Fer hamförum á Twitter

ERLENT  | 12. janúar | 10:02 
Franskur heimilislaus maður hefur slegið í gegn á Twitter að undanförnu með lýsingum sínum á lífinu á götum Parísarborgar. Fylgjendur hans eru um 20 þúsund talsins.

Franskur heimilislaus maður hefur slegið í gegn á Twitter að undanförnu með lýsingum sínum á lífinu á götum Parísarborgar. Fylgjendur hans eru um 20 þúsund talsins.

Christian Page, sem er 45 ára gamall, var yfirþjónn á fínum veitingastað skammt frá Madeleine-brautarstöðinni áður en hann varð heimilislaus í kjölfar skilnaðar. Eftir skilnaðinn glímdi hann við alvarlegt þunglyndi.

Page minnist þess að hafa þjónað íþróttamönnum eins og Zlatan Ibrahimovic þegar hann var í Parísarliðinu í knattspyrnu og tennismeistaranum Rafael Nadal. En einn daginn var honum öllum lokið og fann að hann gat ekki lengur þjónað fólki til borðs með bros á vor og sagði upp starfinu.

Baráttan við að komast af á atvinnuleysisbótum, sem nema 545 evrum (68.400 krónum) á mánuði, var frá upphafi vonlaus fyrir mann á leigumarkaði og missti hann íbúðina í apríl 2015. 

Í dag er gatan heimili hans þar sem hann er vopnaður gömlum snjallsíma með brotinn skjá. Þar fer hann hamförum á Twitter og ryður út úr sér fúkyrðunum yfir innantómum loforðum stjórnmálamanna. Page biðlar til yfirvalda um að grípa til aðgerða til þess að bæta hag þeirra sem hvergi eiga höfði sínu að að halla. 

Á jóladag birti hann mynd á Twitter af járngrindum sem borgaryfirvöld hafa sett í kringum loftræstiop þar sem heimilislausir voru vanir að hlýja sér. Skilaboðunum var deilt yfir tvö þúsund sinnum og endaði þetta með því að borgaryfirvöld fjarlægðu grindurnar. 

 Salut à tous 🙋

Kannski smásigur í huga sumra en stórsigur fyrir heimilislausa. Page rataði á forsíður fjölmiðla með færslunni og í kjölfarið fjölgaði fylgjendum hans hratt og blaðamenn og fréttamenn stóðu í biðröð eftir viðtali við manninn á götunni. 

Twitter er ekki vopn en öflugt tæki

Meira en ár er síðan hann setti sína fyrstu færslu um lífið á götunni á Twitter. Færslan var um það þegar hann var vakinn upp fyrir dögun af borgarstarfsmönnum sem sprautuðu yfir hann köldu vatni. Þrátt fyrir að fylgjendur hans væru aðeins sex á þessum tíma náði færslan athygli borgarstjórans í París, sósíalistans Anne Hidalgo, sem bað hann afsökunar og gaf honum nýjan svefnpoka. 

„Twitter er ekki vopn en það er öflugt,“ segir Page í viðtali við AFP. 

Page lætur ekki nægja að kvarta yfir aðstæðum heimilislausra því hann notar Twitter einnig til þess að betla. Og það skilar árangri. Um jól og áramót lét góðhjartaður Parísarbúi hann fá lykla að íbúð sinni og eins hefur honum áskotnast fatnaður og skór sem hann deilir með öðrum. Þrátt fyrir athyglina sem hann hefur fengið hefur Page engan áhuga á að verða talsmaður þeirra 143 þúsund sem búa á götum úti í Frakklandi. 

„Ég er ánægður með að skilaboð mín heyrast. Það getur þýtt að heimilislaus maður einhvers staðar annars staðar í Frakklandi fær samloku,“ segir Page. Hann er óvæginn þegar góðgerðarsamtök ber á góma í viðtalinu. Page segir þau stórmarkaði eymdar sem geri ekki nóg til þess að styðja þá sem minna mega sín. 

Hann er vongóður um að losna af götunni enda geti allt gerst segir Page, sem á fimmtán ára gamlan son. „Allt getur gerst og miðað við heppni mína ætti ég að taka þátt í lottóinu.“

 

Þættir