og er hluti af hinum þekktu Venice Beach Art Walls. Við ákváðum að setja upp vegglistaverkið í L.A. þar sem að flestar Hot Topic búðirnar eru á vesturströndinni, og völdum Venice Beach þar sem að það er skemmtilegt hverfi, með iðandi mannlífi, flottum búðum, hjólabrettasvæðum, og auðvitað æðislegri strönd,“ segir Signý.  

Hönnun listaverksins var í hennar höndum og segir hún verkefnið hafa verið skemmtilega áskorun þar sem hún hafi aldrei áður notað spreybrúsa á ævinni. „Ég ákvað að skreyta vegginn með sem flestum persónum úr Tulipop heiminum og fékk svo bróður minn, Björn Magnússon, til liðs við mig til þess að skreyta vegginn en hann hefur um árabil verið að gera graffíti og veggjalist.“

 

Ferð til Íslands í boði fyrir vini Tulipop

Ásamt því að njóta sköpunarkraftsins og litadýrðarinnar sem einkennir Tulipop-heiminn geta vegfarendur dottið í lukkupottinn, en með því að taka mynd af veggnum og setja á samfélagsmiðla undir myllumerkinu #TulipopUSA getur fólk átt möguleika á að vinna flug fyrir tvo til Íslands með WOW air. Einnig er hægt að taka mynd af Tulipop vöru eða hreinlega teikna sinn eigin Tulipop karakter til að taka þátt. „Ég hvet alla til að benda vinum og vandamönnum í Bandaríkjunum á leikinn en hægt er að taka þátt til 17. nóvember,“ segir Signý.

 

Vöxtur Tulipop hefur verið hraður síðasta árið. Ásamt því að opna skrifstofu í New York opnaði fyrirtækið sína fyrstu flaggskipsverslun á Skólavörðustíg í sumar. „Við settum svo okkar fyrstu teiknimyndaseríu í loftið á nýrri Tulipop rás á YouTube rás fyrir mánuði síðan og erum að vinna í að koma sjónvarpsteiknimyndaseríu á koppinn,“ segir Signý.

Frétt mbl.is: Teiknimyndir frá Tulipop á YouTube

 

Þættir