Húsakynni nýs Landsréttar

INNLENT  | 29. desember | 14:02 
Eftir helgi tekur Landsréttur, hið nýja millidómsstig, til starfa í húsnæði sínu til næstu fimm ára hið minnsta sem er við Vesturvör í Kópavogi. Húsnæðið var m.a. áður nýtt af Samgöngustofu og hefur þurft að aðlaga það að nýju hlutverki. mbl.is kíkti á Landsrétt.

Eftir helgi tekur Landsréttur, hið nýja millidómsstig, til starfa í húsnæði sínu til næstu fimm ára hið minnsta sem er við Vesturvör í Kópavogi. Húsnæðið var m.a. áður nýtt af Samgöngustofu og hefur þurft að aðlaga það að nýju hlutverki en Björn L. Björnsson skrifstofustjóri segir aðgengi að dómsölum ekki nægilega gott fyrir dómara. Hinsvegar hafi húsnæðið ýmsa aðra kosti.

Íslenskt réttarkerfi er sífellt að verða tæknivæddara en fullkominn upptöku- og afspilunarbúnaður er til staðar í dómsölunum sem verða þrír talsins. Einn stór salur mun rýma um og yfir 40 manns í sæti og þá er verið að innrétta tvo minni sali. Unnið er að því að koma slíkum búnaði fyrir á héraðsdómsstigi. Tilgangurinn er að hægt sé að endurspila fyrri sönnunarfærslu. „Bæði til þess að endurtaka sönnunarfærsluna en líka til að hægt sé að kynna sér hvað vitni hafa sagt í héraði með betri hætti þ.e.a.s. ekki bara lesa það heldur líka er hægt að hlusta á það og horfa á það líka,“ segir Björn.   

Til að byrja með munu 25 manns starfa við Landsrétt en Björn segir það verði svo tekið til endurskoðunar þegar fram líða stundir en heimild er fyrir allt að 32 starfsmenn við dómsstigið. Gert er ráð fyrir að kostnaður við Landsrétt verði 681 milljón kr. á árinu 2018. 

 

mbl.is kíkti á Landsrétt en verið er að leggja lokahönd á frágang húsnæðisins þessa dagana. 

Þættir