Ferjuðu kindurnar á gúmmíbát

INNLENT  | 24. febrúar | 17:35 
Nóttin var stormasöm hjá Bergljótu Rist, eigandi hestaleigunnar Íslenski hesturinn í Fjárborg á Hólmsheiði í útjaðri borgarinnar. Slökkviliðið á höfuðborg­ar­svæðinu ásamt björg­un­ar­sveit bjargaði tug­um dýra í hestaleigunnar í nótt eftir að flætt hafði inn í hest­hús og fjár­hús.

Nóttin var stormasöm hjá Bergljótu Rist, eigandi hestaleigunnar Íslenski hesturinn í Fjárborg á Hólmsheiði í útjaðri borgarinnar.

Slökkviliðið á höfuðborg­ar­svæðinu ásamt björg­un­ar­sveit bjargaði tug­um dýra í hestaleigunnar í nótt eftir að flætt hafði inn í hest­hús Bergljótar og fjár­hús sem er í eigu nágrannans.

Frétt mbl

Bergljót segist hafa farið upp í hesthús til að gefa hrossunum klukkan sjö í gærvöldi. Þá hafi allt verið í rólegheitum. Það var síðan um tíuleytið sem hún fékk símtal frá fólki með hesta á næsta bæ, en þá var allt komið á kaf.

 

„Gatan var gjörsamlega á floti,“ segir Bergljót, en vatnshæðin náði upp fyrir hné þegar gengið var að húsinu. Hún hringdi strax á slökkvilið, en einhver tími leið áður en það kom á vettvang enda miklar annir í gær.

Tveir dælubílar slökkviliðsins komu að lokum og unnu að því að veita vatni úr húsinu. Tveir slökkviliðsmenn og nágranni hjálpuðu Bergljótu að koma dýrunum yfir í annað hús sem þau eiga. Það hús stendur ofar í hæðinni og slapp því við vatnstjón.

Það reyndist þrautinni þyngri að koma dýrunum milli húsa enda allt á floti innanhúss sem utan auk þess sem rafmagnið var farið af. Björgunarsveitarmenn notuðust meðal annars við gúmmíbát til að selflytja kindurnar á milli húsanna.

 

Aðspurð segir Bergljót tjónið á byggingunni vera mikið. „Það var engu líkara en húsið væri skip á siglingu,“ segir hún. Svo mikill var vatnselgurinn og rokið. „Ég reyndi að bjarga því sem ég gat, haldandi á einhverjum hnökkum í myrkrinu.“ Ýmis verðmæti hafi einnig glatast, til að mynda hey. Skepnurnar eru þó óhultar. Kindur nágrannans eru komnar aftur í húsið sitt en hestarnir enn í bráðabirgðastíunum.

 

Þættir