Fyrsti íslenski broddgölturinn

INNLENT  | 10. nóvember | 17:22 
Afríski broddgölturinn Bernie á heiðurinn af því að vera fyrsti broddgöltur landsins en hann kom til landsins í sumar eftir langt og strangt ferli sem tók rúmt ár. Eigandinn er Eszter Tekla Fekete sem flutti nýverið til landsins frá Ungverjalandi ásamt fjölskyldu sinni.

Afríski broddgölturinn Bernie á heiðurinn af því að vera fyrsti broddgöltur landsins en hann kom til landsins í sumar eftir langt og strangt ferli sem tók rúmt ár. Eigandinn er Eszter Tekla Fekete sem flutti nýverið til landsins frá Ungverjalandi ásamt fjölskyldu sinni. Hún hefur átt Bernie frá árinu 2015.

Faðir hennar, Péter Zsolt Fekete, sótti um innflutninginn til yfirvalda í maí árið 2016 en fékk synjun. Honum var þó bent á að mögulegt væri að sækja um undanþágu fyrir innflutningnum og eftir að hafa skilað ítarlegu áhættumati til Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar fékkst leyfi fyrir innflutningnum. Fekete starfaði um árabil við rannsóknir á dýrum og gat því gert matið sjálfur.

Síðan tóku við rannsóknir og prófanir á heilsufari og líkamlegu ástandi Bernies. Þegar niðurstöðurnar lágu fyrir var loks hægt að fljúga með Bernie til landsins í lok júlí þar sem við tók fjögurra vikna sóttkví.

mbl.is heilsaði upp á broddgöltinn Bernie og það var ekki annað að sjá en hann yndi sér vel hér á landi.

 

Þættir